fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Eyjan
Fimmtudaginn 14. mars 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á nýgerðum kjarasamningum eru tvær hliðar. Önnur er efnahagsleg. Hin er pólitísk.

  • Enn er allt á huldu um áhrifin af þætti ríkisstjórnarinnar á frekari lækkun verðbólgu og vaxta. Eftir nokkurra mánaða umhugsunartíma svarar hún út og suður um það efni.
  • Markmiðið ríkisstjórnarinnar er svo lágreist að stefnt er að tvöfalt hærri verðbólgu en á öðrum Norðurlöndum. Eðlilegt markmið væri sama vaxtastig og hjá samkeppnisþjóðunum.
  • Pólitíska hliðin er skýrari: VG nýtti síðasta sóknarfærið til þess að sveigja málefnastöðu stjórnarsamstarfsins sér í hag í velferðarmálum. Segja má að Katrín Jakobsdóttir hafi lagt samstarfsflokkana í gólfið með hælkrók.

Helsti áhrifavaldurinn

Jafnvel hóflegar launahækkanir lækka ekki verðbólgu. Þær geta í besta falli verið hlutlausar gagnvart því lækkunarferli, sem er í gangi.

Verðbólga hefur lækkað og horfur á að svo verði áfram. Ástæðan er lækkun verðbólgu erlendis og áhrif aðgerða Seðlabankans.

Beinar launahækkanir trufla ekki þetta fyrirsjáanlega lækkunarferli. Þannig séð er þetta besta mögulega niðurstaða.

Hinu má svo ekki gleyma að þenslustig á vinnumarkaði leiðir oft til annarrar launaþróunar en samningar segja til um eins og Hagfræðistofnun hefur bent á.

En nú er fyrirséður samdráttur í ferðaþjónustu vegna náttúruhamfara og versnandi samkeppnisstöðu landsins. Þessi snöggu umskipti frá ofþenslu í samdrátt munu í raun  ráða mestu um lækkun vaxta á næstunni.

Útideyfa við ríkisstjórnarborðið

Aðilar vinnumarkaðarins ákváðu að ríkissjóður skyldi greiða tvo þriðju af kostnaði við kjarabætur láglaunafólks með áttatíu milljarða króna viðbót til velferðarmála á samningstímanum.

Þessi aðgerð lækkar ekki verðbólgu. Hún getur aftur á móti verið hlutlaus að því gefnu að hún verði þegar í stað fjármögnuð að fullu.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þótt fjárhæðin hafi legið á ríkisstjórnarborðinu í meira en tvo mánuði hafa stjórnarflokkarnir ekki enn komið sér saman um viðbrögð.

Ráðherrarnir vísa bara í fjármálaáætlun, sem tekur gildi á næsta ári. Hún hefur ekki afturvirk áhrif á stöðu þessa árs. Að stærstum hluta lendir það á næstu ríkisstjórn að breyta þeim áætlunum í raunverulegar ákvarðanir og aðgerðir.

Eins og sakir standa þýðir útideyfa ríkisstjórnarinnar því að hennar hlutur í samningunum mun vinna gegn verðbólgumarkmiðinu. Verðbólgan mun þó halda áfram að lækka af öðrum ástæðum.

Samkeppnishæfir vextir eru þó hvorki í sjónmáli né á stefnuskrá. Það endurspeglar metnaðarlausa efnahagsstjórn.

Heildarmyndin

Óleystur vandi ríkissjóðs er miklu meiri en nemur þessum nýju velferðarútgjöldum. Frá því að fjárlög þessa árs voru afgreidd með verulegum halla og þensluáhrifum hafa bæst við margvísleg ný ófjármögnuð útgjöld.

Nefna má aðgerðir vegna náttúruhamfara, sem ætla má að verði viðvarandi um mörg komandi ár. Kostnaður við áformaðar samgönguframkvæmdir hefur tvöfaldast og þrefaldast við nýjan Landspítala. Líklega er hér fremur um að tefla hundruð milljarða króna en tugi.

Út frá markmiðum um lækkun verðbólgu og vaxta þarf að leysa heildarvandann á næstu dögum. Ella blasir við sú afar skýra mynd að ríkissjóður er enn að blása í glæður verðbólgunnar, svo vísað sé í endurteknar lýsingar Viðskiptaráðs á ríkisfjármálastefnunni undanfarin ár.

Hælkrókur

Tuttugu milljarða króna varanleg árleg aukning velferðarútgjalda er hins vegar meiri háttar pólitískur sigur fyrir VG, eina vinstri flokkinn í stjórnarsamstarfinu.

Um miðjan janúar var á þessum vettvangi bent á að kjarasamningarnir yrðu síðasta tækifæri VG til að snúa stjórnarsamstarfinu málefnalega sér í hag. Satt best að segja var ekki unnt að nýta tækifærið betur.

Pólitík er stundum líkt við glímu. Sé sú líking notuð má segja að Katrín Jakobsdóttir hafi náð sterkum undirtökum og lagt þingmenn stærsta samstarfsflokksins með hælkrók hvern á fætur öðrum.

Svarti Pétur

Formaður VG þurfti ekki einu sinni að setja fram hugmyndir um hvernig borga ætti brúsann. Þingmenn sjálfstæðismanna sitja uppi með þann Svarta Pétur.

Og þeir geta ekki enn svarað því hvort þeir eru í færum um að leysa verkefnið.

Kannski féllu þingmennirnir málefnalega í gólfið af því að þeir stigu ekki glímuna við VG. Einu gildir hver skýringin er. Leikslokin gilda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði

Svarthöfði skrifar: Stjórnarandstaðan krossleggur lappir og þykist óspjölluð og hrein – talar gegn lýðræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Reiði skólameistarinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hallgrímur Pétursson í jólabókaflóðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
EyjanFastir pennar
17.11.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Dýr mundi Trump allur, ef svo skyldi æra hans

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Dýr mundi Trump allur, ef svo skyldi æra hans
EyjanFastir pennar
16.11.2025

Björn Jón skrifar: Fleiri þurfa að koma að rekstri skóla

Björn Jón skrifar: Fleiri þurfa að koma að rekstri skóla