fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Steingrímur J. yrði aldrei vænlegt gluggaskraut

Eyjan
Föstudaginn 2. febrúar 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að Katrín Jakobsdóttir geti ekki með neinu móti reynt að uppfylla metnað sinn um að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í vor vegna þess að enginn getur tekið við flokki hennar, Vinstri grænum. Eða öllu heldur tekið við því sökkvandi skipi sem flokkurinn er ef marka má skoðanakannanir sem hafa mælt fylgi hans stöðugt minnkandi í hverjum mánuði allt frá haustinu 2022. Nýjasta Gallup könnunin gerir ráð fyrir því að VG hlyti 5,5 prósent stuðning og einungis þrjá þingmenn kjörna.

Formaður flokksins á mjög erfitt með að stíga frá borði við þessar aðstæður. Það væri mikil uppgjöf þegar flokkurinn er við það að fara niður fyrir þau fimm prósent mörk sem þarf til að fá fulltrúa kjörna á þing. Orðið á götunni er að Katrínu hafi lengi dreymt um að komast á Bessastaði og miðað þá við að Svandís Svavarsdóttir tæki við formennsku í flokknum. En nú hefur því miður komið á daginn að Svandís glímir við erfið veikindi, þarf að gangast undir aðgerð vegna krabbameins og viðeigandi meðferð í kjölfarið. Ef litið er yfir hóp þingmanna flokksins sér hver maður að enginn hinna í þingflokknum gæti tekið við forystu Vinstri grænna sem stendur. Þá er um að ræða varaformanninn Guðmund Inga Guðbrandsson, Bjarkey Olsen, Bjarna Jónsson, Jódísi Skúladóttur, Orra Pál Jóhannsson og Steinunni Þóru Árnadóttur. Ekkert þeirra er til forystu fallið.

Árið 2013, við lok vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, voru aðstæður þannig í flokki Vinstri grænna að allar skoðanakannanir bentu til þess að hætta væri á að flokkurinn þurrkaðist út af Alþingi. Þá var brugðið á það ráð að láta þáverandi varaformann, hina ungu Katrínu Jakobsdóttur, taka skyndilega við formennsku af Steingrími J. Sigfússyni sem hélt áfram í framboði en lét lítið fyrir sér fara. Katrín tók slaginn fyrir flokkinn og tryggði að hann félli ekki út af Alþingi. Þessi aðgerð tryggði flokknum áframhaldandi líf þá. Morgunblaðið var svo smekklegt að uppnefna breytinguna þannig að tala um „gluggaskraut“ og þóttust þar margir kenna hnignandi skopskyn Davíðs Oddssonar ritstjóra.

Víst er að þessi ósmekklega setning hefur lifað í minni manna. Ef svo ólíklega vildi til að Katrín Jakobsdóttir tæki ákvörðun um að yfirgefa flokk sinn í sárri neyð og þjóna persónulegum metnaði sínum með því að bjóða sig fram til embættis forseta í vor gæti komið upp sú staða að dæminu frá árinu 2013 yrði snúið við og Vinstri grænir byðu Sjálfstæðisflokknum og Framsókn upp á að Steingrímur J. Sigfússon tæki við af henni sem forsætisráðherra. Hvernig samstarfsflokkarnir tækju því að Steingrímur gengi aftur er svo önnur saga! Þótt Steingrímur sé nú hættur þingsetu eftir langan feril er hann enn ekki nema 69 ára á þessu ári og við góða heilsu það menn best vita. Skefjalaus metnaður rjátlast seint af gömlum stjórnmálamönnum eins og dæmin sanna, sum býsna dapurleg.

Orðið á götunni er að Katrín sé rekin áfram af sjúklegum metnaði en örlögin hafa hagað því svo að hún getur sig varla hreyft. Alvöruskipstjóri á sökkvandi skipi fer síðastur frá borði. Verði reynt að tefla Steingrími J. fram sem bjargvætti hlyti að reyna á forystu samstarfsflokkanna sem sýnt hefur ótrúlegt geðleysi í samskiptum við Vinstri græna. Því skyldu menn ekki útiloka neitt.

Engu að síður eru samt takmörk fyrir öllu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki