fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Maðurinn sem varð að snúa aftur

Eyjan
Laugardaginn 17. febrúar 2024 16:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar hyllir undir að aldarfjórðungur sé liðinn af nýrri öld – og það liggi fyrir að mannkynið hafi lítið sem ekkert lært af hildarleik síðustu aldar, blasir það einnig við að lýðræði og skoðanafrelsi á í vök að verjast. Að hvoru tveggja er sótt af meiri þunga og illmennsku en núlifandi kynslóðir hafa kynnst á sinni ævi. Og sem fyrr, mega kyndilberar frelsis og mannúðar sín lítils. Eins og endranær eru þeir hrópendur í eyðimörkinni.

Dauði Alexei Navalny er síðasta áminningin í þessum efnum.

Í huga svo fjölda Rússa – og svo margra annarra um álfur jarðar – var hann andlit vonar og trúar um að hægt væri að snúa af braut spillingar og valdníðslu í víðfeðma landinu í austri, en það hefur enn á ný lent í klóm einræðisafla sem svífast einskis til að halda illa fengnum völdum.

Það var nokkur von til þess við kærkomið fall Sovétríkjanna fyrir hálfum fjórða áratug að lýðréttindi gætu fest sig í sessi í Rússlandi – og margur hafði á orði að þjóðin ætti það skilið eftir að hafa lifað í heilan mannsaldur undir mannfjandsamlegu miskunnarleysi Kremlarherranna. En hafi skinið á þá tíru um stund, var það villuljós.

Meginþorri Rússa, sem gerði sér einhverjar vonir um að samfélag þeirra færðist nær vestrænum gildum á borð við almenn mannréttindi við endalok kommúnismans, hefur þvert á móti séð hvernig auðlindum landsins hefur verið rænt og komið í hendur útvalinnar klíku. Og valdaránið það arna hefur svo aftur leitt til þess að nýtt járntjald hefur fallið í austanverðri Evrópu. Rússlandi hefur verið lokað. Lyklinum hent á haf út.

Og nýr stalínískur stubbur reynir að auka á hæð sína í öllum skilningi.

„Navalny verður einn af mönnum aldarinnar.“

Það er í þessu andrúmi sem Alexei Navalny steig fram á sjónarsviðið – og bauð stæku stjórnvaldinu byrginn. Sjálfur var hann á unglingsaldri þegar hann og aðrir vonglaðir jafnaldrar sáu Ráðstjórnarríkin liðast í sundur og hvert þeirra af öðru færa völdin til fólksins á ný.

Og líklega var hann búinn til úr þeim vonbrigðum að sjá hvernig þveröfugu var farið í heimalandinu þegar hann var kominn fram á fullorðinsár og farinn að leggja lögfræðina fyrir sig. Í krafti þeirrar menntunar og meðfæddrar réttlætiskenndar, reis hann upp og krafðist úrbóta. Hann freistaði þess meira að segja að leggja Pútín að velli í forsetakosningum, en það var kannski meira gert í táknrænni viðleitni til að sýna kollótt kosningakerfið í landinu.

Pútín tókst að drepa hann í annarri tilraun. Eiturbyrlunin mistókst 2020. Þá var honum naumlega bjargað vestan tjaldsins. Og fátt ef nokkuð, er betur til þess fallið að lýsa baráttuanda Navalnys, en að hann hélt aftur heim. „Ég verð að snúa aftur,“ sagði hann í samtali við sjónvarpsfréttakonuna Christiane Amanpour eftir banatilræðið. „Ég hygg að ég muni ekki njóta þeirra forréttinda í heimalandi mínu að búa við öryggi, en ég verð samt að fara þangað, því ég vil ekki að hópur morðingja fái þrifist þar. Og ég vil ekki að Pútín ráði Rússlandi.“

En við vitum hvernig fór. Það var ekki nóg að fangelsa manninn. Vægi hans var eftir sem áður of mikið. Það varð að drepa hann. Hrækja á vonarljósið. En ljómi þjóðhetjunnar mun samt ekki dvína. Látinn verður hann voldugri andstæðingur Pútíns en lifandi. Og meira til, því Navalny verður einn af mönnum aldarinnar.

Og mun smækka Pútín, svo peðið eitt stendur eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins