fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Eyjan

Berglind Rán Ólafsdóttir: Engar sinar, bara hreinn vöðvi, í vistkjöti – bragðast líka vel, sem skiptir mestu máli

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 16. febrúar 2024 17:30

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra Orf líftækni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orf líftækni er í fremstu röð fyrirtækja í heiminum sem vinna að þróun próteins til nota við framleiðslu vistkjöts en slíkri framleiðslu fylgir mun minni losun gróðurhúsalofttegunda en mögulegt er að ná fram í hefðbundinni kjötframleiðslu. Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra Orf líftækni, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni. Þau ræða meðal annars um smökkun á vistkjöti hér á landi í vikunni, fyrstu opinberri smökkun slíks kjöts í Evrópu.

Markaðurinn - Berglind Rán Ólafsdóttir - 1.mp4
play-sharp-fill

Markaðurinn - Berglind Rán Ólafsdóttir - 1.mp4

„Þetta var mikilvægur áfangi fyrir okkur og fyrir vistkjötsheiminn, sérstaklega í Evrópu, því að það hefur ekki verið smakkað opinberlega, svo við vitum, nema náttúrlega hjá fyrirtækjunum sem eru að framleiða þetta. Við höfum síðan 2019 verið í viðskiptum við marga tugi vistkjötsframleiðenda um heim allan, því miður ekkert á Íslandi enn þá, en það er nú vonandi að fara að breytast. Þessi fyrirtæki hafa verið að nota okkar vaxtarþætti í rannsóknarstarfið sitt þar sem þau eru að þróa aðferðirnar til að framleiða,“ segir Berglind.

„Einn af þessum viðskiptavinum okkar er Vow, fyrirtæki í Ástralíu sem við héldum þessa smökkun með. Þetta fyrirtæki er komið einna lengst í því að skala upp framleiðslumagnið, sem tekur við þegar rannsóknarfasanum er lokið, og við ákváðum að skella í eina smökkun og leyfa hópi Íslendinga að vera með þeim fyrstu til að smakka. Þetta var rosalega skemmtilegt.“

Og þetta hefur bragðast vel?

„Já, þetta bragðaðist mjög vel og það er náttúrlega það sem skiptir mestu máli.“

Er þá ekki merkjanlegur munur á þessu og bara hefðbundnu kjöti?

„Í rauninni ekki og flest, ef ekki öll, sem prófa þetta kjöt smakka þetta og segja: Þetta er bara kjöt. enda, kjöt sem við erum að borða, það er vöðvafrumur og fitufrumur og svo einhverjar sinar. Þetta sem við vorum að borða var í rauninni vöðvafrumur sem eru eins og við værum að borða ef þetta væri af lifandi dýri.

Nema, ekki sinarnar?

„Engar sinar og það þarf ekki að henda neinum beinum. Þannig að þetta er mjög spennandi og verður mjög spennandi valkostur.“

Á tímum loftslagsbreytinga, loftslagsvár, getur þetta haft umtalsverð áhrif í baráttunni gegn loftslagsvánni, ímynda ég mér.

„Já, algerlega. Það er náttúrlega það sem drífur okkur áfram, það er tilgangurinn með þessu öllu. Við erum að framleiða próteinin í bygginu. Við einangrum próteinin úr fræjunum og svo seljum við það og sendum til okkar viðskiptavina í litlum glerkrukkum – þurrkað prótein. Svo eru það okkar viðskiptavinir sem þróa og framleiða kjötið. Tilgangurinn með þeirri þróun er að búa til prótein afurðir til að fæða fólk í heiminum með minni losun heldur en hefðbundin framleiðsla,“ segir Berglind.

Þannig að það er sótt í jurtaríkið til þess að framleiða kjöt?

„Já, og svo það sé nú sagt vegna þess að það er mikilvægt að skoða þetta allt í samhengi; það er best að borða plöntur ef maður horfir á loftslagsáhrifin, en við erum ekki að borða þessar plöntuafurðir sem hafa verið til í búðum mjög lengi. Það voru náttúrlega vonbrigði og eru. Línan í sölunni er flöt. Það er af því að við mörg viljum fá þetta bragð sem er bara í kjötinu.“

Berglind segir það einnig áhugaverðan vinkil á þessu að gera plöntuafurðir með meira kjötbragði og segir fyrirtæki, sem tilheyri vistkjötsframleiðendum framleiða fitufrumur, ekki vöðvafrumur eins og var í smakkinu á dögunum heldur einungis fitufrumur sem síðan séu settar í plöntuprótein afurðir til þess að gera þær líkari kjöti, búa til dýptina og bragðið sem flestir sækjast í. Þess vegna megi búast við því að fjölbreyttar vörur komi út úr þessu þróunarstarfi, bæði kjöt og einnig hefðbundnari vegan afurðir með viðbættum fitufrumum. Svo geti hver ákveðið fyrir sig.

Í þættinum ræðir Berglind meðal annars um sögu fyrirtækisins, sem spannar meira en tvo áratugi, en árið 2022 var BioEffect snyrtivöruhlutinn aðskilinn frá Orf líftækni og eru þetta nú tvö aðskilin félög þótt eigendurnir séu hinir sömu. Orf líftækni er nú í fjármögnunarfasa til að fjármagna frekari vöxt. Hún kemur inn á hremmingarnar sem fyrirtækið varð fyrir þegar 2000 fermetra gróðurhús þess við Grindavík eyðilagðist í jarðhræringum. Sjónvarpsáhorfendur þekkja þetta gróðurhús vel þar sem það stendur autt milli tveggja hrauntungna. Til allrar hamingju tókst að bjarga birgðum og plöntum þannig að tjónið er að mestu fólgið í þeirri töf sem verður á þróunarstarfi félagsins, sem hyggst reisa annað gróðurhús í stað þess ónýta á þessu ári.

En stóra málið er vitaskuld þróun og framleiðsla á próteini til vistkjötsframleiðslu. Orf líftækni hefur samkeppnisforskot á markaðnum og tæknin sem fyrirtækið hefur þróað tryggir lægri kostnað og minni losun í ferlinu en hjá öðrum fyrirtækjum á sama sviði.

Þátturinn verður aðgengilegur í heild hér á Eyjunni í fyrramálið, laugardaginn 17. febrúar, kl. 8.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðbergur býður sig fram til forseta – Mun minnka við sig ef hann flytur til Bessastaða

Guðbergur býður sig fram til forseta – Mun minnka við sig ef hann flytur til Bessastaða
Hide picture