Íslendingar hafa sérstakt samband við Bandaríkin vegna varnarsamningsins og við eigum að nýta þetta samband til að afstýra því að tollamúrar Trumps hafi neikvæð áhrif á Ísland. Trump mun taka á hergagnaiðnaðinum og lyfjaiðnaðinum, sem í dag stjórni nánast allri stefnumörkun í Bandaríkjunum. Hér heima þurfum við að taka til hendinni og spara til að hægt sé að lækka skatta á Íslendinga, sem eru einn skattpíndasta þjóð undir sólinni, segir Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, sem er gestur í kosningasjónvarpsþætti Eyjunnar.
„Ríkisvaldið er farið að vasast í hlutum sem það á alls ekki að vera að vasast í. Ríkinu var komið á fót til að standa vörð um frið innanlands og frelsi og sinna ákveðnum grunnþáttum eins og að sjá um lágmarks heilbrigðisþjónustu, vegakerfi o.s.frv. Hér erum við að horfa á ofvaxið ríkisvald og eitt af því sem verður mjög áhugavert að sjá núna þegar Trump fer í það að manna ríkisstjórn, þá verður Elon Musk settur yfir það sem heitir hagræðingarráðuneyti ríkisins og þá sé markmiðið að draga saman ríkið, jafnvel fækka ríkisstarfsmönnum, það er vísað til þess að hann hafi sagt upp 80 prósent af starfsfólki Twitter á sínum tíma en samt bætt þjónustu félagsins og stækkað það.m Þannig að það verður áhugavert að sjá hvað gerist í þeirri tiltekt og hvort það yrði okkar tillaga að fjármálaráðuneytið myndi bara ráðast í það og loka stofnunum og segja upp þeim sem ekki eru að sinna sínu starfi. Það er margt frábært fólk að vinna hjá ríkinu. Ég hef sjálfur unnið hjá ríkinu og ég veit að þar eru unnin nauðsynleg störf. En ég veit það líka af eigin raun að þar er mikil sóun á fjármunum og vinnuframlagi sem sannarlega má taka til í,“ segir Arnar Þór.
Hann segir að með því að taka til í þessu kerfi megi spara og lækka skatta á Íslendinga, sem ekki sé vanþörf á. „Við erum ein skattpíndasta þjóð, held ég að ég geti sagt, bara undir sólinni.“
Þú nefnir Trump. Hann hefur lofað að setja á mikla tolla. Hann ætlar að leggja tolla á vörur frá Suður-Ameríku og tolla á vörur frá Evrópu, og við erum ekki að tala um neina málamyndatolla, við erum að tala um mikla tolla. Hann segir að þetta muni koma við kauninn á Evrópu, á Mexíkó, á Kína, en að þetta muni gagnast bandarískum almenningi, að áhrif tollana muni ekki verða verðhækkanir í Bandaríkjunum. Hefurðu trú á þessari stefnu Trumps?
„Ég held að það megi segja að þarna blikki vissulega ákveðin viðvörunarljós gagnvart okkur Íslendingum því að það verða reistir, hugsanlega, hærri múrar gagnvart okkur þegar þessir tollar verða settir á. Þetta eru verndartollar. Bandaríkjamenn eru að mörgu leyti sjálfbærir með hálfa heimsálfu undir, með olíuframleiðslu og matvælaframleiðslu og allt það. Það ríður á núna að við eigum góð samskipti við þessa nýju ríkisstjórn og að við beitum öllum aðferðum sem til eru til þess að ná góðum viðskiptasamningum. Það mættu að mínu viti vera tvíhliðasamningar við við Bandaríkin og við getum gert það með vísun til þess að við erum í þessu varnarsamstarfi. Við höfum átt áratuga gott samstarf við þá. Það verður að láta á þetta reyna. Við þurfum ekki endilega að sitja hér við sama borð og aðrar þjóðir. Við eigum ákveðna sérstöðu gagnvart Bandaríkjunum og það skiptir máli að við fylgjum nú þeirri stefnu og getum gengið í takt við stjórnvöld í Bandaríkjunum, eins og mér sýnist nú íslensk stjórnvöld hafi alltaf lagt sig fram um að gera.“
Arnar Þór segir mikla stríðshauka hafa verið við stjórnvölinn hér á landi, sem hafi lagt sig fram um að fylgja Biden-stjórninni að málum. Fróðlegt verði að sjá hvað gerist nú, ætli Trump að skrúfa fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu og koma á friði þar. „Munu þá stjórnmálamenn á Íslandi allt í einu fara að syngja friðarsöngva? Hvernig ætla þeir að koma málum þannig fyrir að við njótum tollahagræðis gagnvart Bandaríkjunum?“ Hann segir málið snúast um að við höfnum þeirri pólitík sem riðið hafi húsum á vesturlöndum síðustu árin með glóbalisma, með því að afiðnvæða vestræn samfélög, með því að hafa opin landamæri. Öllu þessu muni Trump breyta í Bandaríkjunum. Hann segist sannfærður um að Trump muni standa við stóru orðin. „Hann er kominn með mjög sterkt fólk sem mun styðja hann í þessu. Það verður komið böndum á hergagnaiðnaðinn, það verður komið böndum á lyfjaiðnaðinn í Bandaríkjunum, þessi svið hafa verið allt of áhrifarík á vettvangi stjórnmálanna og í rauninni hafa svörtustu aðvaranir Dwight D. Eisenhowers frá 1961 ræst í valdatíð Bidens, þar sem þessi stóru fyrirtæki hafa nánast yfirtekið stefnumörkun í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum sem við sjáum.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.