fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Eyjan

Uppnám í breska Íhaldsflokknum – Þingmaður genginn í Verkamannaflokkinn sem hann segir verða að komast til valda til að bjarga heilbrigðiskerfinu

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 29. apríl 2024 17:30

Dan Poulter (t.v.) ásamt Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins. Mynd: Leon Neal/Getty Images)

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkurt uppnám varð um helgina í breska Íhaldsflokknum eftir að þingmaður hans sagði sig úr flokknum og gekk til liðs við höfuðandstæðinginn, Verkamannaflokkinn. Þingmaðurinn sem starfar einnig sem læknir ber einkum við sífellt versnandi ástandi heilbrigðiskerfisins, NHS, og segist hafa sannfærst um það að eina leiðin til að bjarga heilbrigðiskerfinu frá stanslausri hnignun sé að Verkamannaflokkurinn komist til valda.

Þingmaðurinn heitir Dan Poulter og lauk bæði námi í lögfræði og læknisfræði en valdi síðarnefndu greinina sem sinn starfsvettvang þar til hann var kjörinn á þing í kosningum 2010. Hann var aðstoðarráðherra í heilbrigðisráðuneytinu frá 2012-2015, í tíð ríkisstjórnar David Cameron þáverandi leiðtoga Íhaldsflokksins en hefur að öðru leyti verið óbreyttur þingmaður.

Greint var frá flokkaskiptum Poulter í helstu fjölmiðlum Bretlands en hann mun ekki bjóða sig fram til endurkjörs í næstu þingkosningum.

Í umfjöllun Sky News kemur fram að Poulter hafi meðfram þingmennskunni starfað undanfarin misseri sem geðlæknir á bráðamóttöku. Hann segir að í starfi sínu hafi hann séð það vel hversu slæmt ástandið í breska heilbrigðiskerfinu sé orðið. Sjúklingar þurfi oft að bíða lengi eftir þjónustu í kerfinu, jafnvel þrátt fyrir að vera alvarlega veikir, sem þeir neyðist oft til að sækja í hundraða kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. Afar brotakennd meðferðarúrræði við fíknisjúkdómum auki sérstaklega álag á bráðamóttökur landsins.

Reyni mjög á alla

Hann segir ástandið reyna mjög ekki eingöngu á sjúklinga og fjölskyldur þeirra heldur einnig heilbrigðisstarfsfólk. Það fái mjög á kollega hans að geta ekki lengur veitt réttar meðferðir í kerfi sem einfaldlega virki ekki lengur fyrir sjúklinga.

Poulter segist hafa því ákveðið að yfirgefa Íhaldsflokkinn og einbeita sér að læknisstörfunum og því að styðja við bakið á Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins.

Hann segist hafa byrjað að starfa sem læknir árið 2006 og þá hafi þáverandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins séð til þess að umönnun hafi batnað verulega eftir vanrækslu ríkisstjórna Íhaldsflokksins.

Þess vegna hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til að lækna heilbrigðiskerfið sé að Verkamannaflokkurinn taki aftur við stjórnartaumunum.

Poulter vísaði einnig til aukinnar þjóðernishyggju innan Íhaldsflokksins.

Áfall fyrir Íhaldsflokkinn

Keir Starmer fagnaði því mjög að Poulter hefði gengið til liðs við Verkamannaflokkinn.

Stjórnmálaskýrendur segja að um sé að ræða þó nokkurt áfall fyrir Íhaldsflokkinn. Poulter sé ekki hvaða þingmaður sem er. Hann sé læknir og fyrrum aðstoðarráðherra heilbrigðismála og muni því verða Verkamannaflokknum sérstaklega góður liðsauki í heilbrigðismálum.

Íhaldsflokkurinn hefur mótmælt fullyrðingum Poulter. Fjárframlög til heilbrigðiskerfisins hafi aldrei verið hærri en í tíð núverandi ríkisstjórnar. Flokkurinn hafi beitt sér fyrir gerð langtímaáætlunar um mönnunarþörf í kerfinu sem tryggi að nægilegur fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga verði þjálfaður. Biðlistar hafi ennfremur styst til muna undanfarna mánuði og biðtími minnkað.

Óróinn eykst

Óánægja hefur farið vaxandi í Íhaldsflokknum með Rishi Sunak leiðtoga flokksins og forsætisráðherra Bretlands. Verkamannaflokkurinn hefur enn góða forystu í skoðanakönnunum og allt virðist stefna í stóran sigur hans í næstu þingkosningum.

Óánægjan kraumar ekki síst meðal þeirra þingmanna flokksins sem eru lengst til hægri. Eftir úrsögn Poulter og skipti hans yfir í Verkamannaflokkinn setti hópur þeirra af stað áætlun um að bola Sunak burt og skipta honum út fyrir Penny Mordaunt, sem gegnir embætti sem á ensku kallast „Leader of the House of Commons“ en hennar helsta verkefni er að skipuleggja framlagningu lagafrumvarpa ríkisstjórnar Íhaldsflokkins.

Von þessara þingmanna er að Mordaunt muni þegar hún taki við völdum beita sér fyrir hægri sinnaðri áherslum, svo sem skattalækkunum og aukinni hörku í innflytjendamálum. Þetta muni auka vinsældir flokksins og koma í veg fyrir ósigurinn í næstum kosningum sem allt stefni í.

Aðrir í þingliði flokksins segja hins vegar að það muni ekki hjálpa flokknum að fara til hægri. Staða Íhaldsflokksins virðist því afar erfið en Sunak þykir ná illa til hins almenna kjósanda. Að skipta um leiðtoga rétt fyrir kosningar, sem fara munu fram síðar á þessu ári, mundi eflaust bera vott um örvæntingu sem sjaldan hefur þótt vera gott veganesti í stjórnmálum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Freyr ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar

Freyr ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Tengslanetið úr fræðasamfélaginu nýtist til að færa okkur þekkingu og skapa tækifæri

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Tengslanetið úr fræðasamfélaginu nýtist til að færa okkur þekkingu og skapa tækifæri
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi

Dagur hlessa á Guðlaugi Þór – Hafi nú tekið skoðun Dags upp á sína arma sem hann hafi skammast yfir lengi
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ég lifði af!

Óttar Guðmundsson skrifar: Ég lifði af!
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð