Halla Hrund Logadóttir er komin með forystu í baráttunni um Bessastaði samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu sem greint var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Halla Hrund mældist með 26,2% fylgi og skýtur þar með Katrínu Jakobsdóttur og Baldri Þórhallssyni, sem hafa barist um forystuna í könnunum hingað til, ref fyrir rass. Katrín er í öðru sæti með 25,4% fylgi og Baldur Þórhallsson er með 21,2% fylgi. Ekki er martækur munur á þremur efstu frambjóðendunum en fylgisaukning Höllu Hrundar á síðustu vikum hefur verið gríðarleg.
Jón Gnarr er hins vegar að dragast aðeins aftur úr en hann er með 15,2% fylgi en langt er í aðra frambjóðendur. Martækur munur er á Jóni Gnarr og Baldri.
Halla Tómasdóttir er með 4,1% fylgi, Arnar Þór var með 3,3% fylgi og Ásdís Rán 1,5% fylgi. Þá er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir með 1,2% fylgi, Ástþór Magnússon 0,5% fylgi og Helga Þórisdóttir 0,2% fylgi.
Könnun Maskínu fór fram dagana 22. til 26. apríl og voru svarendur alls 1072.
Halla Hrund hefur, eins og áður segir, verið á gríðarlegu flugi í könnunum. Fyrir rúmri viku síðan, í könnun Maskínu þann 18. apríl, var hún með rúmlega 10 prósent fylgi og þannig hefur hún bætt við sig tæpum sextán prósentum.