fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvernig á að borga brúsann?

Eyjan
Fimmtudaginn 1. febrúar 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórnin hefur gefið tvö stór loforð, sem leysa þarf á næstu vikum. Annað er að greiða stóran hluta af kostnaði atvinnufyrirtækja við gerð kjarasamninga. Hitt er að Grindvíkingar verði ekki fyrir fjárhagslegum skaða vegna náttúruhamfaranna.

Þetta eru eðlisólík mál. Þátttaka ríkissjóðs í kjarasamningum einkafyrirtækja ætti að vera umdeild en virðist vera nær óumdeild. Hitt er ánægjuefni að enginn ágreiningur er um að þjóðin axli ábyrgð á óumflýjanlegum fjárhagsvanda Grindvíkinga.

Í þessu saman

Hin hliðin á þessum ólíku og aðskildu málum er aftur á móti sameiginleg. Hvernig á að borga brúsann?

Á að fjármagna þessar aðgerðir með niðurskurði, nýjum sköttum eða lántökum? Trúlega þarf að grípa til allra þessara ráða í einhverjum mæli.

Við erum í þessu saman merkir að við borgum brúsann saman.

Niðurskurður eða skattheimta

Ekki er óeðlilegt að dreifa áfallinu vegna náttúruhamfaranna á lengri tíma með lántöku. Þetta eru einskiptis útgjöld. En í því sambandi er rétt að hafa þetta í huga:

1) Fjármagnskostnaður ríkissjóðs er nú þegar hlutfallslega hærri en skuldugustu ríkja í Evrópu þótt skuldahlutfallið sé lægra.

2) Um fyrirsjáanlega framtíð er ekki unnt að borga lán ríkissjóðs niður með aukinni verðmætasköpun í ljósi þess að þjóðarframleiðsla á mann er langt undir vaxtastiginu.

Óhjákvæmilegt virðist því að fjármagna afborganir og vexti af lánum með sköttum eða niðurskurði. Í ljósi hárra heildarskatta takmarkar það hins vegar nýja skatta vegna annarra viðfangsefna.

Verði vandanum velt yfir á lífeyrissjóði borga lífeyrisþegar brúsann. Þá erum við ekki að standa í þessu öll saman.

Niðurgreiðslur

Aðilar almenna vinnumarkaðarins hafa lýst samningum sínum svo að tekjur upp að 600 þúsund krónum eigi að hækka um 55 til 60 þúsund krónur. Þar af eigi fyrirtækin að borga 15 þúsund krónur en ríkissjóður 40 þúsund í gegnum tilfærslukerfin.

Deila má um umfang bótakerfa ríkissjóðs. En það athyglisverða er að ríkisstjórnin hefur ekki skoðun á því. Hún lætur aðila vinnumarkaðarins alfarið ráða för í þeim efnum.

Eðlilegra væri að lýðræðislega kjörnir fulltrúar mótuðu stefnuna að þessu leyti þannig að umfang bótakerfanna og skattheimta væri þekkt stærð þegar að kjarasamningum kemur.

Eins og mál eru lögð upp er erfitt að líta á þátt ríkissjóðs öðrum augum en sem niðurgreiðslu á launakostnaði fyrirtækja eða hvatningu til að viðhalda lágri framleiðni.

Biðja um hærri fyrirtækjaskatta

Fjármálaráðherra hefur sagt að skera verði niður önnur útgjöld á móti hlut ríkissjóðs. Það er gilt sjónarmið. Í ljósi reynslunnar er aftur á móti ekki mikill trúverðugleiki að baki þeim orðum.

Það væri hins vegar fullkomlega óeðlilegt að leggja skatta á þá launþega, sem fá hlutfallslega minnstu kjarabæturnar, til greiða hlut ríkissjóðs í kostnaði við kjarasamninga.

Með því að velta svo stórum hluta af kostnaði við kjarasamninga yfir á ríkissjóð er atvinnulífið því í raun að biðja um hærri fyrirtækjaskatta. Er það tilboð, sem ekki er unnt að hafna?

Rót vandans

Ríkisstjórnin hefur ekki sjálfstæða efnahagsstefnu. Þegar kemur að aðgerðum gegn verðbólgu bíður hún nú eins og áður eftir útspili aðila vinnumarkaðarins.

Vandinn er aftur á móti sá að þeir samningar, sem aðilar vinnumarkaðarins ræða, taka ekki á rót vandans.

Það hefur verið ofþensla í hluta af þjóðarbúskapnum. Meðan ekki er jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði fer launaþróun úr böndunum. Hófsamir kjarasamningar geta tafið afleiðingarnar en ekki stöðvað þær.

Þversagnir

Ein þversögn í stöðunni kemur fram í því að hagvöxtur á mann er nú neikvæður. Það er með öðrum orðum minna til skiptanna á sama tíma og enn er umframeftirspurn eftir vinnuafli.

Ofurvextir Seðlabankans hafa ekki ráðið við ofþensluna í öllum greinum hagkerfisins. Forsenda skynsamlegrar launaþróunar er að ríkisstjórnin taki fyrst á þeim óleysta vanda. Það er eina raunhæfa leiðin til að lækka vexti.

Önnur þversögn felst í hinu: Eins og sakir standa eru meiri líkur á að náttúruhamfarirnar dragi úr þessari spennu en ríkisstjórnin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið