fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Eyjan
Sunnudaginn 7. júlí 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í öllum vísindum skiptir rétt notkun hugtaka höfuðmáli. Mér varð hugsað til þessa er ég las stórmerka grein Láru Magnúsardóttur sagnfræðings í nýjasta hefti Skírnis, tímarits Bókmenntafélagsins, en þar gerir hún stöðu Ríkisútvarpsins að umtalsefni og víkur sér í lagi að menningarhlutverki því sem stofnunin hefur að lögum.

Menning er æði opið hugtak en samkvæmt orðabók Menningarsjóðs merkir það þroska „mannlegra (andlegra) eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf, sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum)“. Orðið getur einnig merkt manndómur, það að hafa menningu í sér, en menning kemur af sögninni að menna sem merkir „að gera að manni, manna, mennta“. Það er aftur leitt af orðinu maður. Upphafleg rót þess orðs í germönsku virðist vera manna og talið dregið af indóevrópska orðstofninum men– sem merkir að hugsa, sbr. íslensku orðin að muna og minnast.

Ófagleg stofnun?

Lára Magnúsardóttir leggur áherslu á það í áðurnefndri grein að menn megi ekki víkja sér undan því að ræða menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og þá hvaða inntak menning hafi í þessu samhengi þrátt fyrir að orðið hafi víðfema merkingu. Hún vísar meðal annars til skilgreiningar Jóns Jónssonar frá Stafafelli á hugtakinu menningarstofnun en tilgangur slíkrar stofnunar væri að hans mati „að veita allri þjóðinni hlutdeild í þeim andans gæðum sem mannkynið á í fórum sínum“. Lára kemst sjálf svo að orði að menningarstofnanir hafi „göfgandi markmið fyrir þjóðarheild“.

Hugmyndin að baki útvarpsrekstri ríkisins var að nýta tækni svo almenningur fengi notið hámenningar. Þegar Ríkisútvarpið var gert að sjálfstæðri stofnun árið 1971 var sérstaklega tiltekið í lögum að hún skyldi „stuðla að almennri menningarþróun þjóðarinnar og efla íslenska tungu“. Enn er Ríkisútvarpinu að lögum ætlaður áþekkur tilgangur; það hefur umfram allt menningarhlutverk og lögbundnar skyldur þess lúta að dagskrá á íslenskri tungu. En Lára segir nú svo komið

„að fagmennska á grundvallarsviðum Ríkisútvarpsins hafi fallið milli stafs og hurðar enda tekur enginn ábyrgð á að hún sé fyrir hendi. Þetta kemur ekki aðeins niður á vinnubrögðum og dagskránni sjálfri, heldur hamlar það einnig lýðræðislegri umræðu um málefni Ríkisútvarpsins.“

Menningin fyrir ofan garð og neðan

Í greininni dregur Lára fram hvernig stofnunin sinnir ekki lögbundnum dagskrárflokkum skipulega. Árið 2021 hefðu sem dæmi engir fræðsluþættir verið á dagskrá Rásar 1 en nærri þriðjung dagskrár fylltu þættir sem flokkaðir voru undir „samfélagsmál“. Þá sé mjög mikið um endurflutning hljóðefnis, sem í dagskrárkynningu sé kallað „endursýning“ (eins furðulega og það hljómar). Hún nefnir sem dæmi dagskrá laugardagsins 7. október 2023, þá hafði meira en helmingur dagskrár frá klukkan sjö að morgni til miðnættis verið endurflutt efni. Slíku efni ætti miklu frekar að miðla á vefnum eingöngu en raða í almenna dagskrá.

Árið 2021 voru „samfélagsmál“ stærsti dagskrárflokkurinn á Rás 1 sem þó er hvergi nefndur í lögum. En athugun Láru leiðir í ljós að um er að ræða regnhlífarhugtak yfir hvaðeina, hugtakið sé ófaglegt og gæti verið skaðlegt því fyrir vikið falli út skilgreindir flokkar eins og fræðsluþættir. Þá setur hún fram þá tilgátu að áherslu á „samfélagsmál“ megi rekja til stofnunar svokallaðs „dægurmálaútvarps“ á Rás 2 árið 1987. Lára vitnar til áhugaverðrar greinar Hrafns Gunnlaugssonar sem birtist í Morgunblaðinu árið 1983 þar sem hann sagði stofnun nýrrar útvarpsrásar fyrir „dægurflugur og auglýsingar“ kórvillu í menningarpólitík Ríkisútvarpsins:

„Það efni sem á að flytja á rás 2 er efni sem ríkisútvarpið á alls ekki að sjá um. Ekki frekar en menningarsjóður eigi að gefa út Samúel eða Vikuna. Hverjum dytti í hug að flytja auglýsingar á milli þátta í leikritum Þjóðleikhússins.“

Hrafn kvaðst vonast til þess að þjóðin eignaðist ríkisstjórn eða menntamálaráðherra sem hefði „bein í nefinu til að afnema auglýsingar í ríkisútvarpinu“. Stöðva yrði svona „plebeisma“ því hlutverk stofnunarinnar væri allt annað. Sá menntamálaráðherra sem Hrafn óskaði sér árið 1983 hefur ekki enn komið fram — og hafa þeir þó ýmsir haft uppi yfirlýsingar um afnám auglýsinga í Ríkisútvarpinu, enda ekki taldar við hæfi hjá ríkisútvarpi hinna Norðurlandaþjóðanna.

Hugmyndin virðist hafa verið sú að Rás 1 (sem þá var farið að kalla „gömlu gufuna“) yrði við stofnun Rásar 2 frelsuð undan vinsældakvöðum og menningarhlutverk hennar um leið styrkt en áhrifin hafi í reynd orðið þau að svokölluðum „dægurmálum“ var einfaldlega bætt við Rás 1 en eins og Lára bendir á eru skilin milli menningarmála og „dægurmála“ orðin svo óljós að meira að segja á heimasíðu Ríkisútvarpsins hafi þetta verið orðinn einn og sami flokkurinn.

Merkilegt innlegg í umræður um Ríkisútvarpið

Við samningu greinarinnar hefur Lára lagst í vandlega rannsókn gagna og meðal annars lesið fundargerðir stjórnar (áður útvarpsráð) stofnunarinnar en hún segir þær bera þess merki að engin tilraun sé gerð til að svara því hvernig best megi huga að lögbundnu hlutverki Ríkisútvarpsins sem sé að „leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð eða hvernig sé markvisst stuðlað að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni“.

Af lestri greinar Láru verður þó varla séð að ráðast þurfi í viðamiklar lagabreytingar — einfaldlega þurfi að tryggja að stofnunin sinni lögboðnu hlutverki sínu. Dægurmálin geta einkamiðlarnir séð alfarið um en menningarstofnun í eigu íslenska ríkisins þarf að einbeita sér að þeirri starfsemi sem einkaaðilar geta ekki sinnt, enda ber grein Láru heitið: „Það sem enginn getur gert nema ríkið“.

Ég hvet alla áhugamenn um menningar- og þjóðfélagsmál til að verða sér úti um eintak af Skírni og lesa grein Láru sem vonandi verður grundvöllur umræðna um hlutverk Ríkisútvarpsins til framtíðar. Við blasir að stofnunin stendur trauðla undir nafni sem menningarstofnun — en ætti vitaskuld að gera það og hafa „göfgandi markmið fyrir þjóðarheild“ þar sem hugtakinu menningu yrði ljáð raunhlítt inntak.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Við erum saman í liði

Steinunn Ólína skrifar: Við erum saman í liði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
19.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?

Svarthöfði skrifar: Þarf alltaf að vera með leiðindi?
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar