fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Dagur B. Eggertsson: Kjarkað hjá Kristrúnu að setja Evrópumálin til hliðar – þannig fær hún umræðuna sem hún vill

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 23. janúar 2024 15:20

Dagur B. Eggertsson er kátur með fylgi Samfylkingarinnar og meirihlutans í borginni. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var kjarkað hjá Kristrúnu Frostadóttur að taka Evrópumálin til hliðar og með því fékk hún svigrúm til að koma að öðrum málum sem skipta hana og Samfylkinguna miklu máli, segir Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, sem segist íhuga hvort tveggja – að fara í landsmálin og hætta afskiptum af stjórnmálum. Hann segir Kristrúnu hafa haldið vel á því umboði sem hún hefur hjá Samfylkingunni með því að fara um landið og hitta fólk og hlusta á það og átta sig á því hvað brennur á fólki og hvað brennur ekki á því. Dagur er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eyjan - Dagur B - 5.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Dagur B - 5.mp4

Ég er kannski hvorki að boða það og heldur ekki að slá því föstu að ég ætli að halda áfram í stjórnmálum,“ segir Dagur. „Einhvern veginn hef ég litið á þessi tímamót núna sem kaflaskil. Ég ætla að leyfa mér, og gefa mér svolítinn tíma í það, að sjá hvað kemur næst og hef þannig ekki útilokað að fara t.d. í landsmál en ég hef heldur ekki slegið því föstu.“

Nú blasir við, út frá því hve Samfylkingin hefur stóraukið fylgi sitt núna síðasta eitt og hálft árið, að ef ekki verður einhver mikill viðsnúningur í því þá mun þingmönnum Samfylkingarinnar fjölga, væntanlega hátt í þrefaldast. Þá vantar góða frambjóðendur. Eru menn ekkert farnir að hnippa í þig?

„Jú, jú, reyndar, en þannig hefur það svolítið alltaf verið, alla vega síðustu 15 ár, þá hefur þessi hugmynd komið upp af ýmsu tilefni. Það tímabil, sérstaklega eftir 2010, þá var Samfylkingin að mælast lágt og ekki að ná miklum árangri í þingkosningum en hins vegar að ná umtalsvert betri árangri í Reykjavík,“ segir Dagur.

„Það sem mér finnst ánægjulegt og er ekki síst vegna nýrrar forystu Kristrúnar Frostadóttur og hvernig hún hefur haldið á því – hún hefur farið og hitt fólk um allt land. Það kemur mér ekkert á óvart að fólk kunni að meta það, því að ég þekki það bara sjálfur af eigin störfum; að vera mikið úti í hverfum og skólum, þá myndarðu allt annars konar tengsl og traust við fólk en þú líka lærir svo mikið. Þú heyrir bara hvað brennur á – hvað brennur kannski minna á – og þó að þú breytir ekki þinni pólitík í grunninn þá kannski áttarðu þig á því hvernig þú gerir þig betur skiljanlegan um það sem stendur hjarta þínu nærri og þú forgangsraðar dálítið verkefnunum eftir því sem þú heyrir og sérð,“ segir Dagur.

„Þess vegna hefur Samfylkingin sett heilbrigðismálin rækilega á dagskrá og ætlar sér að lyfta grettistaki þar, en af ákveðnu raunsæi. Þetta er ekki gamla pólitíkin sem segir: Kjóstu okkur og við leysum allt á morgun, heldur hefur Kristrún haft kjark til að segja: Þetta er ekki verkefni sem við náum að klára á einu kjörtímabili. Þetta er nálgun sem mér finnst mjög skynsamleg og er í góðu samræmi við mína reynslu í borginni. Ef við hefðum sagt við fólk: Við ætlum ekki bara að breyta hér ýmsu og þróa borgina, við ætlum að gera það allt á einu kjörtímabili, þá hefði það í fyrsta lagi ekki gengið eftir og ekki verið trúverðugt. Já, það er margt að gerast og Samfylkingin á landsvísu á miklu flugi og ég er auðvitað bara ánægður með það.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér :

Einnig er hægt að hlusta á Spotify eða hlaðvarpsþjónustu Google:

Eitt sem vekur athygli er að Samfylkingin, sem var nú alltaf með það mjög ofarlega á sinni stefnuskrá að við ættum að verða aðilar að Evrópusambandinu og taka ákveðin skref í þá átt. Kristrún setti það í raun og veru ofan í skúffu, hún leggur ekki áherslu á það. Heldurðu að það sé ástæðan fyrir hinni miklu fylgisaukningu Samfylkingarinnar á landsvísu, að hún sé búin að taka mál sem þjóðin skiptist að mestu í tvær fylkingar um og segja ókei, þetta er bara ekki uppi á borðinu núna?

„Stutta svarið er nei. Ég held að á sama tíma og Samfylkingin er að auka fylgi sitt þá hafi aukist gríðarlega bæði skilningur fólks á því að við þurfum til framtíðar að hugsa okkur inn í stærra samhengi, ekki bara í efnahagsmálum heldur líka í varnar- og öryggismálum og bara hvernig við tengjumst öðrum þjóðum. Ég held að Kristrún hafi gert dálítið kjarkaðan hlut með þessu að taka stór, gömul deilumál og segja: Við ætlum ekki að láta brjóta á þessu í stjórnarmyndun því að afleiðingin af því var að hún fékk allt annars konar áheyrn á það sem hún vildi eiga í samtali um, sem voru þessir grunnþættir í samfélaginu eins og að hafa heilbrigðisþjónustu sem virkar, að geta náð í heimilislækni innan einhvers eðlilegs tíma og að fólk gæti treyst því að fá þessa þjónustu ekki bara á einhverjum einum stað eða höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast
Hide picture