fbpx
Laugardagur 30.september 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Þankar um menntun

Eyjan
Sunnudaginn 28. maí 2023 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því var greint í sænskum miðlum nýverið að Charlotta Edholm, ráðherra menntamála þar í landi, vildi leggja aukna áherslu á að nemendur læsu prentaðar bækur í stað rafbóka en sænsk yfirvöld hafa nú tekið ákvörðun um að verja hálfum milljarði sænskra króna aukalega til kaupa á kennslubókum fyrir skóla landsins.  

Sænska ríkisútvarpið ræddi af þessu tilefni við Catarinu Player-Koro, prófessor í kennslufræðum við Högskolan i Borås, sem tók undir með ráðherranum: í skólunum þyrftu bækur, blöð og skriffæri að hafa meira vægi en nú er. Rafræn hjálpartæki væru mikilvæg en þau þyrfti að nota af skynsemi og hófsemd.  

Player-Koro hefur rannsakað tölvuvæðingu skólanna undanfarna þrjá áratugi og á grundvelli rannsóknarniðurstaðna sinna telur hún rétt að hverfa í auknum mæli aftur til gamalgróinna kennsluaðferða. Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir hún að hvort tveggja það að draga til stafs með penna á blað og lesa af prentaðri bók sé betri leið til að læra skrift og lestur en notast við skjátæki og lyklaborð. Hún sé þó ekki með þessu að amast við tölvunotkun við kennslu en þar þurfi að gæta hófs.  

Edholm menntamálaráðherra gat þess í grein í Expressen í desember sl. að tölvunotkun við kennslu væri tilraunakennd og benti á að fáir þyrðu að gagnrýna tækninýjungar á þessu sviði af ótta við að vera álitnir forpokaðir og gamaldags. Það viðhorf væri ríkjandi að tölvuvæðing væri alltaf til góðs, sama hvað. Að hennar mati lægi fyrir að kennslubækur á pappírsformi hefðu ótvíræða kosti umfram rafrænt kennsluefni. 

Þessar fréttir frá Svíþjóð eru ágæt brýning um mikilvægi þess að menn verði ekki þrælar tækninnar heldur taki tækin í sína þjónustu. Þetta verður sífellt áleitnara viðfangsefni. Í vetur sem leið vakti gervigreindarheili Open AI mikla athygli og undrun. Samuel H. Altman, forstjóri fyrirtækisins, kallaði þetta „rafhlaupahjól fyrir heilann“. Tim Kentereit, sem kennir kennaranemum stærðfræði í Bremen, gerði þessa líkingu Altmans að umtalsefni í samtali við Der Spiegel og sagði það rétt að með gervigreindinni mætti komast afar hratt á áfangastað en við „lærum ekki að hjóla á rafhlaupahjóli“ bætti hann við. Notkun á gervigreind af þessu tagi krefðist þess að menn hefðu áður aflað sér undirstöðuþekkingar. Ég hygg Kentereit fara þar nærri um kjarna máls. 

 Undirstaðan sé réttlig fundin  

Það er við hæfi að velta fyrir sér stöðu menntunar þessar vikurnar þegar skólaárið er á enda. Blaðamaður Morgunblaðsins ræddi nýverið við dr. Ragnheiði Guðmundsdóttur, eðlisfræðikennara við Menntaskólann í Reykjavík, en viðtalið birtist í blaðinu 20. apríl sl. Hún gagnrýndi þar hversu litla kennslu grunnskólanemar fá í eðlisfræði en þegar þeir komi í framhaldsskóla velji þeir frekar þau fög sem þeir kannist við. Gefum dr. Ragnheiði orðið: 

„Mjög hefur verið dregið úr eðlisfræðikennslu og það er skelfilegt. Miklu meiri kynning þyrfti að vera á eðlisfræði, því fagið er mjög mikilvægt. Það er grundvallarfag, undirstaðan undir öll önnur fög í raunvísindum.“  

Hún benti á að engin krafa væri gerð um kennslu í eðlisfræði í grunnskólum og að kennaranemar fengju litla kennslu í faginu. Hér hafi orðið afturför því áður fyrr hafi þótt eðlilegt að þeir sem gengju menntaveginn fræddust um helstu lögmál eðlisfræðinnar. Til þess að mega setjast í framhaldsskóla þurftu nemendur að hafa staðist þriggja klukkustunda landspróf í eðlisfræði. Nú væri engin krafa gerð um þekkingu í faginu en Ragnheiður nefndi að þessa sæi stað í skilningsleysi margra á umhverfinu og að hægt væri að telja fólki trú um alls kyns þvælu sem færi á skjön við grundvallarlögmál.  

Landspróf sem dr. Ragnheiður nefnir voru við lýði árin 1946–1976 en þau voru þreytt í íslensku, dönsku, ensku, landafræði, náttúrufræði, stærðfræði og eðlisfræði og urðu nemendur að hljóta meðaleinkunnina 6 til að standast prófin og eiga þess þá kost að setjast í menntaskóla. 

En það eru ekki einasta raunvísindin sem fara halloka, staða undirstöðunáms í hugvísindum er líka umhugsunarverð. Í vetur sem leið sat ég fund með kollegum mínum í Sagnfræðingafélaginu þar sem umræðuefnið var hnignandi sögukennsla í framhaldsskólum. Stór hluti nemenda brautskráist með stúdentspróf án þess að hafa lært nokkra Íslandssögu (eða sögu yfir höfuð). Þar var bent á að hvers kyns hindurvitni og þvæla ætti greiðari leið að fólki sem skorti grundvallarþekkingu á sögu sinni og menningu. Þá kom fram í máli sagnfræðiprófessora á fundinum að færni sumra nýstúdenta í móðurmálinu væri svo bágborin að þá yrði að senda á sérstakt ritleikninámskeið til að reyna að bæta nokkuð þar úr.  

Samræmda mælikvarða skortir 

Líklega er nauðsynlegt að taka upp samræmda mælikvarða í námi svo hægt sé að takast á við þann vanda sem við er að etja í menntamálum. Efnahags- og framfarastofnunin kannar á þriggja ára fresti lesskilning, læsi á stærðfræði og náttúruvísindi fimmtán ára nemenda í alls 79 ríkjum. Könnunin hefur ítrekað leitt í ljós að íslenskir nemendur standa að baki jafnöldrum sínum á hinum Norðurlöndunum. 

Samræmd skrifleg lokapróf eru ekki gallalaus en kostir þeirra samt afgerandi. Þau sýna ekki eingöngu fram á þekkingu nemandans heldur líka hvar skólinn stendur í samanburði við aðra skóla. Stjórnvöld fá þá líka séð hvernig stöðu mála er háttað í einstökum skólum og á grundvelli niðurstaðna slíkra prófa er hægt að gera umbætur. Þá eru samræmd próf ágæt viðmið við inngöngu í framhaldsskóla.  

Slælegur árangur margra nýstúdenta við háskóla vekur líka upp spurningar um mikilvægi þess að tekin verði upp samræmd stúdentspróf. Hvað viðmið snertir væri rétt að leita til hinna Norðurlandanna. Kunnátta íslenskra námsmanna þarf að minnsta kosti að vera á pari við jafnaldra þeirra á hinum Norðurlöndunum — allt annað er óviðunandi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ég er búinn að því

Óttar Guðmundsson skrifar: Ég er búinn að því
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýmæli og fádæmi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýmæli og fádæmi
EyjanFastir pennar
19.08.2023

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn
EyjanFastir pennar
19.08.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Að skammast sín fyrir þjóðtunguna

Sigmundur Ernir skrifar: Að skammast sín fyrir þjóðtunguna
EyjanFastir pennar
12.08.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna
EyjanFastir pennar
12.08.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Sanngirnisbætur

Óttar Guðmundsson skrifar: Sanngirnisbætur