fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Skólarnir eru of margir

Eyjan
Sunnudaginn 16. apríl 2023 17:30

Stytta af Konfúsíusi í Shanghæj, Kína.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman kom hingað til lands í ágústlok 1984 lét hann þess meðal annars getið í ræðu á Hótel Sögu að hér byggju „230–240 þúsund menn við sömu stofnanir og í heimalandi mínu, þar sem íbúarnireru þúsund sinnum fleiri, — þó að við Bandaríkjamenn höfum sem betur fer ekki þúsund sinnum fleiri þingmenn en þið!“

Og kostnaðurinn við þetta mikla kerfi birtist í ýmsum myndum, eins og Friedman benti á í umræðum eftir erindi sitt, því verðbólga væri „bersýnilega ekkert annað en ein tegund skattlagningar. Það, sem er hins vegar sérstakt við þessa tegund skattlagningar, er, að enginn hefur samþykkt hana.“

Eftir Friedman eru líka höfð ummælin um ellefta boðorðið: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra!“ Á kvöldverðarfundi Verslunarráðs með Friedman benti hann viðstöddum á að líta í spegil ef þeir vildu vita hverjir væru verstu andstæðingar kapítalismans — stundum væru verstu óvinir kapítalismans kapítalistarnir sjálfir.

Spyrja þarf grundvallarspurninga

Nærri fjórir áratugir eru liðnir frá heimsókn Friedmans og athyglisvert hvernig megininntakið í gagnrýni hans á jafn vel við þá og nú. Ég er aftur á móti hræddur um að efnisleg gagnrýni á útþenslu báknsins hafi koðnað niður. Sparnaður og ráðdeild í opinberum rekstri virðist eiga sér fáa formælendur. En svo ég vitni í Konfúsíus þá er betra að kveikja lítið ljós en formæla myrkrinu.

Mig langar því enn að geta afburðarþingræðu Thomasar Möller í fyrra þar sem hann lét þingheim ímynda sér að við værum að koma nýju ríki á laggirnar: „Myndum við byrja með því að setja á stofn 180 ríkisstofnanir og 40 ríkisfyrirtæki, 700 ráð og nefndir til að halda kerfinu gangandi? Myndum við búa til Stjórnarráð með um 800 starfsmönnum og 12 ráðuneytum? Ég held ekki. Væri þörf á Seðlabanka með 300 starfsmönnum? Þurfum við 40 eftirlitsstofnanir eða mætti hugsanlega sameina þær? Myndum við skipta landinu í 69 sveitarfélög eða myndu bara 12 duga?“

Alltof sjaldan spyrja menn slíkra grundvallarspurninga. Flestir eru fastir í viðjum vana og sérhagsmuna. Fréttir af síversnandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga ættu að vekja upp spurningar af þessu tagi — ekki einasta hvort rétt sé að fækka þeim, heldur líka hvort þau hafi ekki færst of mikið í fang. Hafandi sjálfur verið varaborgarfulltrúi get ég fullyrt að þau eru ótal viðfangsefnin sem borgin hefur tekist á hendur án þess að vera það skylt og sama á við um önnur sveitarfélög. Það er jú svo gaman að gera góðverk á kostnað annarra.

En skoða þarf málin í enn stærra samhengi. Grunnskólinn er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaga og rétt að spyrja sig hvort hreinlega færi ekki betur á að færa málaflokkinn aftur til ríkisins þar sem allar líkur væru á að ná meiri hagræðingu. Málið
snýst heldur ekki bara um krónur og aura.

Ingvar Sigurgeirsson, fyrrv. prófessor í kennslufræðum, lét þess getið í viðtali við Ríkisútvarpið í fyrra að mörg sveitarfélaganna væru einfaldlega alltof veikburða til að halda úti skólaþjónustu, þjónusta skóla og allur aðbúnaður væri til muna betri hjá öflugum sveitarfélögum.

Málið þyrfti að endurhugsa, við blasti að börn í sjávarþorpum í fámennum, illa stæðum sveitarfélögum hlytu lakari menntun en börn í þéttbýli eða vel stæðum sveitarfélögum. Samræmdar mælingar á kunnáttu nemenda hafa líka ítrekað leitt í ljós að íslenskir nemendur standa baki jafnöldrum í öðrum löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Sú staða er algjörlega óviðunandi.

Full þörf á sameiningu

Thomas Möller tók dæmi í áðurnefndri þingræðu af nýlegri útþenslu Stjórnarráðsins og fjölgun ráðuneyta sem rætt var um að hefði kostað tvo milljarða króna. Það er ekki vonlegt að tekið sé til í ríkisrekstrinum þegar æðsta lagið fitnar stöðugt. Í gönguferð um miðbæinn getum við litið glænýjar höfuðstöðvar Landsbankans þar sem koma á fyrir tveimur ráðuneytum, handan Kalkofnsvegar stækkar Seðlabankinn við sig þessa dagana á sama tíma og stjórnendur hans hvetja til aðhalds, Alþingi reisir stórhýsi við Vonarstræti og upp við gamla Stjórnarráðið er gríðarmikið gímald í undirbúningi.

„Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það,“ eins og sálmaskáldið orti. Líklega hefur útþensla ríkisins aldrei verið jafnsýnileg og nú.

Hluti af stækkun Stjórnarráðsins í upphafi kjörtímabilsins fólst í því að málefni háskóla voru skilin frá grunn- og framhaldsskólum. Ég er ekki einn um að hafa talið slíkt misráðið; nauðsynlegt er að eitt ráðuneyti hafi yfirsýn yfir skólakerfið í heild sinni. Ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu í fyrra þar sem sagði að full ástæða væri að kanna hvort auka mætti stærðarhagkvæmni opinberu háskólanna með sameiningu eða auknu samstarfi.

Almennt hefur reynst vel að sameina skóla hér á landi, nefna má sem dæmi sameiningu Tækniskólans og Háskólans í Reykjavík 2004 og Háskóla Íslands og Kennaraháskólans 2008. Síðan þá hefur ekkert verið gert í sameiningarmálum háskólanna. Hugmyndir um sameiningu HR og Bifrastar fóru út um þúfur þrátt fyrir augljós samlegðaráhrif.

Að sama skapi hefur lítið verið aðhafst í sameiningu framhaldsskóla. Þó var settur á fót nýr einkaskóli, Tækniskólinn, með sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans árið 2008. Fyrirhuguð sameining Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla árið 2017 fór út um þúfur. Afar fá skref hafa því verið stigin til sameiningar skóla þrátt fyrir að við blasi oft faglegur og rekstrarlegur ávinningur. Margar einingar eru einfaldlega of litlar og veikburða en héraðshöfðingjar standa víða í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum svo við fáum staðist alþjóðlega samkeppni og getum um leið nýtt vel takmarkaða fjármuni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund