fbpx
Föstudagur 02.júní 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Nóg komið af dyggðasýningum, slaufunarmenningu og kynlausum persónufornöfnum

Eyjan
Sunnudaginn 26. mars 2023 15:00

Markus Söder. Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn eftirtektarverðasti stjórnmálaleiðtogi álfunnar um þessar mundir er Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtogi CSU, systurflokks Kristilegra demókrata, CDU. Í tali hans kveður við nýjan tón — hann er ófeiminn við að ræða hreint út um eldfim málefni, svo sem er varða hælisleitendur, pólitískan rétttrúnað og fleira sem flestir borgaralegir stjórnmálamenn álfunnar veigra sér við að ræða af ótta við fordæmingu og útskúfun.

Blaðamaður Welt am Sonntag átti viðtal við Söder fyrir skömmu um stjórnmálin vítt og breitt, meðal annars um málefni hælisleitenda og flóttafólks en um þessar mundir dvelja 134 þúsund hælisleitendur og flóttamenn í húsnæði á vegum yfirvalda í Bæjaralandi einu, þar af eru 39 þúsund flóttamenn frá Úkraínu. Í máli Söder kom fram að staðan væri orðin þung; Bæjarar vildu að sjálfsögðu hjálpa og þeir hefðu til að mynda tekið á móti fleiri úkraínskum flóttamönnum en Frakkar, en nú væri komið að þolmörkum í mörgum sveitarfélögum. Vandamálið lægi í sérreglum (þ. Sonderweg) Þjóðverja í málaflokknum, landamærin væru mun opnari en í öðrum ríkjum álfunnar og sambandsstjórnin í Berlín yrði í þessum málaflokki að vinna nánar með hinum Evrópusambandsríkjunum.

Handan landamæranna í suðri situr systurflokkur CSU, Þjóðarflokkurinn (þ. Österreichische Volkspartei), við völd og þar hefur verulega dregið úr komu hælisleitenda eftir að gripið var til skipulegra aðgerða í því efni sem eru beinlínis kallaðar Asylbremse. Þetta var ekki hvað síst gert til að stemma stigu við smygli á fólki sem er umfangsmikil glæpastarfsemi — í þessu tilfelli stunduð frá Túnis annars vegar og Indlandi hins vegar. Gerhard Karner, innanríkisráðherra Austurríkis, lét þess getið nýverið að harðari aðgerðir í þessu efni lytu ekki hvað síst að því að vernda mannslíf og berjast gegn ómannúðlegum viðskiptum (þ. „Menschenleben zu schützen und ein menschenverachtendes Geschäft zu bekämpfen“).

Öðru máli gegnir vitaskuld um innflytjendur sem koma á lögmætum forsendum en Markus Söder segir Bæjaraland opið vinnufúsum höndum, „Wir in Bayern sagen Ja zu Arbeitsmigration,“ eins og hann orðar það. Skriffinnska tálmi því þó að fólk utan Evrópusambandsins í atvinnuleit fái vegabréfsáritun til Þýskalands og þar sé við vinstristjórnina í Berlín að sakast.

Í Þýskalandi tölum við þýsku

Söder er afar gagnrýninn á hugmyndir sem nú eru uppi um að afnema kröfu um þýskukunnáttu til að öðlast ríkisborgararétt. Ríkisborgararéttur sé ekki eins og hver önnur félagsaðild. Honum fylgi viðurhlutamikil réttindi, sem m.a. kosti fjárútlát úr sameiginlegum sjóðum, en líka skyldur. Ríkisborgararéttur feli í sér skuldbindingu við landið, gildi þess og við tungumálið (þ. „Das Staatsbürgerrecht fußt auf einem Bekenntnis zum Land, zu den Werten des Landes und zu der Sprache“). Aðlögun innflytjenda muni ekki eiga sér stað nema gerð verði krafa um að þeir læri þýsku.

Blaðamaður Welt am Sonntag vísaði til þess í spurningu að Mario Czaja, framkvæmdastjóri CDU, systurflokks CSU, hefði nýverið krafist þess að aðeins þýska yrði töluð í þýskum skólum — þar með talið í frímínútum. En í viðtali við Welt fyrir skemmstu lýsti Czaja þeirri skoðun sinni að þeir sem ekki hefðu þýsku að móðurmáli ættu skilyrðislaust að sækja námskeið í þýsku og undirgangast próf í tungumálinu áður en þeir fengju að setjast á skólabekk. Söder svaraði því til að þetta væri ekki vandamál í Bæjaralandi en pólitíkin norður í Berlín einfaldlega önnur; því fari fjarri að innflytjendur gefi upp á bátinn sjálfsmynd sína við það að þurfa að tala þýsku. Menn hefðu vitaskuld ólíkan menningarlegan bakgrunn og innflytjendur gætu haldið ýmsum sérkennum í þeim efnum en í ríkinu þyrftu borgararnir sameiginlega undirstöðu (þ. gemeinsame Basis). Þýsk tunga væri hluti af því.

„Trendy und traditionell“

Söder segir Bæjaraland einfaldlega öðruvísi en Berlín, Bæjarar hafni dyggðasýningum, slaufunarmenningu og kynlausum persónufornöfnum. Þeir vilji heldur ekki prédika yfir borgurunum pólitískan rétttrúnað. Í Bæjaralandi geti hver sungið með sínu nefi og menn séu frjálsir að tjá sig (þ. „Bei uns darf man essen, was man will, sagen und singen, was einem gefällt.“). Heimilið og hefðir séu í forgrunni og Bæjarar í senn í takti við tíðarandann og haldi fast í siðvenjur (þ. „Bayern sind trendy und traditionell“). Róttæklingum í norðrinu sé í nöp við Bæjaraland — því þar hafi sjónarmið andstæð vinstriöfgum sannað gildi sitt — og ekki hvað síst sé þjóðmenningin í hávegum höfð þar syðra.

Kveðið hefur við áþekkan tón í ræðum Friedrich Merz, formanns Kristilegra demókrata, systurflokks CSU. Menn sjá sem er að málefni flóttafólks og hælisleitenda eru komin í óefni og að taka þurfi á þeim vanda af festu, þýska sé lykillinn að þýsku samfélagi og ekki megi gefa afslátt af þeirri kröfu. Eins verði að binda enda á meðvirkni borgaralegra afla með pólitískum rétttrúnaði.

Segir mér hugur að miðju- og hægrimenn á Íslandi geti margt lært af forystu kristilegu flokkanna í Þýskalandi og Austurríki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Silfur Egils og konungar fyrr og nú 

Björn Jón skrifar – Silfur Egils og konungar fyrr og nú 
EyjanFastir pennar
30.04.2023

Björn Jón skrifar – Óstjórn í ríkisfjármálum

Björn Jón skrifar – Óstjórn í ríkisfjármálum
EyjanFastir pennar
29.04.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Hagur öfgaaflanna

Sigmundur Ernir skrifar: Hagur öfgaaflanna
EyjanFastir pennar
09.04.2023

Björn Jón skrifar: Vikið af vegi sannleikans

Björn Jón skrifar: Vikið af vegi sannleikans
EyjanFastir pennar
02.04.2023

Björn Jón skrifar: Hvers virði er íslenskan?

Björn Jón skrifar: Hvers virði er íslenskan?
EyjanFastir pennar
12.02.2023

Björn Jón skrifar: Mannleg reisn andspænis gervigreind

Björn Jón skrifar: Mannleg reisn andspænis gervigreind
EyjanFastir pennar
09.02.2023

Af hverju voru Íslendingar blekktir?

Af hverju voru Íslendingar blekktir?
EyjanFastir pennar
09.01.2023

„Hvað eiga Matilde, Alina og Eva sameiginlegt?“ – Rangfærslur Hildar í Morgunblaðinu vekja athygli

„Hvað eiga Matilde, Alina og Eva sameiginlegt?“ – Rangfærslur Hildar í Morgunblaðinu vekja athygli
EyjanFastir pennar
08.01.2023

Björn Jón skrifar: Út og suður í ársbyrjun

Björn Jón skrifar: Út og suður í ársbyrjun