Ýmsar ástæður bjuggu að baki landnámi Íslands sem talið er hefjast á síðari hluta níundu aldar. Ein þeirra hefur vafalaust verið öryggið sem fólgið var í því að þurfa ekki að óttast árásir af sjó — enda ekki fýsilegt að fara með ófriði svo langt yfir úthaf. Hvað sem því leið þá voru landsmenn vel vopnum búnir fram eftir öldum enda Íslandssagan að stórum hluta saga ófriðar og átaka. Á þetta bendir Arnór Sigurjónsson, fyrrv. skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, í nýútkomnu kveri sem ber heitið Íslenskur her — breyttur heimur — nýr veruleiki.
Nú um stundir efast fáir um gildi þess að Íslendingar taki þátt í vestrænu varnarsamstarfi en fram til þessa hefur hlutverk Íslendinga í því verið að veita bandalagsþjóðum aðgang að landsvæði til sameiginlegra varna. Hugmyndir um eiginlega þátttöku Íslendinga í vörnum ríkisins hafa fram til þessa hlotið lítinn sem engan hljómgrunn en í opinberri umræðu um varnarmál er jafnan lögð ofuráhersla á að Íslendingar séu herlausir og hafi engan hug á að taka þátt í vörnum eigin ríkis.
Smáríki sinna jafnan eigin vörnum
Arnór fjallar í kverinu um skýrslu rannsóknarnefndar norska Stórþingsins sem skipuð var í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Niðurstaða hennar var að stjórnmálamenn hefðu brugðist skyldum sínum en ungir framámenn í norska Verkamannaflokknum vildu fyrir stríð ganga svo langt að afvopna herinn. Að styrjöld lokinni voru viðhorf gerbreytt og sósíaldemókratar sem aðrir urðu öflugir talsmenn allsherjarvarna. Í því fælist ekki eingöngu herskylda heldur væri landsmönnum bannað að gefast upp kæmi til stríðsátaka — jafnvel þó svo að við ofurefli væri að etja.
Arnór bendir á að Lúxemborgarar, sem eru um 645 þúsund talsins, sjái sér hag í því að hafa á að skipa eigin herliði sem býr yfir sérfræðiþekkingu og búnaði til að tryggja öryggi og varnir ríkisins — á þeirra eigin forsendum. Fullvalda ríki sé nauðsynlegt að taka sjálfstæðar ákvarðanir í þessum efnum, þó svo að þær séu teknar í samvinnu við bandalagsþjóðir og fjölþjóðastofnanir. Herlið Lúxemborgara telur 939 sjálfboðaliða.
Í kverinu er annað evrópskt smáríki tekið til samanburðar, Malta, en íbúar eyríkisins eru 520 þúsund. Maltverjar starfrækja 1.900 manna herlið og þar á meðal er lítill flugher og flotadeild. Herliðið sinnir björgun á sjó og landi, fylgist með loftrými og hafsvæðinu umhverfis eyjuna og tryggir öryggi alþjóðaflugvallarins. Það aðstoðar líka lögreglu og almannavarnir eftir þörfum, starfrækir sprengjuleitarsveit og annast landamæraeftirlit. Maltverjar vörðu sem samsvarar tíu milljörðum íslenskra króna til varnarmála árið 2020 en það er um 0,56% af landsframleiðslu. Sama ár nam framlag Lúxemborgara 60 milljörðum króna eða um 0,76% af landsframleiðslu.
Höfum raunverulega getu í þessum efnum
Helstu mótbárur gegn starfrækslu íslensks heimavarnarliðs er að það muni ekki hafa burði til að taka þátt í vörnum svo nokkru muni. Arnór leiðir að því rök að þetta standist ekki skoðun. Landsmenn eru um 380 þúsund talsins en í þessum fræðum er gert ráð fyrir að hægt sé að kalla allt að tíunda hluta landsmanna til herskyldu án þess að efnahagslífi sé kollvarpað. Það væru þá 38 þúsund manns en Arnór nefnir að þó svo „að aðeins lítill hluti þessa fólksfjölda gegndi herskyldu er ljóst að þjóðin er nógu fjölmenn til að takast á við þá áskorun að tryggja innviði í upphafi átaka áður en liðsauki berst til Íslands“. Það sé einfaldlega rangt að Íslendinga skorti burði og fjárhagslega getu til að starfa með virkum hætti að eigin vörnum. Aftur á móti skorti pólitískan vilja og áræði en hann spyr áleitinnar spurningar í þessu efni: hvort það sé ábyrg afstaða og samboðin fullvalda ríki að láta aðra annast öryggis- og varnarmál rétt eins og þau komi því ekki við.
Arnór veltir upp mögulegu skipulagi íslensks herliðs og fer yfir ýmsar þær ógnir sem nú steðja að. Íslendingar hafi ítrekað sýnt af sér ábyrgðarleysi í þessum efnum og nefnir hann sem dæmi að tvö símafélaganna séu í nánu viðskiptasambandi við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei þegar fyrir liggi að þeim sé skylt að aðstoða leyniþjónustu Kínverska alþýðulýðveldisins. Ýmis nágrannaríkja okkar hafi á grundvelli öryggishagsmuna bannað fjarskiptabúnað frá Huawei. Annað dæmi sem hann nefnir eru ábendingar ríkislögreglustjóra þess efnis að Íslendingar standi höllum fæti þegar kemur að upplýsingaöflun og úrvinnslu upplýsinga í tengslum við hugsanleg hermdarverk. Aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin dugi ekki til í þessum efnum. Íslendingar þurfi að hafa á að skipa vel þjálfuðu og útbúnu herliði sem hafi meðal annars innanborðs sveitir ýmissa sérfræðinga en líka sveitir sem gætu tryggt öryggi hernaðarlega mikilvægra staða áður en liðsauki berst frá bandalagsríkjum. Til þessa þurfi brynvarin ökutæki og ýmsan búnað en Arnór gerir ekki ráð fyrir þungum vopnum eða skriðdrekum.
Kver Arnórs er ekki fræðileg ritgerð heldur stutt, einföld og skilmerkileg útlistun á efninu en hann vonast til þess að það geti orðið kveikja að breytingum í málaflokknum. Hverfa þurfi frá því andvaraleysi sem einkennt hafi öryggis- og varnarmál fram til þessa. Um sé að ræða málaflokk sem í flestum öðrum löndum sé talinn til höfuðviðfangsefna ríkisvaldsins og tímabært að Íslendingar axli ábyrgð á eigin vörnum.
Efnið er áleitið og hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á stofnun heimavarnarliðs er brýnt að þessi mikilvægi málaflokkur fái aukið vægi í pólitískri umræðu — en umfram allt á faglegum forsendum og á grundvelli staðreynda — ekki tilfinningasemi og hleypidóma.