fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Upplýsingar upp á eldhúsborðin

Eyjan
Fimmtudaginn 23. nóvember 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á vörum, sem við drögum upp úr innkaupapokum og setjum á eldhúsborðin, má alla jafnan lesa  lýsingu á uppruna þeirra, efnasamsetningu og eiginleikum.

Þessar upplýsingar auðvelda okkur innkaup og geta ef því er að skipta verið tilefni eldhúsumræðna um hollt mataræði.

Á umbúðunum eru líka strikamerki, sem geyma upplýsingar um verð vörunnar. Þau sýna þó ekki  hvernig verðið myndast og breytist. Enn síður má lesa úr þeim hvaða lögmál ráða mestu þar um.

Þessi samanburður kom upp í hugann í gær þegar ákveðið var að halda himinháum stýrivöxtum óbreyttum.

Krókaleiðir

Samanburðurinn segir okkur þá einföldu sögu að alþjóðlegt samstarf hefur smám saman tryggt neytendum nokkuð góðar upplýsingar um eðli þeirra hluta, sem við kaupum. Við sitjum við sama borð og aðrar þjóðir í þeim efnum.

Á hinn bóginn þurfum við að fara krókaleiðir til að afla upplýsinga um þau lögmál efnahagslífsins, sem skýra verðmyndunina, gengið og vextina.

Þetta er bagalegt því ætla má að mikilvægasta umræðan um efnahagsmál fari einmitt fram við eldhúsborðin.

Áður fyrr miðlaði Þjóðhagsstofnun upplýsingum um hagtölur og lagði sjálfstætt og óháð mat á hrif þeirra. Nú gegna hagfræðingar bankanna þessu hlutverki að stórum hluta.

Þar er hæft fólk, sem hefur mikið til málanna að leggja. En þessi upplýsingamiðlun fyrir eldhúsumræður heimilanna er eins og sérfræðingar heildsalanna miðluðu einir þekkingu um eiginleika þeirrar vöru, sem er á boðstólum.

Mikilvæg umræða

Fjárlaganefnd Alþingis fjallar nú um fjárlagafrumvarp næsta árs. Í því er fólgin efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Hún hefur áhrif á verðbólgu og vexti.

Umræður um fjárlagafrumvarpið þurfa því að skila upp á eldhúsborðin upplýsingum um orsök og afleiðingu hluta í sameiginlegum búskap þjóðarinnar rétt eins og umbúðirnar sýna okkur eiginleika vörunnar.

Fulltrúi Viðreisnar í fjárlaganefndinni, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hefur skorið sig nokkuð úr í umræðum um það flókna og margslungna verkefni, sem hvílir á herðum nefndarmanna. Hún hefur í greinum og umræðum á Alþingi kallað eftir dýpri greiningum til að auka skilning þeirra sem sitja við eldhúsborðin og velta fyrir sér dýrtíð, óyfirstíganlegum húsnæðislánum og framlögum til velferðarmála.

Hvers vegna?

Gengi krónunnar hefur lækkað um nærri 7% frá því í lok ágúst.

Í grannlöndunum yrði slík breyting kölluð hrun og orsakir þess yrðu sjálfkrafa heitasta kartaflan í pólitíkinni. Hér sjá stjórnmálamenn varla ástæðu til að nefna breytinguna. Og sérfræðingar víkja að henni í framhjáhlaupi sem óverulegri aðlögun.

Hvað sem menn kalla breytingu af þessu tagi hefur hún veruleg áhrif á hag heimilanna og þau viðfangsefni, sem rædd eru við eldhúsborðin.

Hækkun vaxta á að draga úr umsvifum í þjóðarbúskapnum og halda uppi verðgildi gjaldmiðilsins.

Þrátt fyrir þrefalt hærri vexti en í grannlöndunum hefur verðbólga ekki lækkað að sama skapi hér. Hvers vegna?

Þrátt fyrir þrefalt hærri vexti hefur verðgildi krónunnar hrunið á örfáum vikum. Hvers vegna?

Kerfið

Hluta vandans má skýra með því að við búum við ríkisstjórn svo ólíkra flokka að þeir geta ekki komið sér saman um markvissa efnahagsstefnu. En það segir bara hálfa söguna.

Það er líka of mikil einföldun að halda því fram að við ríkisstjórnarborðið og í Seðlabankanum sitji hæfileikasnauðara fólk en gengur og gerist í grannlöndunum.

Augu manna hljóta því að beinast að kerfinu sjálfu.

Byggðist gengishækkunin ekki á raunverulegri verðmætasköpun?

Ráða spákaupmenn kannski fremur gengi krónunnar en stjórnvöld?

Er það til marks um að krónan sé nothæfur gjaldmiðill þegar meirihluti umsvifa fer fram í erlendum gjaldmiðlum og verðtryggðri krónu?

Fræðasamfélagið

Hamfarirnar á Reykjanesi eiga eftir að setja strik í reikninga þjóðarbúsins og heimilanna.

Sú staðreynd á aftur á móti ekki að leiða til þess að við víkjum spurningum af þessu tagi til hliðar. Hún er miklu fremur rökstuðningur fyrir áleitnum spurningum og dýpri skoðun.

Við bætum ekki úr upplýsingaskorti á þessu sviði með umbúðamerkingum. Því meiri ábyrgð hvílir á stjórnmálamönnum. Og því brýnna er að fræðasamfélagið fylli tómarúmið eftir hvarf Þjóðhagsstofnunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
21.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Gasið er að rjúka úr henni
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið