fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hið sérstaka vináttusamband sem var

Eyjan
Sunnudaginn 12. nóvember 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

„Hlýja Íslendinga og gestrisni hefur yljað mér um hjartaræturnar, og það hefur líka komið mér skemmtilega á óvart hve opinskáir þeir eru og hve auðvelt er að kynnast þeim. Mér hefur fundist ég vera með gamalla og gróinna vina þessa daga sem ég hef verið á Íslandi.“

Svo mælti Golda Meir, þá utanríkisráðherra Ísraels, í heimsókn sinni hingað til lands á vordögum 1961. Henni hefði að sjálfsögðu verið kunnugt um merkilega fornmenningu Íslendinga en vakið hafi athygli hennar hve lifandi og frjósöm menning samtímans væri: „Hér er menningin raunverulegt afl í þjóðlífinu, og ég vona að þið missið aldrei sjónar af mikilvægi hennar þó efnaleg velgengni aukist.“

Einstakt vinarbragð

Thor Thors var fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá 1947 til dauðadags 1965 og samhliða gegndi hann embætti sendiherra í Washington, og raunar lengur eða alveg frá 1941. Hinn 29. nóvember 1947 var Thor framsögumaður undirnefndar sem stjórnmálanefnd Sameinuðu þjóðanna hafði skipað til að kanna möguleika á samkomulagi milli araba og gyðinga um skiptingu Palestínu og stofnun tveggja ríkja. Abba Eban, sem þá var fastafulltrúi Ísraels og síðar utanríkisráðherra, segir Thor hafa haft afgerandi áhrif á niðurstöðuna og þar með að stofnað var til Ísraelsríkis. Eban kvaðst hafa beitt Thor öllum sínum sannfæringarkrafti til að lýsa aldalöngum vonum og draumum gyðinga um stofnun Ísraelsríkis. Þór Whitehead sagnfræðiprófessor, sem rannsakað hefur störf Thors, sagði í viðtali við Fréttabréf Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi árið 2015 að Thor hefði

„hiklaust svarað á þá leið að það væri meiri skilningur á Íslandi á örlögum gyðinga, eins og þeim væri lýst í Biblíunni, en Eban grunaði. Þessar frásagnir væru hluti íslenskrar menningar og gyðingar gætu treyst því að íslenska þjóðin, sem varðveitt hefði tungumál sitt og bókmenntir við erfiðustu náttúruskilyrði um aldir, hlyti að sýna skilning á viðleitni þeirra til að varðveita þjóðareinkenni sín og stofnun eigin ríkis.“

Eban sagði að Thor hefði verið „stórkostlegur“ er hann steig í ræðustól þings Sameinuðu þjóðanna síðar sama dag þar sem hann mælti með því að tekið yrði af skarið og stofnuð tvö ríki. Umræðan sem fylgdi í kjölfarið þótti hafa mótast mjög af ræðu Thors en atkvæðagreiðslan fór svo að 33 fulltrúar greiddu atkvæði með stofnun tveggja ríkja, þrettán fulltrúar voru henni andvígir, tíu sátu hjá og einn var fjarverandi. Þór Whitehead segir það mikið ofmat að ætla að tillaga Thors hafi ráðið úrslitum um málið, en það breytir því þó ekki að í huga ráðamanna hins nýja ríkis var þetta einstakt vinarbragð og þeir lögðu kapp á að rækta vináttu við Íslendinga.

Tvær þjóðir sem byggja á fornum menningararfi

Hér að framan var minnst á heimsókn Goldu Meir hingað til lands 1961 en árið eftir kom David Ben-Gurion, forsætisráðherra Ísraels. Hann hélt meðal annars til Þingvalla undir leiðsögn Ólafs Thors forsætisráðherra og Sigurðar Nordal prófessors. Við borðhaldið í Valhöll var boðið upp á ísraelsk vín, rauð og hvít, sem smökkuðust „ágætlega að allra dómi“ eins og sagði í frétt um heimsóknina í Morgunblaðinu. Íslensku blaðamennirnir ræddu við ísraelska starfsbræður sína sem voru með í för og spurðu meðal annars um helstu vandræði sem steðjuðu að hinu unga ríki. „Að halda frið,“ mæltu þeir einum rómi, „öll önnur vandamál eru lítilfjörleg samanborið við það.“ Að borðhaldi loknu spurðu íslenskir blaðamenn hvort Ben-Gurion væri bjartsýnn á framtíð Ísraels og hann svaraði:

„Já, það er ég. Ég er gyðingur. Þér mynduð líka vera bjartsýnn ef þér væruð gyðingur og byggjuð í Ísrael. Íslenska þjóðin er merkileg þjóð og undarlegt, hvað þið hafið getað gert svona fámennir, aðeins 180 þúsund; að hugsa sér þetta. En þið hafið átt tunguna og hún hefur hjálpað ykkur. Þið eruð þrautseigir. Almenn velmegun er meiri hjá ykkur en okkur.“

Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, hélt til opinberrar heimsóknar í Ísrael árið 1966. Þá var vígð í Jórsölum gata sem fékk nafnið Íslandsgata í nýju hverfi borgarinnar sem kallað er Kiryat Menahem. Fjölmenni var við athöfnina og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar forsetinn klippti á borðann. F. Naschitz, aðalræðismaður Íslands í Ísrael, ritaði hjartnæm minningarorð um Ásgeir Ásgeirsson forseta. Hann sagði mynd hins látna forseta Íslands sér ógleymanlega frá þeirri stundu er Íslandsgata var vígð: „Hlýja hans, einlægni og áhugi á öllu sem umhverfis var, vakti með manni djúpar kenndir gagnkvæms skilnings og vonir um friðsamlega framvindu mannlífsins.“

Enn geisar stríð

Þau nánu tengsl ríkjanna sem að framan að getið eru fyrir löngu trosnuð. Nú eru þvert á móti hrópuð vígorð á götum Reykjavíkur sem fela í sér ekkert annað en ákall um eyðingu Ísraelsríkis og fjöldinn allur af fólki sem álitið hefur verið málsmetandi ber blak af Hamas-samtökunum, einhverjum ógeðfelldustu drápsveitum sem fyrirfinnast. Við blasir að andstæðingum Ísraelsmanna hefur orðið verulega ágengt í áróðursstríðinu. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að íslenskt fyrirtæki neitaði Ísraelsmönnum um þjónustu. Þetta er ólögleg mismunun sem brýtur gegn 65. gr. stjórnarskrár. Framferði þessa atvinnurekanda er engu betra en veitingamannsins í Keflavík sem meinaði blökkumönnum inngöngu á skemmtistaðinn sem hann rak hér um árið.

Þá má líka spyrja sig hvar hinir ofstopafyllstu í hópi andstæðinga Ísraelsríkis voru þegar fréttir bárust af þjóðarmorði kínverskra stjórnvalda á Úígúrum eða fjölmörgum öðrum óhæfuverkum stjórnvalda víðs vegar um heim? Hvers vegna bregðast menn svona við gagnvart Ísraelsmönnum sérstaklega, þannig að nú er svo komið að gyðingar sæta harkalegum ofsóknum víðs vegar um álfuna?

Áðurnefndur David Ben-Gurion, ritaði í dagbók sína á einum stað að örlög Ísraels væru komin undir öflugu heimavarnarliði. Vitaskuld urðu ísraelsk stjórnvöld að bregðast af fullri hörku við þeirri innrás sem framin var 7. október sl. þar sem 1400 almennir borgarar voru myrtir og hundruð handsamaðir og hafa mátt sæta hinum grimmúðlegustu pyntingum, en þar á meðal hafa börn verið brennd lifandi. Sem fyrr er tilverugrundvöllur ríkisins undir. Í umfjöllun um hörmungar íbúa á Gazaströndinni verður ekki horft fram hjá því að stríðsreksturinn nú hófst að ósk Hamas sem meina íbúum að flýja heimili sín. Og þegar krafist er vopnhlés þarf að hafa hugfast að Hamas rauf vopnahlé hinn 7. október sl. — líkt og þeir hafa rofið öll vopnahlé fram til þessa.

Einstakt ríki

Þegar höfundur forystugreinar Economist minntist þess í vor sem leið að liðin voru 75 ár frá stofnun Ísraelsríkis gat hann þess að sjaldan í sögu þess hefði öryggi borgaranna verið jafntryggt. Þetta reyndist tálsýn eins og sannaðist í morðæði Hamasliða 7. október síðastliðin. Ríkið glímir vissulega við erfið innanmein, deilt er um grundvallarstjórnskipun og trúarandstæður hafa magnast, en fram hjá því verður ekki litið, að þarna mitt á milli harðstjórnarríkja af ýmsu tagi hefur tekist að byggja upp frjálslynt vestrænt lýðræðisríki.

Árið 1980 voru Ísrelsmenn aðeins hálfdrættingar á við Vestur-Þjóðverja þegar vegin var landsframleiðsla á mann — nú er hún aftur á móti 12% hærri í Ísrael en Þýskalandi og lífskjör eiga sér enga hliðstæðu í nálægum ríkjum. Nýsköpun og tækniþróun er gríðarleg, en nefna má að Ísraelsmenn eiga fleiri svokallaða „einhyrninga“ en öll önnur ríki Mið-Austurlanda samanlagt, en þá er átt við sprotafyrirtæki sem ná því á skömmum tíma að verða metin á yfir milljarð Bandaríkjadala. Þá eiga Ísraelsmenn fleiri Nóbelsverðlaunahafa en Kínverjar, fjölmennasta þjóð veraldar. Framtíðarhorfur verða að teljast bjartar, meðalaldur er lágur en gert er ráð fyrir að íbúatalan hafi tvöfaldast fyrir árið 2065.

Íslendingar hefðu gjarnan mátt rækta samband við þetta fjarlæga en einstaka ríki. Til góðs vinar liggja gagnvegir þótt hann sé firr farinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!