fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Eyjan

Friðrik bregst við „spillingardylgjum“ Ólafs og Söru Lindar – „Að settur forstjóri Ríkiskaupa geri það með þeim hætti sem hún gerði er einfaldlega skandall“

Eyjan
Föstudaginn 27. október 2023 11:36

Friðrik Jónsson ver opinbera starfsmenn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik Jónsson, fyrrum formaður BHM og embættismaður hjá utanríkisráðuneytinu, er allt annað en sáttur við gagnrýni á vildarpunktasöfnun opinberra starfsmanna og sem hann telur ómaklega og líkir við dreifingu falsrétta. Beinist gagnrýni hans aðallega gegn Félagi atvinnurekenda, sem Ólafur Stephensen er í forsvari fyrir, og settum forstjóra Ríkiskaupa Söru Lindar Guðbergsdóttur sem bæði hafa gagnrýnt fyrirkomulagið harðlega.

Sagði Sara ómögulegt að hafa eftirlit með því hvort þingmenn og starfsmenn ríkisins séu að nýta sér það að geta skráð á sig vildarpunkta hjá Icelandair fyrir farmiða sem greiddir eru með opinberu fé.

„Persónulegur ávinningur á ekki og má ekki hafa hér áhrif,“ sagði Sara Lind og greindi frá því að rammasamningar um flugfargjöld væru í endurskoðun.

Græði rúmar 2 þúsund krónur á einni ferð

„Ég sé að Félag atvinnurekenda er aftur komið af stað í dreifingu falsfrétta um opinbera starfsmenn. Nú er það meint spilling vegna vildarpunkta Icelandair. Verra er að settur forstjóri Ríkiskaupa reið á vaðið með dylgjum um meinta spillingu, án þess að hafa gögn máli sínu til stuðnings,“ skrifar Friðrik, sem starfs síns vegna ferðast töluvert.

Segir hann að vildarpunktarnir hafi „reglulega poppað sem smjörklípa í umræðu um meint ferðafríðindi opinberra starfsmanna“ enda skipuleggi Icelandair  punktasöfnun þannig að hún er bundinn við þann einstakling sem flýgur.

„Hér er kannski ágætt að setja glæpinn í eitthvað samhengi sem hægt er að skilja. Hver Evrópuferð – fram og til baka – með Icelandair á Economy Standard (líklega algengasta fargjald) gefur af sér samtals 3400 vildarpunkta. Þeir vildarpunktar sýnast mér reiknast í u.þ.b. 2040 krónur í farseðlakaupum. 10 ferðir til Brussel á ári skila þá „gróða“ upp á u.þ.b. 20 þúsund kall,“ skrifar Friðrik.

Fullyrðir að engin pæli í vildarpunktum

Freistar hann þess svo að færa rök fyrir því að ávinningur opinberra starfsmanna af slíkum ferðum sé ekki mikill og lýsir hefðbundinni ferð til Brussel.

„Klassísk Brusselsferð er út að morgni dags, gist eina nótt og til baka að kvöldi næsta dags gegnum Köben, Osló eða Stokkhólm. Lent á Íslandi rétt fyrir miðnætti og kominn heim í rúmið kannski klukkan eitt um nótt ef þú ert heppinn með rútuferð. Ríkið borgar ekki leigubíl og dagpeningarnir duga ekki fyrir honum.
Ekki eru borgaðir yfirvinnutímar á ferðadögum – en það er reyndar fyrir dómstólum. En jafngildi 2000 króna í vildarpunktum, það er stóri skandallinn?“ spyr Friðrik.

Hann bendir á að í utanríkisráðuneytinu séu það starfsmennirnir sjálfir sem sjá um bókanir og þar sé haft í huga að bóka það hagkvæmasta fyrir vinnustaðinn, ekki starfsmanninn.

„Ég þori að fullyrða að langflest okkar pælum ekkert í vildarpunktunum og væri alveg sama þó að þeir fylgdu ekki með. Þeir skipta nákvæmlega engu máli í ferðajöfnunni vegna vinnunnar. Vinnuferðir erlendis eru af nauðsyn. Þetta eru ekki frí. Þær eru ekkert sérstaklega skemmtilegar. Þetta er vinna, vinna, vinna í langflestum tilfellum. Vinna sem er ekki greitt fyrir fullu verði. Þannig að þið fyrirgefið, enn og aftur, þetta vildarpunktaröfl er hallærisleg smjörklípa og ætti að vera fyrir neðan virðingu FA að vaða fram með svona dylgjum. Að settur forstjóri ríkiskaupa geri það með þeim hætti sem hún gerði er einfaldlega skandall,“ skrifar Friðrik.

Segir Play ekki bjóða upp á sömu tengingar og þjónustu

Hann segist skrifa pistilinn í sex daga vinnuferð erlendis.

„Ég fæ ekki greidda yfirvinnu fyrir fjarvinnu og fjarveru yfir helgi. Einn leggur af ferðinni er með Icelandair sem skilar mér víst 1700 punktum, eða u.þ.b. þúsund kalli umreiknað í íslenskar krónur. Augljóslega er ég að leggja þetta allt á mig fyrir þann þúsund kall…! Og bæðevei, kannski er það þjónustustigið hjá Play frekar en vildarpunktarnir hjá Icelandair sem eru vandamálið. Play bíður ekki upp á sömu tengingar, sambærilega samninga við önnur flugfélög o.þ.h. sem skipti máli þegar verið er að skipuleggja vinnuferð þar sem tíminn eru peningar. Vinnuferðir eru í engu sambæilegar við það þegar fólk fer í frí. Status þennan leyfi ég mér að skrifa í ljósi þess að ég er jú trúnaðarmaður starfsfólks Utanríkisráðuneytið – utanríkisþjónusta Íslands sem eru í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Við ferðumst mörg töluvert vegna vinnunnar. Ber ég hér hönd fyrir höfuð okkar allra þar sem við öll sitjum nú undir þessum spillingardylgjum FA og setts forstjóra Ríkiskaupa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vilja vita hvert milljarðar borgarbúa fóru

Vilja vita hvert milljarðar borgarbúa fóru
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Fagmaður í fyndni – vill færa forsetann til Akureyrar á sumrin
Eyjan
Fyrir 1 viku

Næstum 100 milljónir á síðasta ári frá ríkinu til fyrirtækisins sem aðstoðar Katrínu

Næstum 100 milljónir á síðasta ári frá ríkinu til fyrirtækisins sem aðstoðar Katrínu