fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Eyjan

Kópavogsbær uppfyllir ekki öll lágmarksviðmið vegna rekstrar

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 19. október 2023 15:02

Mynd: Kopavogur.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með fundargerð bæjarráðs Kópavogs sem birt var á vef bæjarins fyrr í dag er lagt fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Bréfið er dagsett 13. október síðastliðinn. Í bréfinu kemur fram að nefndin hafi farið yfir ársreikning bæjarins fyrir árið 2022 og samkvæmt honum uppfylli Kópavogsbær ekki öll lágmarksviðmið nefndarinnar vegna reksturs A-hluta.

Hafa ber í huga að A-hluti í rekstri bæjarfélaga snýr að bæjarsjóði sjálfum sem fjármagnaður er að mestu leyti með útsvari og öðrum gjöldum sem lögð eru á íbúa.

Í bréfinu segir að þessi lágmarksviðmið  byggi á lágmarkskröfu til að standast jafnvægis- og skuldareglu sveitarfélaga.

Samkvæmt viðmiðum nefndarinnar, sem eru breytileg eftir skuldastöðu viðkomandi sveitarfélags, ætti framlegð af rekstri A-hluta hjá Kópavogsbæ að vera að lágmarki 9,7 prósent fyrst að nettó skuldir bæjarins nema 97 prósent af tekjum hans. Samkvæmt ársreikningnum var framlegðin hins vegar fimm prósent.

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er orðið framlegð notað yfir tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði.

Samkvæmt bréfi nefndarinnar til Kópavogsbæjar uppfyllir ársreikingurinn 2022 heldur ekki það lágmarksviðmið að reksturinn sé að minnsta kosti á núlli, þ.e.a.s hallalaus, en samkvæmt ársreikningnum var rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um tæplega 2 milljarða króna.

Í bréfi nefndarinnar til Kópavogsbæjar segir enn fremur að þrátt fyrir bráðbirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 þar sem sveitarstjórn er heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu og skuldareglu út árið 2025 vilji nefndin benda Kópavogsbæ á að árið 2026 þarf að uppfylla þessi skilyrði.

Í bréfinu leggur eftirlitsnefndin áherslu á það að nauðsynlegt sé að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná lágmarksviðmiðunum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024. Mikilvægt sé að gerð verði útkomuspá fyrir árið 2023 sem grunnforsenda fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 og skilað til nefndarinnar þegar spáin liggur fyrir.

Bæjarstjórinn segir að nefndin ætti að reikna framlegð öðruvísi út

Með fundargerðinni er einnig birt bréf Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs til Sigurður Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, sem dagsett er 22. maí 2023, en Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga heyrir undir ráðuneyti Sigurðar.

Í bréfinu gerir Ásdís athugasemdir við útreikninga nefndarinnar á framlegð sveitarfélaga. Þar segir að samkvæmt skilgreiningu sé framlegð sá hluti tekna sem fer í að greiða fastan kostnað. Í rekstrarfræðum sé rekstrarkostnaði, í sinni einföldustu mynd, skipt í breytilegan kostnað og fastan kostnað. Sem dæmi um fastan kostnað megi nefna fjármagnskostnað af langtíma skuldum. Fastur kostnaður hverfi ekki þó rekstri sé hætt.

Þegar framlegð sveitarfélags sé reiknuð samkvæmt framsetningu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga séu rekstrartekjur teknar og dregin frá þeim laun og launatengd gjöld, breyting lífeyrisskuldbindingar og annar rekstrarkostnaður og sagt að mismunurinn sé framlegðin. Kópavogsbær geri athugasemd við að breyting lífeyrisskuldbindinga sé talin með sem breytilegur kostnaður.

Bæjarstjórinn segir enn fremur í bréfi sínu til innviðaráðherra að hjá Kópavogsbæ hafi verið í gangi Lífeyrissjóður starfsmanna bæjarins. Þessi sjóður hafi orðið að sjálfstæðri deild í lífeyrissjóðnum Brú árið 1998 en með fullri ábyrgð bæjarins. Við þessa breytingu hafi sjóðnum verið lokað fyrir nýjum sjóðfélögum. Síðan þá hafi engar nýjar skuldbindingar bæst við sjóðinn en eldri skuldbindingar hafi hækkað vegna launabreytinga, endurmats á lífslíkum og ef ávöxtun eigna hafi verið neikvæð. Af þessu megi sjá að breyting lífeyrisskuldbindingar sé ekki breytilegur rekstrarkostnaður í þeim skilningi, heldur miklu fremur fjármagnskostnaður og þá sem ígildi verðbóta á uppsafnaða skuldbindingu frá 1998.

Ásdís segir að það sé því mat Kópavogsbæjar að réttara sé að reikna framlegð sem rekstrartekjur að frádregnum launum, launatengdum gjöldum og öðrum rekstrarkostnaði en taka breytingu lífeyrisskuldbindinga ekki með í þeim útreikningum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar