Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, segir Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra, hafa „umorðað og smættað bæði lögfest mannréttindi, réttinum til viðeigandi húsnæðis og lögbundnar skyldur ríkis og sveitarfélaga“ í ræðu sinni á húsnæðisþingi Húsnæðis og mannvirkjastofnunar í gærmorgun. Sakar hann ráðherrann um að ganga erinda fjármálaaflanna í landinu og að vonir stjórnvalda um að nægilegt magn af húsnæði verði byggt sé óskhyggja.
Á þinginu kynnti Sigurður Ingi stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum og sagði það vera grundvöll „alls í okkar lífi að geta skriðið heim í lok dags í rúmið, í húsnæði sem maður hefur aðgang að”. Þessi orð fóru öfugt ofan í Guðmund Hrafn sem bendir á, í aðsendri grein á Vísi, að heimilið sé hornsteinn fjölskyldunnar og sé ekki bara rúm í húsnæði sem maður hafi aðgang að. „Þannig er gistiskýlum lýst“, skrifar Guðmundur.
Guðmundur Hrafn hefur verið afar gagnrýninn á framgöngu stjórnvalda í húsnæðismálum og segir hagsmuni fjármagnseigenda vera í forgangi. Sakaði hann meðal annars Sigurð Inga um að „gaslýsa leigjendur“ á síðasta ári.
Ljóst er að Guðmundi Hrafni þótti lítið til þeirra áætlanna koma sem Sigurður Ingi kynnti á þinginu.
„Það hefur sýnt sig á undanförnum átta árum að fjármálavæddur húsnæðismarkaður er ekki að fara að uppfylla óskhyggju stjórnvalda um stórátak í húsnæðisuppbyggingu. Þrátt fyrir að ríki og sveitarfélög séu skuldbundin til að tryggja framboð á húsnæði, jafnræði og öryggi í húsnæðismálum þá er það ekki leiðarstef þeirra fjármálaafla sem eru allsráðandi á húsnæðismarkaði. Samhliða óteljandi yfirlýsingum stjórnvalda um allsherjarátak í uppbyggingu húsnæðis hefur framleiðslu hrakað jafnt og þétt. Má þannig gera að því skóna að yfirlýsingar og áætlanir stjórnvalda ýti jafnvel undir tregðu fjárfesta til að fjárfesta í húsnæði,“ skrifar Guðmundur Hrafn.
Að hans mati byggist vonir stjórnvalda um aukið og nægjanlegt húsnæðisframboð á óskhyggju enda séu það ekki hagsmunir fjármagnseigenda.
„Hæfilegur skortur á húsnæði veldur því nefnilega að húsnæðisverð hækkar í sífellu og arðssemi eykst. Það er því enginn hvati fyrir fjármálaöflin til að láta hendur standa fram út ermum og auka framboð og taka þannig áhættu á að jafnvægi myndist,“ segir Guðmundur Hrafn.
Hann furðar sig á því að Sigurður Ingi telji að traust á fjármálaöflin muni leysa vandann og að sú trú hafi skapað það skelfingarástand sem Guðmundur vill meina að ríki. „Hann vill með öðrum orðum halda sig við eitrið, það gæti hugsanlega búið yfir einhverjum lækningarmætti í framtíðinni. En kannski veit hann einfaldlega betur og er í raun í vinnu fyrir fjármálaöflin og slær um þau skjaldborg. Annað eins hefur nú gerst,“ skrifar Guðmundur.
Hann segir svo að Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, hafi í kjölfar kynningu ráðherrans, snuprað hann með því að kynna rauntölur sem „að ekki væru nokkrar líkur á að markmið stjórnvalda næðust. Framleiðsla á húsnæði hefur dregist hratt saman undanfarin misseri og eftir tvo ár verða ekki nema tæpar tvö þúsund íbúðir tilbúnar á ári, sem er innan við helmingur af því sem húsnæðisátak stjórnvalda gerir ráð fyrir. En samt var eins og fulltrúar stjórnvalda á húsnæðisþinginu vildu fremur lifa í blekkingu ráðherrans en að takast á við raunveruleikann sem þó birtist ljóslifandi á breiðu tjaldinu,“ skrifar Guðmundur.
Að hans mati er veruleikinn á húsnæðismarkaði óþægilegur en að „umlykja sig hlandvolgri lygi gerir ástandið enn verra.“ Sakaði hann svo Sigurð Inga um að fara með ósannindi.
„Svo slæmt er ástandið að innviðaráðherra gerðist sekur um að grípa til ósanninda þegar hann tók til við að lýsa viðbrögðum stjórnvalda. Hvort það er merki um veika lund eða skeytingarleysi getur undirritaður ekki svarað. Til að mynda lýsti hann því yfir að stjórnvöld hefðu aukið húsnæðisbætur til muna þegar hið gagnstæða er raunin. Hið rétta er að frítekjumark fyrir húsnæðisbæturnar hefur hækkað lítillega að raungildi eða um 8% frá árinu 2017 á meðan að húsaleiga hefur hækkað um tæp 30%. Á sama tíma hefur verðgildi grunnfjárhæða húsnæðisbóta lækkað um 6.5%. Þannig hefur hlutdeild húsnæðisbóta af húsaleigu lækkað verulega á embættistíma Sigurðar, þvert á það sem hann heldur fram. Að sama skapi hefur verðgildi hámarks húsnæðisbóta dregist enn frekar saman á tímabilinu,“ skrifar Guðmundur.
Lesa má pistil Guðmundar í heild sinni hér.