Fyrirtækið Vinnupallar, sem býður upp á fjölbreyttan öryggisbúnað fyrir mannvirkjaiðnaðinn og rekur tækjaleigu, hefur nú flutt alla starfsemi sína frá Smiðbúð í Garðabæ á Vagnhöfða 7 í Reykjavík. Stofnandi fyrirtækisins, Sigríður Hrund Pétursdóttir, segir flutningana vera tímabæra enda sé fyrirtækið fyrir löngu búið að sprengja utan af sér gamla húsnæðið.
„Smiðsbúðin gerði nú aldeilis sitt gagn en þar sem að á þeim sex árum sem Vinnupallar hafa verið í rekstri höfum við notið góðs af því að vörur okkar og þjónusta njóta mikilla vinsælda innan byggingageirans. Það helgast af góðu vöruframboði, framúrskarandi þjónustu, sanngjörnu verði og því að við leggjum okkur fram við að bjóða öruggar sérhæfðar lausnir. Sú þrotlausa vinna hefur skilað sér – eins sjá má á nauðsynlegum flutningunum,“ er haft eftir Sigríði Hrund í fréttatilkynningu.
Hjá Vinnupöllum starfa nú fimm manns í föstum stöðugildum og um tíu manns í afleiddum störfum meðal annars við að reisa palla. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru fyrir utan almenning í framkvæmdum fjölbreyttir verktakar í mannvirkjagerð, viðhaldi, vegagerð, fagaðilar í iðnaðinum sem og mörg stórfyrirtæki.
„Við þjónustum stór sem smá fyrirtæki og alla sem stunda framkvæmdir í mannvirkjum. Það gerir okkar vinnu enn skemmtilegri að viðskiptavinir okkar eru mjög breiður hópur og því í mörg horn að líta.“