fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Silfur Egils og konungar fyrr og nú 

Eyjan
Sunnudaginn 7. maí 2023 14:45

Samtímamynd sem sýnir Aðalstein Englandskonung búa sig undir að afhenda heilögum Cuthbert bók þar sem jarteiknir hans voru raktar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Aðalsteinn konungur sat í hásæti. Hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið. Hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns. Konungur settist í hásæti. En er Egill settist, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýnn hans í lag.“ 

Flest höfum við lesið þessa frásögn Egils sögu. Þórólfur var þá fallinn í orustunni á Vínheiði sem ýmsir hafa tengt við frækinn sigur Aðalsteins (forne. Æðhelstan) Englandskonungs á Skotum við Brunanburh 937. Það liggur í hlutarins eðli að frásagnir Egils sögu eru ekki góð heimild um afrek Aðalsteins, svo langt sem liðið var frá atburðunum. Hvað sem því líður þá lifði orðstír hins mikla herforingja fram eftir öldum og er Egils saga órækur vitnisburður þar um. 

Fyrstur konunga gerði Aðalsteinn tilkall til valda á Bretlandi öllu og lét kalla sig keisara — basileus — að býsantískum sið. Hann hefur því sérstakan sess í enskri sögu. 

Hið djúpa samhengi sögunnar 

Veldi Englandskonunga óx í tímans rás og teygði sig ekki bara yfir allar Bretlandseyjar og Írland heldur um tíma yfir heilan hnöttinn. Og nú þegar Karl III hefur verið krýndur er merkilegt til þess að hugsa að hann sé konungur alls fimmtán fullvalda ríkja. 

Margir sátu límdir við skjáinn í gær og fylgdust af andakt með krýningu konungs; öllum flóknu, ævafornu helgisiðunum sem krýningunni tengjast. Athöfnin fór fram í Westminster Abbey í Lundúnum — á sama stað og Vilhjálmur bastarður var krýndur 1066. 

Þessi mikla upphafning liggur í eðli konungsvalds. Samkvæmt Kulturhistorisk leksikon er merking orðsins konungur „mann som ættar frå gudane“ og enn er talað um konunga „af Guðs náð“. Annars er umgjörð flestra konungsríkja samtímans orðin fremur látlaus ef Stóra-Bretland er undanskilið. Kóngafólk Norður- og Niðurlanda er æði frjálslegt í háttum en Bretar kunna ekki að meta drottningar á reiðhjólunum. Konungsríki er ekki þess virði að praktísera nema með „pomp and circumstance“. 

Íslendingar voru konungssinnaðir 

Nú er mjög í tísku að henda gaman að fornum siðvenjum tengdum konungsvaldi en sterk rök hafa þó verið færð fram fyrir þingbundinni konungsstjórn í stjórnskipunarrétti þeirra ríkja sem viðhafa slíkt fyrirkomulag. Alf Ross, lagaprófessor við Hafnarháskóla, var ekki í vafa um kosti konungdæmis umfram lýðveldi því konungur væri hafinn yfir flokkadrætti og tákn um eindrægni þjóðar með djúpri sögulegri skírskotun. Lýðræðislega kjörinn þjóðhöfðingi gæti seint öðlast slíkan sess. 

Líklega eru flestir Íslendinga búnir að gleyma því að sjálfstæðisbarátta þeirra gekk út á að hér yrði stofnað sjálfstætt konungsríki (ekki lýðveldi) og sú ósk rættist 1918. Halldór Kiljan Laxness, sem vel að merkja var sósíalisti, gerði konungssambandið að umtalsefni í grein í Þjóðviljanum árið 1939. Þar líkti hann stöðu konungs við þjóðkirkjuna og lét í ljósi það álit að á friðartímum — meðan ekkert ytra tilefni gæfist — væri Íslendingum „vafasamur ábati, enda þótt sambandslagasamningunum væri sagt upp, að fara að hrófla við þessum gamla, dauða og tiltölulega saklausa bókstaf“. Íslendingar hefðu verið lítt konungshollir á sama hátt að þeir hefðu verið  

„slælega kristnir leingstum, og kallaðir lítt trúhneigðir; þó eru hér margar undantekníngar. Á vorum tímum er svo komið að bæði kirkja og konúngsvald eru orðin mjög úrættuð öfl og þorrin að krafti svo að segja má, að bæði séu meðal hinna alsaklausustu leifa fornrar kúgunar í landi … Höfundur þessara lína hefur framundir þetta verið, einsog allflestir Íslendingar, konúngssinni á sama hátt og þjóðkirkjusinni. Það er að segja: ég hef verið þolinmóður afhrópunarmaður.“ 

Hefði ekki komið til síðari heimsstyrjaldarinnar er alls óvíst hvort nokkru sinni hefði verið stofnað lýðveldi hér á landi. Maður kunnugur dönsku konungsfjölskyldunni tjáði mér eitt sinn að komið hefði upp sú hugmynd að dönsku krónprinshjónin, Friðrik og Ingiríður, flyttust hingað eftir hernám Danmerkur. Þau nutu mikilla vinsælda meðal Íslendinga og líklega byggjum við enn í konungsríkinu Íslandi hefðu þau sest hér að á stríðsárunum með Margréti dóttur sinni nýfæddri, sem vel að merkja ber líka séríslenskt nafn. 

Samtímamynd sem sýnir Aðalstein Englandskonung búa sig undir að afhenda heilögum Cuthbert bók þar sem jarteiknir hans voru raktar.

Íslendingar ná ekki fullum þroska heima fyrir 

Halldór Kiljan ræddi konungssambandið aftur í grein í Tímariti Máls og menningar 1943 þegar undirbúningur var hafinn að lýðveldisstofnun. Þar gat hann þess að Íslendingar hefðu frá stofnun konungsríkisins 1918 og fram til hernáms Danmerkur stofnað til vináttu við dönsku þjóðina, ekki aðeins byggða á samningum milli ríkjanna heldur ekki hvað síst „á góðum vilja tveggja jafnráðra aðila til að gera kapítulaskipti í sambúð sinni“. Á millistríðsárunum hefðu Íslendingar loksins skilið að þeir höfðu enga ástæðu „né snefil af rétti“ til að bera óvildarhug til dönsku þjóðarinnar: 

„Mörgum Íslendingi fannst, að meðan Danakonungur er þjóð sinni hugfólginn, táknræn persóna, væri það óvinsamlegt gagnvart vinum okkar að hefja æsingar á móti þessu þjóðtákni þeirra, sem söguleg hefð hafði um leið gert að lafatrússi á okkur Íslendingum.“ 

Kristján konungur hefði rækt embætti sitt sem íslenskur ríkishöfðingi sómasamlega, honum hefði aldrei nokkurn tímann orðið það á sem talin yrði gild ástæða til að afhrópa konung. 

Og skáldið bætti því við að Íslendingar hefðu allt frá upphafi byggðar átt aðgang að stærra ríki en þeirra sjálfra, „nokkurskonar heimagangsrétt hjá annarri þjóð“ — fyrst Norðmönnum, síðar Dönum. Til Danmerkur hefðu menn sótt hvers kyns þekkingu, menntun og listir sem Íslendingar — eðli máls samkvæmt — gátu ekki ræktað sakir mannfæðar og fásinnis. 

Jón Helgason, prófessor í Höfn, orðaði það eitt sinn svo að sterk öfl sem enginn réði við yllu því að íslenskur maður ætti erfitt með að ná fullum þroska heima fyrir. Með „fullum þroska“ átti hann vitaskuld við þá menntun sem gerði mann hlutgengan á almenna vísu við aðra menntaða menn annars staðar í heiminum. 

Þessi varnaðarorð eiga enn við. Sú hætta er stöðug að Íslendingar, sakir fámennis og fásinnis, loki sig af í eigin heimóttarskap. Þetta skildu menn þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, lögðust í víking og gengu í þjónustu erlendra konunga. Af sögum að dæma öðluðust ófáir þeirra miklar mannvirðingar líkt og Egill sem hélt heim með silfursjóðinn frá Aðalsteini Englandskonungi. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?