Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fékk þau skilaboð í símtali frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hún yrði ekki skipuð sem dómsmálaráðherra eftir brotthvarf Sigríðar Á. Andersen úr embættinu árið 2019.
Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Chat after Dark þar sem Áslaug Arna, sem nú gegnir embætti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er nýjasti gestur.
Í viðtalinu við Áslaugu Örnu kemur fram að hún hafi eðlilega orðið fyrir miklum vonbrigðum enda hafi hún ákveðið að sækjast stíft eftir embættinu þrátt fyrir að vera aðeins 29 ára að aldri og reynsluminni en aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Símtalið átti sér stað að kvöldi til en daginn eftir var ráðgert að Áslaug Arna ætti að fara í vinnuferð til Finnlands með utanríkismálanefnd þingsins sem hún gegndi formennsku í. Hún vildi hins vegar heyra í Bjarna fyrir ferðina og kanna hvort að hún ætti að aflýsa förinni enda vissi hún að til stæða að útnefna nýjan dómsmálaráðherra á meðan hún yrði úti og hún þyrfti helst að vera viðstödd ef að hún fengi embættið.
Eins og áður segir tilkynnti Bjarni henni í símtalinu að hún yrði ekki fyrir valinu að þessu sinni, án þess að geta þess hver hefði hreppt hnossið. Þegar símtalinu stutta var lokið hafi Áslaug Arna melt tíðindin um stund og síðan sent sms-skeyti á Bjarna með eftirfarandi setningu: „Ég hélt þú myndir þora“.
Áslaug Arna fór því í ferðinni ásamt öðrum þingmönnum en ekki sagði til að byrja með engum frá tíðindum. Hún hafi loks sagt föður sínum frá því í símtali og síðan haldið á rússneskan veitingastað í Finnlandi ásamt öðrum þingmönnum. Hún hafi pantað sér rauðvínsglas og mat og ætlað að fylgjast með fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Teams þar sem tilkynnt yrði „hvaða kall“ yrði fyrir valinu, eins og Áslaug Arna orðaði það.
Henni hafi hlýnað um hjartaræturnar þegar Bjarni hafi þá skyndilega hringt í hana og talið að hann ætlaði að láta hana vita rétt fyrir fundinn hver hefði orðið fyrir valinu svo að vonbrigðin yrðu minni. Hún hafi því brugðið sér afsíðis á klósett rússneska veitingastaðarins en þar hafi hún fengið að vita tilgang símtalsins. Bjarni var að tilkynna henni að hún yrði fyrir valinu sem næsti dómsmálaráðherra.
Í viðtalinu talar Áslaug Arna hlýlega um formanninn og segir að hann eigi það til að draga ákvarðanir fram á síðustu stundu en sé þá búinn að hugsa þær fram og tibaka.
„Bjarni hefur sýnt það að hann treysti ungu fólki í stjórnunarstöður,“ segir Áslaug Arna og telur Sjálfstæðisflokkinn vera í fararbroddi hvað það varðar.
Á Spotify-síðu Chat after Dark er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni