„Aðra vikuna í röð kynnast Reykvíkingar getuleysi pólitískrar yfirstjórnar borgarinnar við snjóruðning. Enn og aftur bregst hún þeirri grunnskyldu, að tryggja að götur borgarinnar séu sæmilega færar og að fólk komist til og frá heimilum sínum.“
Svona hefst pistill sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, skrifar en pistillinn var birtur í Morgunblaðinu í dag. Kjartan fullyrðir að tugþúsundir Reykvíkinga hafi lent í miklum vandræðum vegna ófærðar í húsagötum í síðustu viku en á sama tíma hafi götur verið almennt orðnar greiðfærar í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
„Sagan endurtekur sig í þessari viku.“
Kjartan segir starfsmenn Reykjavíkurborgar og verktaka sem sinna snjómokstri í borginni vera að standa sig vel við erfiðar aðstæður. Það sé hins vegar „pólitísk stjórnun snjóruðnings í borginni“ sem sé „óviðunandi með öllu“ samkvæmt Kjartani.
„Nú er orðið ljóst að slæleg viðbrögð borgarinnar við snjókomunni um þarsíðustu helgi voru ekki einstök óhappatilviljun, eins og margir vonuðu, heldur yfirveguð stefna borgarstjórnarmeirihlutans.“
Kjartan segir að kjarni málsins sé sá að Reykjavíkurborg sé með alltof fá snjómoksturstæki til umráða miðað við stærð borgarinnar og umfang snjókomunnar. „Þetta kom í ljós síðasta vetur, í síðustu viku og einnig í þessari viku,“ segir hann.
Þá útskýrir hann hver munurinn er hlutfallslega á fjölda snjóruðnignstækja sem hafa verið að störfum í borginni og í nágrannasveitarfélögunum:
„Þegar þörfin var sem mest í síðustu viku, var greint frá því að 22 snjóruðningstæki væru að störfum í Reykjavík, 20 í Hafnarfirði, 20 í Kópavogi og 10 í Garðabæ. Þessar tölur sýna metnaðarleysi borgarstjóra í málaflokknum enda búa 56% fleiri íbúar í Reykjavík en í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ til samans. Hlutfallslega eru því langfæst snjóruðningstæki að störfum í Reykjavík.“
Kjartan segir svo að hér á árum áður hafi borgin haft mun fleiri tæki til umráða. „Til frekari samanburðar má geta þess að árið 1984 voru um 100 tæki send út á götur Reykjavíkur til snjóruðnings þegar sambærilega snjókomu gerði. Þá var borginni stjórnað af meirihluta Sjálfstæðisflokksins,“ segir hann.
„Þrátt fyrir að mörg hverfi hafi bæst við borgina síðan 1984 og íbúum hennar fjölgað um 54%, telur núverandi borgarstjóri 22 tæki duga.“
Kjartan tók málið upp á fundi borgarstjórnar skömmu fyrir jól. „Undirritaður tók málið upp á fundi borgarstjórnar 20. desember, þremur dögum eftir að snjó kyngdi niður í borginni, og gagnrýndi þá harðlega lélega verkstjórn yfirstjórnar borgarinnar,“ segir hann.
„Á fundinum viðurkenndi Einar Þorsteinsson, staðgengill borgarstjóra, vandann af hreinskilni og sýndi vilja til úrbóta. Góðar vonir stóðu því til að yfirstjórn Reykjavíkurborgar myndi læra af klúðrinu og standa betur að verki í þessari viku eftir mikla snjókomu á þriðja degi jóla. Þeirri snjókomu var spáð með löngum fyrirvara eins og snjókomunni viku fyrir jól.“
Kjartan segir þær vonir þó hafa brugðist:
„Á þriðjudag upplýsti yfirmaður vetrarþjónustu í Reykjavík að svipaður fjöldi snjóruðningstækja sinnti mokstri nú og í síðustu viku. „Þetta verður svipað og síðast. Tækjum hefur ekkert fjölgað. Þetta eru eitthvað um 20 tæki,“ var haft orðrétt eftir yfirmanninum.“
Kjartan segir að ekki sé hægt að ná í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, vegna málsins. „Sem fyrr lætur borgarstjóri ekki ná í sig vegna málsins en vísar þess í stað á lágt setta yfirmenn eða jafnvel nefndaformenn,“ segir hann.
Einnig er Kjartan ósáttur með Alexöndru Briem, formann umhverfis og skipulagsráðs borgarinnar. Hann segir afsakanir hennar verða „æ fjarstæðukenndari“ en ummæli hennar um snjómoksturinn vakti töluverða athygli á dögunum.
„Afsakanir formanns umhverfis- og skipulagsráðs verða æ fjarstæðukenndari. Eftir að yfirlýsing um að stýrihópur væri að endurskoða þjónustuhandbók vetrarþjónustu sló ekki í gegn, var ýjað að því að meint fákeppni í snjóruðningi væri vandinn.“
Kjartan segir að það sé í raun engin fákeppni á markaðnum með snjóruðning. „Mörg hundruð vinnuvélar á Reykjavíkursvæðinu eru tiltækar í verkefnið en einungis um 20 þeirra að störfum í höfuðborginni,“ segir hann.
„En auðvitað er það borgarstjóri ásamt pólitískum meirihluta borgarstjórnar sem ber höfuðábyrgð á skipulagsklúðrinu og lélegri verkstjórn í málaflokknum.“