fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Helgitákn allt um kring

Eyjan
Sunnudaginn 25. desember 2022 15:50

Háteigskirkja Mynd/Wikipedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gaius Cilnius Maecenas var uppi á fyrstu öld fyrir Krist, einkavinur og ráðgjafi Oktavíanusar, sem við þekkjum betur sem Ágústus keisara. Nafn Maecenasar er þekkt úr veraldarsögunni því hann var sérstakur velgjörðarmaður tveggja frægustu skálda Rómar, Virgils og Horatíusar. Af nafni Maecenasar er dregið orðið maecen sem í mörgum tungumálum þýðir listvinur. Í einu bréfi Horatíusar til Maecenasar segir skáldið: „Nullius addictus iurare in verba magistri.“ Sem myndi útleggjast sem svo að honum sé ekki skylt að sverja með orðum (þ.e. hollustu) við húsbónda. Þarna eru komin einkunnarorð The Royal Society of London for Improving Natural Knowledge: nullius in verba í þeim skilningi að ekki megi samþykkja viðteknar skoðanir þó svo að þær hrökkvi af vörum mikils metinna fræðimanna; sannreyna verði sérhverja fullyrðingu.

Árni Árnason framkvæmdastjóri leggur út af þessum orðum í bók sem út kom nú á haustdögum og nefnist Ingólfur Arnarson. Arfleifð hans og Íslandssagan í nýju ljósi. Þar tekur hann til endurskoðunar tvær fullyrðingar úr sögunni; annars vegar að Ingólfur Arnarson hafi sest að í Kvosinni í Reykjavík og hins vegar að Flóki Vilgerðarson hafi gefið Íslandi nafn. Án þess að ég vilji ljóstra of miklu upp fyrir áhugasama lesendur þá er niðurstaða Árna sú að hvorug umræddra fullyrðinga standist skoðun. Hvað þá síðarnefndu áhrærir þá er tilgátan í bókinni sú að írskir einsetumenn hafi gefið Íslandi nafn — ekki norrænir menn. Í fornri írsku var nafn Jesú Ís(s)u en á írsku nútímans heitir Ísland An Íoslainn, Íslendingur er Íoslannach, íslenskur An Íoslannis og Jesú er Íosa. Sannarlega áleitið nú á fæðingarhátíð frelsarans.

Listaverk með djúpum undirtón

Á Valhúsahæðinni er skúlptúr eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara en í Bókinni um Ásmund eftir Matthías Johannessen kveðst listamaðurinn með þessu verki sínu hafa reynt að tengja saman nútíð og fortíð í einni mynd, trúarbrögð forfeðra okkar og kristin viðhorf. Þar mætti sjá „krossinn lýsandi í sólinni og geislarnir dreifast um holrúmið og lenda á skipsstefninu. Sólarformið myndast í öldunni sem rís yfir skipið og fellur í boga yfir geislana á milli öndvegissúlnanna,“ eins og Ásmundur orðaði það og bætti því við að þarna mætti sjá öll helstu helgitákn íslenskrar trúar — ekki síst skipið. Að mati Ásmundar ætti kirkjan að vera líkt og fljót sem rynni eins og lífið. Honum þætti sem kirkjan hefði staðnað og þar væri hún í mestri hættu.

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor emeritus í gamlatestamentisfræðum, ritaði áhugaverðan pistil um aðrar helgimyndir Ásmundar Sveinssonar — þær sem finna
má í Háskólakapellunni en greinin birtist á vef Kirkjublaðsins í gær. Af þeim myndum hafa tvær skírskotun til íslenskra fornsagna. Önnur sýnir hrafn sem minnir á
frásögnina af Flóka Vilgerðarsyni í Landnámu sem Gunnlaugur tengir við frumsögu 1. Mósebókar þegar Nói notar dúfu til að vísa sér á þurrt land eftir flóðið. Hin myndin er skip sem Ásmundur kallaði eitt af helgitáknum íslenskrar trúar. Á holti nokkru austar, Rauðarárholti, stendur Háteigskirkja. Pétur H. Ármannsson arkitekt gerir byggingarlist hennar vel skil í bók okkar Péturs um Halldór H. Jónsson arkitekt sem út kom nú í haust. Halldór áleit það frumskilyrði þess að geta teiknað kirkju að vera sjálfur trúaður, „því kirkja hlýtur að vera í huga húsameistara lofsöngur til skaparans“. Turnar kirkjunnar eru fyrir löngu orðnir eitt helsta kennileyti bæjarins en arkitektinn Halldór sagði turna hennar „gefa stefnuna upp á við til himna“.

Við hönnunina sótti arkitektinn innblástur í býsanskan stíl sem væri við hæfi því forðum hefðu Íslendingar sótt mjög til býsanskrar listar sem hefði „borist hingað gegnum tengsl norrænna manna við Kænugarð og Miklagarð fyrr á öldum“ eins og Halldór orðaði það. Systir hans, Selma Jónsdóttir, forstöðumaður Listasafns ríkisins, varði doktorsritgerð sína 1960 þar sem hún sýndi fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti dómsdagsmyndar í býsönskum stíl á miðöldum. Skýrra áhrifa Austurkirkjunnar gætti alla leið hingað á hjara veraldar.

Aldirnar kallast á

Í nýútkomnum endurminningum sínum segir Jóhannes Nordal, fyrrv. seðlabankastjóri, frá einni eftirminnilegustu stund ævi sinnar 31. ágúst 1954 þegar hann varð vitni að því er steinkista Páls biskups Jónssonar í Skálholti var opnuð en hann var jarðsettur árið 1211. Jóhannes lýsir því að skömmu áður en þungu steinlokinu var lyft af kistunni hefði skollið úr lofti steypiregn sem minnti á þau undur sem höfðu átt sér stað er Páll biskup var lagður til hvílu og greinir frá í sögu hans: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta, himinn og skýin grétu, svá að mikill hlutr spilltist jarðarávaxtarins.“ Þarna kölluðust aldirnar á með einkennilegum hætti og þetta minnir á nálægð sögu fyrri alda. Páll var sonur Jóns Loftssonar í Odda og þar ólst upp með honum fóstursonur Jóns, Snorri Sturluson.

Líklega hefur ekkert tengt fólk hér á þessari úthafseyju meira saman um aldirnar en trúin og kirkjan. Táknin eru allt um kring en við þurfum að geta lesið í þau, skilið þau. Til þess þarf að rækta þjóðmenninguna, hlúa að henni og verja. Þar er sjálf tungumálið dýrmætast en í krafti þess eigum við sálufélag við persónur Íslendingasagna, Ara fróða og Snorra. En menningin er líka hluti samevrópskrar menningar, hvort sem áhrifin komu með írskum einsetumönnum, Rómarkirkunni eða Býsans.

Bók Árna sem ég nefndi að framan er tilraun til að skilja betur okkur sjálf og hvaðan við komum, hvar rætur menningarinnar liggja. Og þrátt fyrir allar úrtöluraddir þeirra sem amast við kristni þá hefur boðskapur jólanna enn mikil áhrif. Kirkjan hefur boðað að vernda og líkna hinum veiku og að ofbeldi og hnefaréttur eigi ekki að gilda í samskiptum manna. Boðskapur jólanna er ekki eingöngu friður heldur líka öryggi og vissa — ekki bara friður milli manna heldur líka friður í sálum manna sem er sérstaklega mikilvægt á tímum andlegrar upplausnar þar sem alltof marga skortir festu, vissu og trú.

En líkt og Ásmundur myndhöggvari nefndi þarf kirkjan að renna sem fljót og sama gildir um þjóðmenninguna alla. Þetta minnir á það sem sem Schiller segir í „Erwartung und Erfüllung“: æskumaðurinn siglir seglum þöndum um úthöfin en skip hins aldna liggur við festar. Ef til vill er engin táknmynd jafnsterkt fyrir okkar menningu og einmitt skipið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi