„Satt best að segja hélt ég ekki að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur myndi ganga svo blygðunarlaust á bak orða sinna! En á fundinum var starfsfólki tilkynnt að samið hefði verið um yfirtöku Heilsuverndar, einkarekins fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu, á rekstri Vífilsstaða,“ segir Kristófer Ingi Svavarsson, trúnaðarmaður Sameykis á Vífilsstöðum, og vísar þar til fundar sem haldinn var þriðjudaginn 4. október um framtíð Vífilsstaða.
Kristófer birtir grein á Vísir.is í dag undir yfirskriftinni „Vífilsstaðir og óheilindi ráðamanna.“
„Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs spítalans, mættu sjálf á fundinn til að segja frá þessu og voru sýnilega slegin. Þetta kom flatt upp á alla. Engin útboðsauglýsing hafði verið birt eftir að sú gamla, með ítrekuðum tilboðsfresti, rann út. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur semur sem sé við Heilsuvernd um yfirtöku Vífilsstaða útboðslaust (í einu af þessum frægu reykfylltu bakherbergjum?). Og án nokkurs samráðs við stjórnendur og starfsmenn Landspítalans. Er það löglegt? Eða bara siðlaust?“ spyr Kristófer.
Kúvendingar
Hann rekur að í maímánuði hafi starfsfólk Vífilsstaða verið boðað á mikilvægan fund í hátíðarsal sjúkrahússins þar sem tilkynnt var „að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefði ákveðið að bjóða út, eða einkavæða, þá starfsemi sem væri í húsinu. Nýir rekendur tækju við í haust eða um áramót.“
Í september hafi síðan verið boðað til annars fundar en þar hafi hins vegar verið tilkynnt að ekkert yrði úr áformum um útboð í fyrirsjáanlegri framtíð og heilbrigðisráðherra hefði sagt í viðtali í sama mánuði að ekkert yrði „úr á þessu ári.“
Sjá einnig: Ringulreið vegna einkavæðingar Vífilsstaða – „Allt er ýmist í lausu lofti, eða að þrotum komið“
„Voru þetta þá ósannindi? Eða óheilindi? En förum varlega með orð; þau geta sprungið/og þó er hitt öllu hættulegra/það getur vöknað í púðrinu. Þess vegna segjum við náttúrlega ekki að neinn hafi logið eða skrökvað, kannski farið óvarlega með sannleikann eða krítað liðugt?“spyr Kristófer.
Þriðji fundurinn um framtíð Vífilsstaða hafi síðan verið haldinn nú á þriðjudag og þá tilkynnt að stjórn Landspítalans hefði rúma tvo mánuði til að rýma húsið og flytja sjúklinga burt.
„Niðurskurðareyðilegging“
„Allir ættu að vera á bak og burt um áramótin. Hvert ættu þeir að fara? 15 kæmust sennilega á nýja öldrunardeild á Landakoti. Hvort hinir 30, allir með „gilt færni- og heilsumat“, fengju þá dvalarpláss á hjúkrunarheimili er óvíst. Þeim plássum fjölgar lúshægt!,“ segir Kristófer.
Vífilsstaðir verði eftir það aðeins fyrir þá sem séu við dauðans dyr eða þá sem geta farið heim aftur, en þeir sem þurfa sólarhrings aðhlynningu „þeir fara burt, bara eitthvað, láta sig bara hverfa!“
Í þessu samhengi rifjar Kristófer upp að Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sagði fyrir skemmstu „að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu væri markviss, stjórnvöld og pólitíkusar bæru ábyrgð á honum. Magnús Karl kvaðst ekki telja að almenningur endilega áttaði sig á þessari niðurskurðareyðileggingu, hvað þá að hann samþykkti hana,“ segir Kristófer.
Og hann spyr: „Er þá ekki mál til komið að almenningur sýni að hann sætti sig ekki við þessa niðurskurðareyðileggingu og setji ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá kosti að hún vendi sínu kvæði í kross. Taki ákvarðanir í samræmi við ótvíræðan þjóðarvilja, í anda Voltaires!“
Greinina í heild sinni má lesa hér.