fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
EyjanFastir pennar

Pútín og Úkraína – Aumingjaskapur Vesturlanda – Hvaða land er næst?

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 26. febrúar 2022 12:00

Pútín var líkt við Hitler í mótmælum í Austurríki í vikunni. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur varla farið framhjá neinum að Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, gaf í vikunni rússneska hernum fyrirmæli um að ráðast inn í Úkraínu. Innrásin hafði í raun legið í loftinu vikum sama því Rússar höfðu stefnt á annað hundrað þúsund hermönnum að úkraínsku landamærunum. Vikum saman fullyrtu Pútín og samstarfsmenn hans að ekki stæði til að ráðast á Úkraínu en á Vesturlöndum trúðu fáir því enda löngu ljóst að ekki er hægt að trúa einu orði af því sem Pútín og félagar hans segja.

Í kjölfar árásarinnar tilkynntu Vesturlönd um refsiaðgerðir gegn Rússland og beinast þær bæði gegn nafngreindum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Meðal þeirra nanfgreindu einstaklinga sem verða fyrir refsiaðgerðum eru samstarfsmenn Pútíns en Pútín og vinir hans hafa árum og áratugum saman arðrænt rússnesku þjóðina. Meirihluti þjóðarinnar býr við kröpp kjör þrátt fyrir að landið sé eitt þeirra ríkja heims sem býr yfir mestum náttúruauðlindum. Pútín og vildarvinum hans hefur tekist að sölsa helstu verðmæti landsins undir sig. Allir þekkja sögur um rússneska olígarka sem búa í Lundúnum og hafa ómælt fé á milli handanna, kaupa sér flugvélar og snekkjur og jafnvel heilu knattspyrnuliðin, má þar nefna lið Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Morð og launráð

Auðugir Rússar og landflótta Rússar hafa verið nokkuð áberandi í Bretlandi um langa hríð. Margir hinna landflótta Rússa, sem ekki teljast til vildarvina Pútíns, hafa verið honum þyrnir í augum og margir þeirra hafa látið lífið við vægast sagt dularfullar kringumstæður í gegnum árin. Lítill vafi hefur leikið á því í hugum flestra að þar hafi útsendarar Pútíns verið að verki og hafi þeir flýtt fyrir för andstæðinga hans yfir móðuna miklu. Þetta hefur ekki alltaf tekist og má þar nefna morðtilræðið við Skripalfeðginin fyrir nokkrum árum en þau lifðu það af fyrir einhverja ótrúlega heppni. Sárasaklaus bresk kona lést hins vegar af völdum eitursins sem Rússarnir notuðu. Bresk stjórnvöld hafa lengi grunað útsendara Pútíns um morð á andstæðingum hans og hafa látið þá skoðun sína í ljós opinberlega, samt sem áður hafa þau að segja má látið þetta viðgangast og ekki beitt Rússa neinum refsiaðgerðum eða viðurlögum að því er heitið getur.

En útsendarar Pútíns hafa látið að sér kveða víðar en á Bretlandi og hér og þar hafa andstæðingar og gagnrýnendur forsetans horfið yfir móðuna miklu á dularfullan hátt í gegnum tíðina. En eins og með Breta þá hefur ekki mikið verið gert í þessum málum. Pútín hefur verið leyft að vaða uppi með launmorð, innrásir í nágrannaríki Rússlands, hernám Krím og fleira. Vesturlönd hafa sýnt af sér ótrúlegan aumingjaskap hvað varðar viðbrögð við framferði Pútíns og hans fólks.

Ég segi Pútín og hans fólk hér því ekki er hægt að heimfæra þetta upp á rússnesku þjóðina. Henni er haldið í heljargreipum spilltra valdhafa, lýðræði er ekki til staðar í landinu, fjölmiðlafrelsi er nánast óþekkt hugtak og mannréttindi eru ekkert sem valdhafar eru hrifnir af.

Aumingjaskapur Vesturlanda

Hvað varðar viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu hafa Vesturlönd tilkynnt um ýmsar refsiaðgerðir gegn Rússum en ekki nægilega harðar að margra mati. Má þar nefna að ekki hefur verið lokað fyrir aðgang þeirra að greiðslukerfinu SWIFT en það að loka fyrir aðgang þeirra að því verður nánast lokað fyrir möguleika Rússa á að eiga í erlendum viðskiptum. Þeir geta ekki tekið við greiðslum frá útlöndum né sent greiðslur til útlanda. Í fréttum hefur komið fram að þegar ríki ESB voru að koma sér saman um refsiaðgerðir hafi hin ýmsu ríki viljað gera ýmsar undanþágur og má þar til dæmis nefna að Ítalir vildu heimila sölu á lúxusvarningi til Rússlands, Austurríkismenn vildu vægari aðgerðir gegn rússneskum bönkum en austurríski Raiffeisen-bankinn starfrækir mörg hundruð útibú í Rússlandi.  Belgar vildu að demantar yrðu undanþegnir refsiaðgerðunum en Belgía er ein helsta miðstöð demantasölu í heiminum. Þjóðverjar hafa ekki viljað loka fyrir gasflæði frá Rússlandi því þeir eru mjög háðir því. Fram kom í fréttum í vikunni að ef lokað verður fyrir gasstreymið núna þá eru til nægar gasbirgðir í Evrópu til að komast í gegnum veturinn. Eflaust mætti draga fleiri dæmi af þessu tagi fram en þessi dæmi sýna veikleika (aumingjaskap) Vesturlanda hvað varðar viðbrögð við innrás Rússa. Ríkin hugsa fyrst og fremst um eigin hag og vilja ekki verða fyrir efnahagslegu tjóni sjálf. Þau eru reiðubúin til að styðja aðgerðir sem koma ekki niður á þeim sjálfum. Þetta dregur auðvitað úr áhrifum refsiaðgerðanna og það er þetta sem Pútín treystir á, samstöðuleysi Vesturlanda þar sem hver hugsar aðallega um sjálfan sig. Peningar eru greinilega mikilvægari en líf Úkraínubúa og sjálfstæði landsins, að minnsta kosti í augum sumra.

Í gegnum tíðina hefur Pútín getað treyst á eiginhagsmunagæslu ríkja á Vesturlöndum og að hún kæmi í veg fyrir hörð viðbrögð við framferði hans og félaga hans. Hann gat treyst á að ríkin væru ekki reiðubúin til að fórna sínum eigin hagsmunum nema að mjög takmörkuðu leyti. Peningarnir réðu för.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um hvað gerist þegar stríðinu í Úkraínu er lokið en það er í raun engin ástæða til að treysta því að Pútín sé hættur. Það má því velta fyrir sér hvaða ríki eru næst á dagskránni hjá honum. Það er líklega ekki að ástæðulausu sem íbúar Eystrasaltsríkjanna eru mjög áhyggjufullir yfir því sem er að gerast þessa dagana í Úkraínu. Eystrasaltsríkin liggja vel við höggi en eru þó betur sett en Úkraína því þau eru aðilar að NATO. NATO vinnur einmitt að því að styrkja varnir þeirra þessa dagan og er að fjölga hermönnum sínum þar mikið.

Wagner-hópurinn er her rússneskra málaliða sem fáum dylst að lúti stjórn Pútíns og hans fólks. Málaliðarnir hafa verið sendir til ýmissa svæða í heiminum til að taka þátt í átökum, allt með það að markmiði að styrkja stöðu Rússa. Má þar til dæmis nefna að þeir hafa tekið þátt í stríðinu í Sýrlandi og víða í Afríku. Hvert verða þeir sendir næst?

Það má síðan ekki gleyma Balkanskaga. Mikil spenna er í Bosníu-Hersegóvíníu þar sem Milorad Dodik, leiðtogi Republika Srpska, hótar að segja skilið við ríkið og koma á laggirnar sjálfstæðum serbneskum her. Hann er hliðhollur Rússum og nýtur stuðnings þeirra. Pútín og hans fólk hafa kynnt undir óánægju þar og vilja gjarnan efna til ófriðar. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hversu hörmulegt það verður ef stríð brýst út á nýjan leik á Balkanskaga og ekki er hægt að útiloka að Pútín blandi sér í það.

Nú er kominn tími til að Vesturlönd átti sig á að þetta gengur ekki lengur og að þau verða standa föstum fótum gegn Pútín. Undanlátssemi skilar engu og öllum ætti að vera ljóst að það þjónar engum tilgangi að reyna að semja við hann. Það þarf að einangra Rússa á alþjóðavettvangi. Refsiaðgerðir verða, því miður, að koma niður á rússneskum almenningi auk elítunnar sem hefur arðrænt rússnesku þjóðina um langa hríð. Rússneskur almenningur þarf að rísa upp og bola Pútín og hans fólki frá völdum. Pútín og hans fólk hverfa ekki af sjálfsdáðum frá kjötkötlunum og svo lengi sem Pútín er við völd má reikna með að kynt verði undir ófriðarbáli í Evrópu. Það er mikil hætta sem fylgir því fyrir heimsbyggðina að Pútín sé við völd því greinilegt er að maðurinn er stórhættulegur og má þar til dæmis nefna hótun hans frá í vikunni um að beita kjarnorkuvopnum ef utanaðkomandi ríki blanda sér í stríðið í Úkraínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Flýtum lagningu Sundabrautar

Flýtum lagningu Sundabrautar
EyjanFastir pennar
01.05.2022

Björn Jón skrifar: Flumbrugangur við bankasölu

Björn Jón skrifar: Flumbrugangur við bankasölu
EyjanFastir pennar
25.04.2022

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022
Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
10.04.2022

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf

Björn Jón skrifar: Norrænt varnarsamstarf
Aðsendar greinarFastir pennar
09.04.2022

Öfgar skrifa: Ofbeldi gegn konum í krafti fjórða valdsins

Öfgar skrifa: Ofbeldi gegn konum í krafti fjórða valdsins
EyjanFastir pennar
13.03.2022

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá

Björn Jón skrifar: Evrópumálin eru aftur á dagskrá
EyjanFastir pennar
07.03.2022

Heimir skrifar: Þegar Rússinn tók bita af Úkraínu en kafnaði á Zelenskyy

Heimir skrifar: Þegar Rússinn tók bita af Úkraínu en kafnaði á Zelenskyy