fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Eyjan

Þetta er heimilisofbeldið sem ekki má tala um segir Sigmundur

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 3. febrúar 2022 08:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í leiðara Fréttablaðsins í dag fjallar Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri um það sem hann kallar heimilisofbeldið sem ekki má tala um.

Í upphafi leiðarans segir hann að í íslenskri efnahagspólitík sé einkum fjallað um afleiðingar frekar en að taka á orsökinni. Heita megi að þessi áráttuhegðun hafi verið við lýði í heilu og hálfu mannsaldrana en aldrei hafi þótt ástæða til að breyta stefnunni.

Hann segir síðan að öðru hvoru séu krónuflokkarnir á Alþingi minntir á hver orsökin sé og nú síðast hafi stjórnarherrarnir haft á orði að kannski sé húsnæðisliður vísitölunnar helst til bagalegur í heimilisbókhaldi almenning og jafnvel ósanngjarn.

Hann segist að þetta heyrist reglulega en sé aldrei tengt við þann dapurlega raunveruleika að minnsti gjaldmiðill heims, íslenska krónan, þurfi ekki bara belti og axlabönd heldur sé nú svo komið að ekki sé tekið við krónunni í öðrum Evrópuríkjum og það þekki Pólverjar og aðrir frá Austur-Evrópu, sem ferðast á milli landa vegna vinnu sinnar, vel. Þetta fólk geti þó farið.

„Eftir sitja Íslendingarnir í útnorðri og láta refsa sér sem nemur nálega 200 milljörðum á ári, sem er kostnaður þeirra af notkun krónunnar, en það er álíka upphæð og alþýða manna leggur samneyslunni til í formi tekjuskatts á ári. Sveiflur krónunnar og samfelldur veikleiki hennar, í bland við bækluð hjálpartækin, er heimilisofbeldið á Íslandi sem ekki má tala um,“ segir Sigmundur og  bætir við að þöggun hafi verið miklu vænlegri kostur en að ræða til þrautar það sem getur komið sér best fyrir almenning í gjaldmiðilsmálum.

„Það skal bara áfram barið á fólki. Og það sem er kannski sárara en tárum taki, er að þessi sama alþýða manna virðist vera orðin vön þessu ofbeldi – og lætur sig að minnsta kosti hafa það, ber sér fremur á brjóst en að brotna,“ segir hann síðan og bætir við að þetta sé ástæðan fyrir að þjóðin hafi aldrei gert uppreisn gegn því að húsnæðisliðurinn sé tengdur við verðlagsþróun, slíkt þekkist hvergi annars staðar á siðmenntuðu bóli.

„Og það er húsnæðisliðurinn í vísitölunni sem knýr áfram verðbólguna að hálfu leyti, enda þótt hækkun húsnæðisliðarins stafi ef til vill af allt öðru en aðrir þættir sem ýta við vísitölunni. Og þá þarf að hækka vexti, einmitt svo alþýðan kosti meiru til. Og þetta er kallað efnahagsstjórn,“ segir hann síðan að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt