fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Bretar íhuga að senda mörg hundruð hermenn til Austur-Evrópu vegna Úkraínudeilunnar

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 30. janúar 2022 17:00

Breskur hermaður á æfingu haustið 2021. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bresk stjórnvöld íhuga nú að senda nokkur hundruð hermenn til Austur-Evrópu til að styrkja varnir NATO á austurvæng bandalagsins. Þetta er einn af þeim möguleikum sem eru uppi á borðinu hjá Bretum að sögn Sky News.

Segir Sky News að aðildarríki NATO hafi rætt að koma sér upp rúmlega 1.000 manna hersveitum í Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi og Slóvakíu vegna framgöngu Rússa og af ótta við að þeir ráðist á Úkraínu.

Fram kemur að bresk stjórnvöld hafi átt í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um að senda hermenn til Austur-Evrópu vegna stöðu mála en Rússar hafa sent tæplega 120.000 hermenn að úkraínsku landamærunum.

Heimildarmaður innan stjórnkerfisins sagði að engin ákvörðun hafi verið tekin en þetta sé einn af þeim möguleikum sem séu uppi á borðinu. Slík aðgerð er sögð geta orðið ein af lokatilraununum til að fá ráðamenn í Kreml til að hugsa sig tvisvar um ef viðræður um málefni Úkraínu fara út um þúfur. Það að senda hermenn til Austur-Evrópu væri einmitt þvert á það sem Pútín hefur krafist. Hann vill að NATO dragi allar hersveitir sínar frá Austur-Evrópu og Mið-Evrópu og segir að vera þeirra þar ógni öryggi Rússlands. NATO hafnar þessu algjörlega.

Þetta myndi einnig styrkja varnir óstyrkra ríkja í Austur-Evrópu sem óttast að Pútín ráðist á þau ef hann lætur til skara skríða gegn Úkraínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt