fbpx
Fimmtudagur 29.júlí 2021
Eyjan

Af framboðsmálum Suðurkjördæmis

Eyjan
Sunnudaginn 30. maí 2021 19:00

Guðrún Hafsteinsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Í nótt sem leið var kunngjört að Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss, yrði nýr oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, en næstir á eftir henni í prófkjöri urðu alþingismennirnir Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson. Hér í þessum pistlum hafði því áður verið velt upp að Guðrún færi hugsanlega fram fyrir Viðreisn í kjördæminu en það fór á anna veg.

Þekking sem gagnast í þingstörfum

Úrslitin mega teljast fagnaðarefni fyrir sjálfstæðismenn í ýmsum skilningi. Á Alþingi hefur verulega skort á skilning á fyrirtækjarekstri. Sífellt auknar álögur og kvaðir á atvinnulífið bera vitni um þetta. Og ef litið er til þingmanna sem tengst hafa atvinnurekstri hefur mest borið á áhrifafólki úr sjávarútvegi og landbúnaði í sölum Alþingis — en Guðrún kemur úr iðnaðinum og hefur áunnið sér traust þeirrar atvinnugreinar sem formaður Samtaka iðnaðarins sem eru langstærstu aðildarsamtök SA. Líklega tengja flestir orðið iðnað við verksmiðjuframleiðslu eða handverk en samtökin eru miklu fjölbreyttari. Fyrirtækin innan vébanda þeirra eru 1400 talsins og þar má finna iðnmeistara, handverksfólk, fyrirtæki í verksmiðjuiðnaði, byggingaverktaka, jarðvinnufyrirtæki, tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki, flókin tæknifyrirtæki, matvæla- og drykkjarvöruframleiðendur, prentsmiðjur, efnaiðnað og stjóriðjufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Guðrún situr í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og var formaður sjóðsins um skeið og er formaður Landssamtaka lífeyrissjóða. Undanfarin ár hefur verið sótt að lífeyrissjóðunum landsmanna úr ýmsum áttum og þeir sætt ómálefnalegri gagnrýni. Umræður í þingsal hafa meira að segja oftsinnis borið þess merki að verulega skorti á skilning á því hvers konar kjölfesta sjóðirnir eru í samfélaginu. Það er í því fengur í því fyrir sjálfstæðismenn að fá Guðrúnu í forystusveit flokksins. Hún mun breikka ásýnd hans og ímynd.

Sjálfstæðismenn hlutu fjórðung atkvæða í Suðurkjördæmi fyrir fjórum árum og þrjá menn kjörna en gera sér að líkindum vonir um að fá fleiri nú. Björgvin Jóhannesson hafnaði í fjórða sæti í prófkjörinu. Hann er úr Mýrdal en býr á Selfossi, starfar við ferðaþjónustu og hefur komið að rekstri fyrirtækja í þeirri atvinnugrein. Í kynningu sinni fyrir prófkjörið kvaðst hann vilja „gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum sterkari rödd og meiri slagkraft“ og „bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja“. Allt eru þetta gamalkunnir frasar úr stjórnmálaumræðu en Björgvin hefur það þó með sér að hafa reynslu af atvinnurekstri. Í fimmta sæti er ung kona, Ingveldur Anna Sigurðardóttir, háskólanemi og fyrrverandi formaður Vöku í Háskólanum.

Af framboðsmálum annarra flokka

Framsóknarflokkur hlaut næstflest atkvæði í Suðurkjördæmi í seinustu kosningum, eða 18,6%. Þeirra listi liggur ekki fyrir. Framboðsfrestur rennur út í vikunni og valið fer fram 19. júní. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og samgönguráðherra, verður án nokkurs vafa í efsta sæti áfram en fyrir fjórum árum skipaði Silja Dögg Gunnarsdóttir annað sætið og hlaut hún sömuleiðis kosningu.

Miðflokksmenn í kjördæminu hafa enn lengri tíma til að hugsa sig um en framboðsfrestur hjá þeim er til 10. júní en röðun á lista verður í höndum uppstillingarnefndar. Í kosningunum 2017 hlutu þeir 14,3% atkvæða í Suðurkjördæmi og einn mann kjörinn, Birgi Þórarinsson. Þeim bættist síðan liðsauki þegar Karl Gauti Hjaltason söðlaði um en hann var kjörinn af lista flokks Ingu Sæland.

Vinstri græn fengu einn mann í Suðurkjördæmi fyrir fjórum árum, Ara Trausta Guðmundsson, sem nú lætur af þingmennsku. Sem kunnugt er hugðist Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður flokksins í Reykjavík, reyna fyrir sér í Suðurkjördæmi en galt afhroð í forvalinu. Í þremur efstu sætum listans eru konur; í því fyrsta Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerði, önnur er Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi og þriðja Sigrún Birna Steinarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna. Hólmfríður er ekki þekkt af öðru en fylgispekt við forsætisráðherra og sagði í ræðu á fundi flokksins nýverið að halda þyrfti á lofti „góðum verkum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið“.

Samfylkingin hlaut einn mann kjörinn í Suðurkjördæmi í kosningunum 2017, Oddnýju G. Harðardóttur, og Píratar einn uppbótarþingmann, Smára McCarthy. Oddný verður áfram oddviti síns flokks í kjördæminu en nýr oddviti Pírata í kjördæminu heitir Álfheiður Eymundsdóttir. Hún er stjórnmálafræðingur og hefur verið varaþingmaður flokksins.

Horft til Svíþjóðar

Viðreisn hlaut engan mann kjörinn í Suðurkjördæmi fyrir fjórum árum en hefur nú teflt fram öflugum lista. Þar er í fyrsta sæti Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. Guðbrandur er þaulreyndum úr verkalýðsbaráttunni, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og Landssambands íslenskra verslunarmanna. Á seinni árum hafa ekki margir verkalýðsleiðtogar gefið sig að stjórnmálum. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkur voru stundum á árum áður kallaðir „verkalýðsflokkar“ en arftakar þeirra hafa nú að mestu misst tengslin við verkalýðshreyfinguna og í starfi þeirra helst borið á háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum.

Í pistli hér nýverið gerði ég þrautagöngu Samfylkingarinnar að umtalsefni — flokks sem hefði í reynd sagt skilið við systurflokka sína í nágrannalöndunum og kosið fremur að verða róttækur vinstriflokkur með þeim afleiðingum að fylgið hefði hrunið — ekki hvað síst í þann skamma tíma sem Oddný G. Harðardóttir var við stjórnvölinn. En þó svo að hér sé ekki starfandi breiður sósíaldemókrataflokkur eru jafnaðarmenn víða. Óhætt er að fullyrða að Guðbrandur sé einn þeirra. Í grein á Vísi fyrir fáeinum dögum skrifar hann:

„Ég horfi gjarnan til Svíþjóðar þegar ég leita mér fyrirmynda. Svíþjóð er ríki sem lengi hefur verið stjórnað af jafnaðarmönnum og þeirra stefna hefur verið mér leiðarljós á þeirri leið sem ég hef reynt að feta á mínum pólitíska slóða.“

Hann bendir meðal annars á að sósíaldemókratar Svíþjóðar séu opnir fyrir ólíku rekstrarformi í heilbrigðismálum:

„Fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu vefst ekkert fyrir jafnaðarmönnum fyrirheitna landsins og þar starfa m.a. einkareknar stofur sem taka gjarnan við sjúklingum frá Íslandi. Jafnaðarmenn á Íslandi, sem kenna sig við Samfylkinguna, virðast einhverra hluta vegna sjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu allt til forráttu og telja að opinberir aðilar séu þeir einu sem veitt geta almennilega þjónustu á þessu sviði.“

Og hann bætir við:

„Á Íslandi eru 72 heilsugæslur á vegum hins opinbera en einungis fjórar sjálfstæðar heilsugæslustöðvar, 5% af öllum heilsugæslum. Í Svíþjóð eru einkareknar heilsugæslustöðvar 496 sem er um 43% af heildarfjöldanum, sé miðað við tölur frá 2018.“

Á hinu pólitíska litrófi er líklega rétt að flokka Guðbrand sem „nútímalegan jafnaðarmann“ og ég hygg að hófsöm viðhorf af þessu tagi eigi mikið frekar fylgi að fagna heldur en krafa forystumanna Samfylkingar og Vinstri grænna um sífellt meiri ríkisumsvif og hærri skatta. En svo er að sjá hvort kjósendur í kjördæminu hallist að framboðslistum skipuðu hófsömu miðjufólki eða vilji róttækari stefnu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Benedikt og Þorgerður slíðra sverðin – „Öflugur liðsmaður“

Benedikt og Þorgerður slíðra sverðin – „Öflugur liðsmaður“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Furðar sig á því að Áslaug sé ekki búin að segja af sér – „Einstakir ráðherrar geta ekki staðið fyrir stjórnarandstöðu í eigin ríkisstjórn“

Furðar sig á því að Áslaug sé ekki búin að segja af sér – „Einstakir ráðherrar geta ekki staðið fyrir stjórnarandstöðu í eigin ríkisstjórn“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þetta kemur Gísla Marteini sífellt á óvart – Vill að Íslendingar verði róttækari

Þetta kemur Gísla Marteini sífellt á óvart – Vill að Íslendingar verði róttækari
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bergþór hjólar í ráðherra landsins fyrir að dreifa peningum – Ásmundur og Sigurður Ingi fá sérstaklega að heyra það

Bergþór hjólar í ráðherra landsins fyrir að dreifa peningum – Ásmundur og Sigurður Ingi fá sérstaklega að heyra það
Eyjan
Fyrir 1 viku

Óli Björn gerir grín að sósíalisma – „Kast­ró er ekki bú­inn að vera fimm mín­út­ur í hel­víti og við erum þegar byrjaðir að fá flótta­menn“

Óli Björn gerir grín að sósíalisma – „Kast­ró er ekki bú­inn að vera fimm mín­út­ur í hel­víti og við erum þegar byrjaðir að fá flótta­menn“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Helga Vala stillir Áslaugu upp á móti Svandísi Svavars – „Hversu lengi ætlar VG að þegja?“

Helga Vala stillir Áslaugu upp á móti Svandísi Svavars – „Hversu lengi ætlar VG að þegja?“