fbpx
Fimmtudagur 21.október 2021
EyjanFastir pennar

Ríkiseinkasalan og litli atvinnurekandinn

Eyjan
Sunnudaginn 11. apríl 2021 17:00

Deilunni um verslun með áfengi er hvergi nærri lokið. MYND/ERNIR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil gerjun er í rekstri brugghúsa sem ekki fá að selja vörur sínar beint til neytenda. Frumvarp dómsmálaráðherra gerir ráð fyrir að hægt verði að kaupa bjórinn á framleiðslustað. Áfengisverslun ríkisins andvíg frumvarpinu.

 

Nú sem fyrr er deilt um verslun með áfengi. Tilraunir til að aflétta einokun ríkisins á smásölu áfengis hafa engan árangur borið en þess í stað hafa undanfarið komið fram hugmyndir um að taka minni skref í átt til frjálsari viðskiptahátta á þessu sviði. Nýjasta tillagan í því efni er frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem felur í sér að litlum brugghúsum verði heimilt að selja bjór til neytenda beint af framleiðslustað. Samkvæmt frumvarpinu er það „lítið brugghús“ þar sem framleiddir eru innan við 500 þúsund lítrar af bjór á ári.

Litlu brugghúsin

Talsverð gerjun hefur verið í bruggun áfengs öls undanfarin ár, sér í lagi á landsbyggðinni. Tugir brugghúsa eru starfandi sem veitt hafa fjölda fólks atvinnu en mikil nýsköpun einkennir þessa vaxandi atvinnugrein. Oft er talað um handverksbrugghús í þessu sambandi en á hinum Norðurlöndunum er þeim almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu.

Handverksbrugghúsin tengjast mörg hver ferðaþjónustu og bjóða gjarnan upp á sýnisferðir um framleiðsluna og gestir fá þá vitaskuld að bragða á hinum dýra miði – en þá einungis á grundvelli vínveitingaleyfis. Gestir fá ekki að kaupa áfengi í neytendaumbúðum frá brugghúsinu til að taka með sér heim því íslenska ríkið er með einkaleyfi til smásölu á vörunni.

Við bætist að litlu brugghúsin eiga stundum erfitt með að koma vörum sínum á framfæri í Áfengisverslun ríkisins og sumar tegundir eru aðeins framleiddar tímabundið og í litlu magni. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að hér halli á litla framleiðendur í samkeppninni við risana á markaðnum.

Ríkisverslunin mótmælir

Ekki skorti forstöðumenn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins stóru orðin um litlu brugghúsin í áliti sínu á frumvarpinu en þeir segja að yrði frumvarpið að lögum brystu forsendur rekstrar Ríkisverslunarinnar. („Gott ef satt væri“ myndu andstæðingar hennar segja.) En í álitinu segir nánar tiltekið að ef tuttugu af þessum litlu brugghúsum „myndu á einu ári selja allt að 500.000 lítra eigin framleiðslu í smásölu á grundvelli undanþáguheimildarinnar næmi heildarsala þeirra allt að 10.000.000 áfengislítrum, sem samsvarar hátt í helmingi allrar bjórsölu ÁTVR síðastliðið ár. Því getur varla talist um þrönga undanþágu frá ríkiseinkasölunni að ræða.“

Í samtali við Mbl.is á dögunum sagði dómsmálaráðherra að þessi fullyrðing stæðist ekki þar sem umræddur bjór væri aðeins 2,3% af heildarsölu Ríkisverslunarinnar. Ráðherrann sagði svo: „Það er auðvitað ótrúlegt hvernig opinberir aðilar leggjast gegn öllum samkeppnisrekstri eins og þessi umsögn leiðir af sér. Meira að segja örlítil breyting fyrir nokkur brugghús er talið ógna sterkri stöðu ríkisverslunarinnar.“

Mótsagnir

Haukur Örn Birgisson lögmaður henti gaman að þessu í pistli í Fréttablaðinu á dögunum og spurði hver hefði „ekki samúð með því sjónarmiði einokunarrisans að aukið verslunarfrelsi muni hugsanlega leiða til þess að viðskiptavinirnir ákveða frekar að versla annars staðar? Þetta er beinlínis ómannúðlegt gagnvart ÁTVR, ef maður hugsar út í það. Engan skal þó undra þótt ríkisstofnun, sem hefur það lögfesta markmið að takmarka aðgengi að áfengi á sama tíma og hún hreykir sér af miklu vöruúrvali í verslunum sínum, skuli vera rugluð í ríminu.“

Tímaskekkja?

Á hafta- og skömmtunarárum síðustu aldar var ýmsum ríkiseinkasölum komið á fót, svo sem Bifreiðaeinkasölu ríkisins, Grænmetisverslun ríkisins, Raftækjaeinkasölu ríkisins og Lyfjaverslun ríkisins. Með frjálsari viðskiptaháttum hafa nánast allar þessar stofnanir verið aflagðar ef undan eru skildar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli.

Einokunarfyrirkomulag ríkisins með löglegar neysluvörur hamlar heilbrigðri samkeppni og felur í sér mikla skerðingu á atvinnufrelsi fólks. Þetta er almennt viðurkennt enda að mestu horfið frá ríkiseinkasölu á vörum. Talsmenn núverandi fyrirkomulags segja aftur á móti gjarnan að ekki sé rétt að líta á áfengi sem hverja aðra neysluvöru. Á hinn bóginn má þá spyrja hvers vegna íslenska ríkið taki sér þá ekki einkaleyfi til smásölu lyfja sömuleiðis. Þar er á ferðinni vara sem sannarlega er mjög sérstaks eðlis og vandmeðfarin. Raunar svo vandmeðfarin að til að mega versla með hana þarf að hafa lokið löngu háskólanámi auk sérstakra starfsréttinda.

Áfram verður deilt

Röksemdafærslan er raunar oft æði sérstæð þegar kemur að stuðningi við Ríkisverslunina, líkt og Haukur Örn benti á. Starfsmenn verslunarfyrirtækja á almennum markaði eru auðvitað ekki verr til þess fallnir að gæta að lögum um áfengiskaupaaldur heldur en ríkisstarfsmenn. Og ef tilgangur Áfengisverslunar ríkisins er að tryggja vöruúrval mætti allt eins halda því fram að ríkisvaldið ætti að starfrækja matvöruverslanir á stöðum þar sem rekstrargrundvöllur er vart til staðar sökum fámennis. Raunar mætti þvert á móti ætla að afnám einkaleyfis ríkisins á sölu áfengis yrði til að efla verslun í dreifðum byggðum og atvinnustarfsemi þar – með sama hætti og sala bjórs beint úr litlu brugghúsunum.

Ölið beint frá býli yrði hænuskref í þá átt að færa fyrirkomulag áfengissölumála hér á landi nær því sem tíðkast víðast hvar annars staðar í Evrópu. – En eftir stendur deilan um stóra málið: Einokun ríkisins á smásölu áfengis sem mun án efa verða tekist á um lengi enn. Hér skal því spáð að síðasta frumvarpið um afnám einkaleyfisins sé ekki enn komið fram

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
28.07.2021

Björn Jón skrifar: Reykjavík vantar samgöngumiðstöð

Björn Jón skrifar: Reykjavík vantar samgöngumiðstöð
Fastir pennarFókus
11.07.2021

Ég held að pabbi sé með Alzheimer á byrjunarstigi og mamma er í afneitun – Hvernig get ég stungið á kýlið?

Ég held að pabbi sé með Alzheimer á byrjunarstigi og mamma er í afneitun – Hvernig get ég stungið á kýlið?
EyjanFastir pennar
24.05.2021

Flokkur sumra stétta

Flokkur sumra stétta
433Fastir pennarSport
21.05.2021

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti

Væri ótrúlega heimskulegt að reka Óskar úr starfi á þessum tímapunkti
EyjanFastir pennar
02.05.2021

Vondir embættismenn

Vondir embættismenn
Fastir pennarFókus
02.05.2021

Af hverju „elskum“ við morð?

Af hverju „elskum“ við morð?