fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ráðherrar eru of margir

Eyjan
Miðvikudaginn 1. desember 2021 16:45

Mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk samþykktar umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráðinu þegar samgöngu- og dómsmálaráðuneyti urðu að innanríkisráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytum var steypt saman í eitt velferðarráðuneyti og til varð atvinnuvegaráðuneyti við sameiningu ráðuneyta sjávarútvegs og landbúnaðar.

Svo fór að innanríkis- og velferðarráðuneytum var skipt upp á nýjan leik og nú er aftur boðuð mikil uppstokkun Stjórnarráðsins með öðru ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. forsætisráðherra, benti á það á fésbókarsíðu sinni á dögunum að uppstokkun og fjölgun ráðuneyta væri í hrópandi andstöðu við hina frægu rannsóknarskýrslu Alþingis, en meðal tillagna rannsóknarnefndarinnar var að fækka ráðuneytum og stækka þar sem þau væru sum hver of lítil og vanmáttug til að takast á við verkefni sín. Jóhanna minnir á að ríkisstjórn hennar stækkaði og fækkaði ráðuneytum og ráðherrum niður í átta til samræmis við tillögur rannsóknarnefndarinnar.

Óskýr skipting

Eftirspurnin eftir ráðherrastólum er nú slík að stól er bætt við borðið með ærnum tilkostnaði og öðrum skipt á milli tveggja þannig að fyrri dómsmálaráðherra fær að sitja í starfþjálfun næstu átján mánuði (að því gefnu að stjórnin tóri svo lengi). Þá kemur sitthvað spánskt fyrir sjónir þegar rýnt er í forsetaúrskurð um skiptingu verkefna milli ráðuneyta. Málefni fjölmiðla hafa þannig svo dæmi sé tekið verið færð undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og þar á meðal Ríkisútvarpið. Kannski til merkis um að ekki sé lengur litið á það sem menningarstofnun, alltént mun stofnunin ekki lengur heyra undir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, nýjan ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Þá skýtur skökku við að málefni grunn- og framhaldsskóla flytjast til mennta- og barnamálaráðherra á meðan háskólarnir verða á sviði vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hætt er við alls kyns árekstrum og flækjum á næstu misserum og árum vegna þessa og þá er einnig viðbúið að það dragi úr skilvirkni þegar of ólíkum málaflokkum er steypt saman. Stjórnsýslan verði lakari. Einnig kann óskýr skipting verkefna milli ráðuneyta að auðvelda ráðherrum að firra sig ábyrgð.

Slegið í og úr

Stjórnarsáttmálinn sjálfur er útþynntur, slegið í og úr og ekki við öðru að búast þegar jafnólíkir flokkar eiga hlut að máli. Dæmi um það má nefna umfjöllun um varnarmál þar sem ekki er minnst á Atlantshafsbandalagið — enda flokkur forsætisráðherrans enn í orði kveðnu andvígur veru Íslands í bandalaginu sem þó er hornsteinn öryggis- og varnarstefnu ríkisins. Katrín hefur samt sem áður af ljósmyndum og myndskeiðum að dæma kunnað dável við sig í félagsskap forystumanna NATO.

En hvað sem líður hinni pólitísku flatneskju er stefnan skýr þegar kemur að landbúnaðarmálum. Þar segir að stefnt skuli að stóraukinni matvælaframleiðslu innanlands „til að treysta fæðuöryggi“. Ekki stendur til að lækka ríkisstyrki til landbúnaðar heldur mælt fyrir um að niðurgreiðslur til atvinnugreinarinnar verði „samhæfðar“ þar sem markmiðið sé að „styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun“. Allir réttu frasarnir á sínum stað.

Fjórir borgarstjórar í Reykjavík?

En svo vikið sé aftur að fjölgun ráðherra þá er rétt að velta því upp hvort yfir höfuð sé þörf á tólf ráðherrum í jafnfámennu þjóðfélagi en landsmenn eru ríflega 30 þúsund á hvern ráðherra. Í Reykjavík ættu samkvæmt þessu að vera fjórir borgarstjórar. Einhver kynni þá að benda á að sé þríliðan reiknuð á hinn veginn ættu ráðherrar aðeins að vera þrír. Sú tala er kannski full lág. En ef við lítum til annarra EFTA-ríkja þá eru ráðherrar í nýrri ríkisstjórn Jónasar Gahr Støre átján talsins. Samanborið við mannfjölda ættum við aðeins að hafa einn ráðherra. Í ríkisstjórn Sviss sitja sjö ráðherrar og sá fjöldi hefur ekkert breyst í áratugi. Svisslendingar eru umtalsvert fleiri en Norðmenn, en þar búa 8,6 milljónir manna.

Vitaskuld er þessi samanburður ekki fyllilega sanngjarn en hér má fara einhvern milliveg og sú skipan sem komið var á í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu með átta ráðuneytum og ráðherrum er í áttina.

Fækkun ráðherra og ráðuneyta myndi horfa til sparnaðar og skilvirkni og hún yrði líka táknræn — æðstu handhafar ríkisvalds gengju fram fyrir skjöldu með ráðdeild. Færri ráðherrastólar gerðu embættin enn eftirsóknarverðari og betri trygging fengist fyrir því að hinir hæfustu stjórnmálamenn settust við ríkisstjórnarborðið.

Fækkun ráðherra og ráðuneyta hefði orðið fyrirtaks upptaktur að hagræðingu í stjórnsýslu ríkisins. Við blasir að fjölgun ráðherra, mikill tilflutningur verkefna og óskýr mörk milli málaflokka mun torvelda vinnu við sameiningu stofnana og sparnað.

En ráðdeild er einfaldlega ekki keppikefli nýrrar stjórnar og kerfið blæs út sem aldrei fyrr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund