fbpx
Fimmtudagur 19.maí 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að vera dómari í eigin sök

Ritstjórn DV
Mánudaginn 22. nóvember 2021 11:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tólfta tillagan er sú, að 46. gr. verði breytt svo, að hæstarétti í stað Alþingis verði falið að skera úr um kjörgengi þingmanna og lögmæti kosninga. Veitir slíkt aukna tryggingu fyrir réttdæmi í þessum efnum.

Þannig komst Bjarni Benediktsson, utanríkis- og dómsmálaráðherra, að orði á fundi Landsmálafélagsins Varðar 21. janúar 1953 þegar rætt var um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins en Bjarni var þá um skeið verið formaður stjórnarskrárnefndar. Bjarni var ekki einasta einn fremsti stjórnmálaforingi Íslendinga um miðbik síðustu aldar heldur var hann líka á sinni tíð helsti sérfræðingur þjóðarinnar í stjórnlögum. 

Mér varð hugsað til þessarar tillögu í ljósi vandræðagangsins sem uppi hefur verið í kjölfar kosningaklúðursins í Borgarnesi. En það er fyrst nú á þriðjudaginn kemur sem kjörbréfanefnd Alþingis tekur við gögnum svonefndrar undirbúningskjörbréfanefndar sem verið hefur að störfum í bráðum tvo mánuði við að rannsaka talningu og meðferð atkvæða í Borgarnesi. Og ef til vill er vandræðagangurinn rétt að byrja. Guðmundur Gunnarsson, sem verið hafði oddviti á lista Viðreisnar í norðausturkjördæmi, kvaðst í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær ekki sætta sig við að síðari talning atkvæða yrði látin gilda. Færi svo hefði hann engra annarra kosta völ en vísa málinu til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Í frétt Ríkisúvarpsins um málið var rætt við Guðmund sem sagði fyrirkomulagið haldið verulegum annmörkum:

 „Þeir eru að taka ákvarðanir og úrskurða um sjálfa sig. Þetta er löngu þekktur galli sem við höfum vitað af lengi en höfum ekki gert neitt í til að laga. Það var vitað að á einhverjum tímapunkti myndi þessi tímasprengja springa í andlitið á okkur.

Margan hefur einmitt undrað að Alþingi sé þarna dómari í eigin sök — að það úrskurði sjálft um lögmæti eigin kosningar. Fyrirkomulagið í þessum efnum á sér þó djúpar rætur en fram eftir allri nítjándu öld (og sums staðar fram á þá tuttugustu) var framkvæmdarvald í Evrópu víðast hvar í höndum konungborinna þjóðhöfðingja. Þingræði komst ekki á í Danmörku fyrr en 1901 og fram að þeim tíma var eðlilegt að þingin gætu varið sig gegn ofríki framkvæmdarvaldsins, meðal annars með því að úrskurðarvald um gildi kosninga (og kjörgengi þingmanna) væri ekki í höndum annarra en þingmanna sjálfra.

Frá Borgarnesi til Strassborgar

Ég nefndi hér að framan ummæli Bjarna Benediktssonar frá 1953 um að úrskurðarvaldið í þessum efnum væri betur komið hjá Hæstarétti líkt og gildir um forsetakjör. Ólafur Jóhannesson, prófessor í stjórnskipunarrétti og síðar forsætisráðherra, tók undir sjónarmið Bjarna í Stjórnskipun Íslands árið 1960 sem var undirstöðurit um íslenska stjórnskipun næstu áratugi. Við ríkjandi fyrirkomulag væri hætta á að pólitísk viðhorf fengju meiru ráðið en réttar skýringar á lögum. Og enn annar prófessor í stjórnskipunarrétti (og alþingismaður um hríð), Gunnar G. Schram, beitti sama orðalagi og Bjarni í skrifum sínum um 46. gr. stjórnarskrár árið 1977 og taldi það hafa í för með sér aukna tryggingu fyrir „réttdæmi“ að Hæstarétti yrði falið úrskurðarvaldið.

Guðmundur Gunnarsson sem áður var getið kveðst munu leita réttar síns fyrir Mannréttindadómstólnum verði síðari talningin látin gilda. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, sendir Guðmundi tóninn í pistli á bloggsíðu sinni nú í morgun og spyr hvort Guðmundur vilji „láta á það reyna þar hvort alþingi sé í raun fullvalda í málum sem stjórnarskráin felur því að leiða til lykta?“ og bætir við:

Hvað hefur Guðmundur Gunnarsson fyrir sér þegar hann fullyrðir að „dómstólar erlendis“ muni „ekki fara um okkur mjúkum höndum“? Á hverju reisir hann þessa skoðun?

Flest bendir til að göslast sé áfram í umræðum um kæru kosningaúrslitanna til MDE [Mannréttindadómstóls Evrópu] af sama hugsunarleysi og glannaskap og þegar látið var eins og þingmenn væru vanhæfir til að sinna þeirri skyldu sem á þeim hvílir við afgreiðslu kjörbréfa. Hvernig væri að staldra við og hugsa málið?

En á fésbókarsíðu sinni í gær skrifaði Björn og vísar þar einnig til orða Guðmundar:

Áður en alþingismenn taka ákvörðun að sannfæringu sinni er þeim hótað af manni sem bauð sig fram en fékk ekki nógu mörg atkvæði til að ná kjöri. Verður þessi ákvörðun alþingis yfirleitt borin undir dómara? Varla er það MDE að ákveða það eða fallkandídatsins?

Hvað sem köpuryrðum Björns í garð Guðmundar líður þá er fróðlegt í þessu sambandi að líta til dóms sem féll í Strassborg í júlí í fyrra í máli Germain Mugemangango gegn Belgíu. Tildrög málsins voru þau að munað hafði 14 atkvæðum að umræddur Mugemangango næði kjöri á þing Vallóníu (fr. Parlement de Wallonie) og lagði hann til við nefnd sem hafði þessi mál með höndum að fram færi endurtalning. Nýkjörið þing Vallóníu hafnaði því að láta telja atkvæðin á nýjan leik og lýsti kosninguna gilda. Til að gera langa sögu stutta taldi Mannréttindadómstóllinn að skort hefði upp á óhlutdrægni þess aðila sem færi með úrskurðarvaldið og konungsríkið Belgía því gerst brotlegt við 3. gr. samningsviðauka 1 við mannréttindasáttmála Evrópu en þar segir að ríkin skuldbindi sig til að halda frjálsar kosningar með hæfilegu millibili með leynilegri atkvæðagreiðslu og þá þarf kosningin að fara fram við aðstæður sem tryggja að í ljós komi álit almennings með frjálsum hætti.

Danir skiluðu athugasemdum í umræddu máli og bentu á að þetta fyrirkomulag væri til þess fallið að verja sjálfstæði þingsins og í fullu samræmi við lýðræðishefðir. Athyglisvert er að umrætt ákvæði 46. gr. stjórnarskrár okkar á rætur að rekja til samsvarandi ákvæðis dönsku stjórnarskrárinnar frá 1866 sem aftur á fyrirmynd í grundvallarlögunum sem sett voru í kjölfar falls einveldis 1849 en ákvæðið þar var sniðið eftir samsvarandi grein í belgísku stjórnarskránni frá 1831.

Guðmundur Gunnarsson lét þess einnig getið í samtalinu við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær að margir væru þeirrar skoðunar að málsmeðferðin öll græfi undan trausti almennings á kosningum. Sitthvað bendir til þess að þetta séu réttmætar áhyggjur.

Alþingi ræður ekki við stjórnarskrármálin

Rúmu ári áður en Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti ræddi hann stjórnarskrármálin á fundi Stjórnarskrárfélagsins og minnti meðal annars á að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið málamiðlun ráðandi afla þess tíma:

Þetta var líka bráðabirgðastjórnarskrá, auðvitað ekki í formlegum skilningi, en öllum öðrum. Frá upphafi var ætlunin að endurskoða hana í heild sinni. Mér finnst að þeir sem efast um þetta neiti að horfast í augu við skýrustu staðreyndir.

Þó þarf vart að deila um það að stjórnarskrá lýðveldisins hefur í meginatriðum gagnast vel. Aftur á móti er umhugsunarvert að umræða um stjórnarskrármálin hafi ef til vill verið dýpri og þroskaðri á árdögum lýðveldisins en nú er. Og líkt og sást á síðasta kjörtímabili hefur Alþingi verið ófært um að komast að niðurstöðu um úrbætur á stjórnarskrá lýðveldisins þrátt fyrir ýmsa augljósa annmarka. Annmarka sem okkar fremstu menn höfðu meira að segja bent á fyrir tæpum sjötíu árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum
Framtíð menntunar

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Aðsendar greinarFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Alls ekki tala um Bjarna

Alls ekki tala um Bjarna
Aðsendar greinarFastir pennar
13.04.2022

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins

Öfgar skrifa: Leiðbeiningar að þolendavænni orðræðu fjórða valdsins
Aðsendar greinarFastir pennar
11.04.2022

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur

Öfgar skrifa: Afleiðingar ofbeldis sem fjórða valdið beitir þolendur
EyjanFastir pennar
22.03.2022

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík

Heimir skrifar: Einfalt (og flókið) verkefni Hildar í Reykjavík
EyjanFastir pennar
20.03.2022

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga

Björn Jón skrifar: Augljósir gallar prófkosninga
EyjanFastir pennar
19.02.2022

Heimir skrifar: Olnbogabarn íslenskra stjórnmála

Heimir skrifar: Olnbogabarn íslenskra stjórnmála
EyjanFastir pennar
14.02.2022

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu

Björn Jón skrifar: Skylda okkar að verja fullveldi Úkraínu
EyjanFastir pennar
24.01.2022

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda

Heimir skrifar: Allir vinna, nema þeir sem tapa – Raunasaga skattpínds fasteignaeiganda
EyjanFastir pennar
23.01.2022

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira