fbpx
Sunnudagur 23.júní 2024
Eyjan

Áhættusamt spil í Austur-Evrópu gæti valdið stríði

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 18. nóvember 2021 22:00

Rússneskir hermenn við æfingar á Krím. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átök á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands, deilur um gas, liðsafnaður Rússa við úkraínsku landamærin. Allt eru þetta dæmi um vaxandi spennu í Austur-Evrópu og ekki er hægt að útiloka að til stríðsátaka komi.

Rússar hafa að undanförnu gert umheiminum ljóst að þeir ráða yfir stóru vopnabúri sem geti gert andstæðingum þeirra lífið leitt. Þeir eru einnig í þeirri kjöraðstöðu að geta notað útflutning sinn á gasi sem einhverskonar vopn gegn nágrannaríkjum sem eru hliðholl Vesturlöndum og eru það aðallega Úkraína og Moldóva sem fá að kenna á þessu vopni.

Með samþykki og blessun Rússa hefur Aleksandr Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, stefnt þúsundum förufólks að landamærunum við Pólland. Með þessu reynir hann að raska jafnvæginu í ESB en væntanlega hefur það komið honum og Rússum á óvart hversu fastir Pólverjar hafa verið fyrir og staðráðnir í að koma í veg fyrir fólkið komist til Póllands. En deilurnar á landamærum ríkjanna hafa veitt Rússum tækifæri til að auka hernaðarbrölt sitt. Þeir hafa til dæmis sent sprengjuflugvélar, sem geta borið kjarnorkuvopn, yfir Hvíta-Rússland til að sýna stuðning sinn við nágranna sína og einnig efndu þeir til æfinga fallhlífahermanna í Hvíta-Rússlandi. Á sama tíma hafa þeir flutt mikinn mannafla og hergögn að úkraínsku landamærunum en sjálfstæð Úkraína er þyrnir í augum Vladímír Pútíns forseta.

Óhugnanleg vinátta

Nýlega ræddi Lukasjenko við rússneskan blaðamann og óhætt er að segja að hann hafi gert mikið úr vináttu sinni við þrjá menn, vináttu sem vekur óhug margra. „Ég þekkti Hafez al-Assad, ég þekkti Saddam Hussein, ég þekkti Muammar Gaddafi. Samband okkar var náið og gott. Við hittumst og ég get sagt að við vorum framúrskarandi hugsuðir,“ sagði Lukasjenko sem hefur ráðið ríkjum í Hvíta-Rússlandi í 27 ár.

Rússum fellur vel að Lukasjenko standi í deilum við Pólverja og ESB því það hefur í för með sér að hann er meðfærilegri en áður og það hefur ekki farið fram hjá Rússum að nú hefur tóninn breyst hjá Hvítrússum varðandi Krím sem Rússar hertóku 2014. Hvítrússar hafa aldrei viðurkennt innlimun Krím í Rússland en nýlega sagði Vladimir Makej, utanríkisráðherra, að Hvítrússar hafi þann skilning að Krím sé nú í raun rússneskt yfirráðasvæði.

En ákveðin áhætta fylgir einnig Lukasjenko því hótanir hans um að skrúfa fyrir gasleiðslur Rússa til ESB, sem liggja um Hvíta-Rússland, falla ekki í kramið í Kreml. Að auki hefur hann margoft notað orðið „stríð“ um deilurnar við Pólverja og ESB og í Kreml hugnast ekki öllum að efna til átaka við NATO.

Lævís utanríkisstefna

Á síðustu 12 til 15 árum hafa Rússar rekið lævísa utanríkisstefnu þar sem þeir hafa lagt áherslu á að spilla fyrir Vesturlöndum án þess þó að eyðileggja hið alþjóðlega kerfi. Þeir hafa síðan nýtt sér óvissu á alþjóðavettvangi til að beita vopnavaldi í Georgíu, Úkraínu og Sýrlandi.

Óhætt er að segja að Rússar séu hugmyndaríkir þegar kemur að aðferðum sem þeir beita gegn andstæðingum sínum. Hefðbundinn áróður, falsfréttir, tölvuárásir, njósnir, launmorð og innrásir (til dæmis Georgía og Krím). Þessar aðferðir virka best þegar andstæðingarnir eru ósamstíga og þar hafa Vesturlönd ekki brugðist Rússum.

ESB hefur hvað eftir annað skipt um skoðun varðandi Austur-Evrópu og mikil spenna hefur ríkt á milli einstakra ESB-ríkja. Ekki var reikul utanríkisstefna Donald Trump til að skemma fyrir Rússum og árangri þeirra á alþjóðavettvangi. Joe Biden hefur ekki verið mikið skýrari hvað varðar utanríkisstefnuna og því hafa Rússar getað haldið uppteknum hætti.

En ætlar Pútín að láta til skara skríða og ráðast á Úkraínu? Margir hafa áhyggjur af að svo sé vegna mikils liðsafnaðar rússneska hersins við úkraínsku landamærin. En að ráðast á Úkraínu er áhættusamt, bæði hernaðarlega og pólitískt. Úkraínski herinn er mun öflugri en 2014 og stríð myndi þýða að mörg þúsund manns deyja og stórir hópar munu fara á vergang.

Rússar og uppreisnarmenn, sem þeir styðja, hafa barist við úkraínska herinn í austurhluta Úkraínu síðustu sjö ár og ráða þar ríkjum. En sú stöðnun og ráðleysi sem ríkir þar bendir til að ráðamenn í Kreml hafi ekki skýra stefnu um hverju þeir vilja ná fram í Úkraínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðheilsa

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðheilsa