fbpx
Sunnudagur 25.september 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Eignaupptaka án lagaheimildar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 24. október 2021 20:00

Frá Hrafnistu. Mynd: Pjetur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 4. febrúar sl. þarf ríkið ekki að greiða fyrir það sem það kaupir nema sérstök lagaheimild sé fyrir kaupunum. Skorti lagaheimild fellur tjónið á seljanda og ríkið fær vöruna eða þjónustuna ókeypis.

Einhver kann að reka upp stór augu við þessi orð en þetta var niðurstaðan í málum líknarfélaganna Grundar og Hrafnistu gegn íslenska ríkinu fyrr á þessu ári en Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu Landsréttar að íslenska ríkinu bæri ekki að greiða húsnæðiskostnað vegna hjúkrunarheimila sem starfrækt eru í húsnæði Grundar og Hrafnistu.

Ríkið greiðir aðeins lítinn hluta kostnaðar

Á hjúkrunarheimilum landsins dvelja tæplega þrjú þúsund manns sem orðnir eru lasburða af elli og sjúkdómum. Þetta fólk þarf góða umönnun, hjúkrun og læknisþjónustu allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þessi mikla notkun húsnæðisins útheimtir talsvert meiri kostnað en til dæmis skrifstofur og skólar sem ekki eru opin og mönnuð nema hluta úr degi og jafnvel ekki í notkun stóran hluta ársins.

Dómkvaddir matsmenn voru fengnir til að reikna út húsnæðiskostnað hjúkrunarheimilanna og var niðurstaða þeirra að um væri að ræða 15% af rekstrarkostnaði þeirra sem er hlutfallslega hærra en í flestum rekstri. Ríkisvaldið hefur neitað að greiða meira en þriðjung þessa kostnaðar en gefin var út reglugerð þess efnis að ríkið greiði „húsnæðisgjald“ til að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu. Ríkisvaldið hafnar aftur á móti að greiða stofnkostnað, afskriftir, kostnað við meiriháttar breytingar og endurbætur. Á sama tíma fer þriðja hver króna af veltu hjúkrunarheimilanna aftur til hins opinbera í formi skattgreiðslna.

Það er höfuðregla íslensks réttar að viðtakandi borgi fyrir þá þjónustu sem hann hagnýtir sér. Í tilfelli hjúkrunarheimilis er húsnæðið bjargfast skilyrði rekstrarins og heimilið er í notkun allan sólarhringinn árið um kring og kostnaðurinn um 15% af heildar rekstrarkostnaði eins og áður sagði. Ríkisvaldið fellst samt sem áður ekki á að greiða þennan kostnað án þess þó að útskýra það sérstaklega eða að það vísi til sérstakrar heimildar í lögum.

Þessu mætti líkja við það ef ríkisstofnun keypti nokkur hundruð ullarteppi og gæfi starfsfólki sínu í jólagjöf. Þegar seljandi teppanna krefðist greiðslu fyrir teppin myndi stofnunin svara því til að engin heimild væri fyrir kaupunum í fjárlögum eða öðrum lögum. Svarið yrði einfaldlega: Þið fáið ekki neitt. Tapið er ykkar. Ullarverksmiðjan hefur þó úrræði samkvæmt íslenskum rétti. Hún getur stefnt ríkisstofnuninni fyrir rétt, fengið dóm fyrir skuldinni og á grundvelli hans leitað til sýslumanns og farið fram á aðför til greiðslu skuldarinnar. Lagaheimild í fjárlögum er að vísu nauðsynleg en hún er ullarverksmiðjunni óviðkomandi. Fjárlagaheimildin er málefni ríkissofnunarinnar og viðkomandi ráðuneytis.

Ríkisvaldið hefur líka haldið því fram að hjúkrunarheimilin fari fram á greiðslur umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir. Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun því húsaleiga til heimilanna er á fjárlögum hvers árs, sem er í heild um 30 til 40 milljarðar króna til allra hjúkrunarheimilanna. Þeirri upphæð er ætlað að mæta öllum nauðsynlegum kostnaði hjúkrunarheimilanna og þá er ekkert undanskilið, hvort sem það eru lyf, matur, laun eða húsaleiga.

Í reynd eignaupptaka ríkisins

Þær húseignir sem deilt var um í málinu eru þinglýstar eignir Grundar og Hrafnistu og njóta sem slíkar verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár. Eignarrétturinn er friðhelgur og engan má skylda til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji. Til þess þarf lagafyrirmæli frá Alþingi og fullt verð komi fyrir. Í tilfelli hjúkrunarheimilanna hefur heilbrigðisráðuneytið tekið tiltekna þætti eignarréttarins undan samningsfrelsi eigenda með valdboði og þannig skert eignarrétt hjúkrunarheimilanna. Það er nefnilega ekki eingöngu svo að eignarrétturinn sé varinn í heild gegn eignarnámi heldur einnig einstaka þættir hans svo sem notkunarréttur, tekjuréttur, veðhæfi, andlag fullnustu skulda, lánshæfi og fleira. Með því að svifta heimilunum tekjum af eignum sínum eru þær gerðar verðlausar, veðhæfi þeirra rýrt og útilokað að þær geti staðið til tryggingar lánum. Um er að ræða skerðingu eignarréttar með reglugerð en til að skerðing eignarréttar teljist lögleg þarf lagaheimild frá Alþingi og að almannahagsmunir krefjist þess og fullar bætur komi fyrir. Þau skilyrði eru ekki uppfyllt í þessu máli.

Ríkið á allskostar við heimilin í þessu máli, það samdi hluta samningsins einhliða og sat þannig beggja vegna samningaborðsins og takmarkaði samningsfrelsi viðsemjana síns. Ójöfnuður viðsemjenda er algjör, heimilin eru háð viðsemjana sínum um fé sem ráðuneytið fær ókeypis frá skattgreiðendum en hjúkrunarheimilin verða aftur á móti að vinna fyrir sínum tekjum.

Forsvarsmenn Grundar og Hrafnistu eru þrumu lostnir yfir dómi Hæstaréttar og segja að svo virðist sem dómararnir hafi sterka löngun til að taka afstöðu með ríkisvaldinu í valdbeitingu þess burt séð frá skýrum ákvæðum stjórnarskrár. Einn þeirra orðaði það svo í samtali við mig að það væri „sérstakt að lifa í lýðræðislegu réttarríki þar sem dómstólarnir eiga að vernda borgarana gegn ofríki og valdníðslu ríkisins í samræmi við mannréttindaákvæði stjórnarskrár — en uppgötva skyndilega að þannig virkar það ekki“.

Óskandi væri að þetta ranglæti yrði leiðrétt en í samningaviðræðum um ríkisstjórnarsamstarf nú er tækifæri til að meta að verðleikum þjóðfélagslegt mikilvægi líknarfélaganna Grundar og Hrafnistu og að ríkið greiði að fullu fyrir þá þjónustu sem það kaupir af þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
31.07.2022

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun
EyjanFastir pennar
29.07.2022

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid
Aðsendar greinarFastir pennar
08.07.2022

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?
Fastir pennarFókus
04.07.2022

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr
EyjanFastir pennar
14.06.2022

„Þú líka Brútus“

„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
12.06.2022

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Flýtum lagningu Sundabrautar

Flýtum lagningu Sundabrautar