fbpx
Laugardagur 28.maí 2022
Eyjan

Ole segir Framsóknarflokkinn vera gamlan og steinrunninn bændaflokk sem standi fyrir einangrunarstefnu og kyrrstöðu

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 17. september 2021 07:01

Ole Anton Bieltvedt. Skjáskot/Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það styttist í þingkosningar og margir hafa skoðanir á flokkunum, frambjóðendum og stefnuskrá flokkanna. Einn þeirra er Ole Anton Bieltvedt sem skrifar grein í Fréttablaðið í dag og er Framsóknarflokkurinn aðalumfjöllunarefni greinarinnar. Segir Ole að því fari fjarri að Framsóknarflokkurinn sé frjálslyndur miðjuflokkur eins og formaður hans og fleiri fullyrði. Hann sé ekkert annað en gamall og steinrunninn bændaflokkur sem standi fyrir einangrunarstefnu og kyrrstöðu.

Ole segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og aðrir forystumenn hans reyni nú að afla flokknum fylgis með fullyrðingum um að um frjálslyndan miðjuflokk sé að ræða, hinn eina sanna miðjuflokk landsins. „Á þessum grundvelli þykist formaðurinn vera til þess kjörinn að stofna til og leiða nýja ríkisstjórn. Hann geti sameinað það, sem kallast hægri og vinstri, á frjálsræðislegum miðjugrundvelli. Hann geti haft allt og alla í huga, á báðum vængjum stjórnmálanna, séð um alla og sinnt öllum. Hljómar vel, en, það sem gildir er auðvitað ekki hljómurinn og yfirborðið, heldur það sem rétt er. Það rétta er að Framsóknarflokkurinn er enginn frjálslyndur miðjuflokkur, sem gæti sameinað og samstillt stjórnmálaöfl landsins, heldur flokkur einangrunarstefnu og kyrrstöðu,“ segir Ole.

Því næst segir hann að enginn munur sé á Framsóknarflokknum og Miðflokknum nema hvað að Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð hafi báðir viljað vera formenn Framsóknarflokksins en það hafi auðvitað ekki gengið og því hafi flokkarnir orðið tveir. Enginn málefnalegur ágreiningur sé þeirra á milli.

Því næst útskýrir Ole af hverju Framsóknarflokkurinn er ekki miðjuflokkur og segir meðal annars: „Í Norður-Evrópu er 15 frjálslyndir miðjuflokkar, sem svo vilja vera, og flestir þeirra eru það líka. 13 þeirra, um öll Norðurlönd og norðaustur Evrópu skilja, að sameinuð Evrópa er lífsnauðsyn, ef álfan á að geta staðið af sér ógnir framtíðarinnar, varið menningu sína, velferð, lifnaðarhætti og sitt mannlíf, en árið 2100 verða jarðarbúar orðnir um 11.5 milljarðar, á sama tíma og Evrópubúar verða enn ekki nema 500 milljónir manna – fjöldi Evrópubúa stendur í stað – þannig að Evrópubúar verða rétt 4% mannkyns. Sannir miðjuflokkar þessara 13 landa, sem flestir eru kenndir við „Center“, skilja þessa stöðu og styðja Evrópu og mesta mögulega sameiningu hennar, þó sem bandalag sjálfstæðra þjóðríkja, í formi Evrópubandalagsins, af öllu afli og heilshugar.“

Hann segir að þessir 13 flokkar geri sér grein fyrir hversu miklir efnahagslegir og þjóðfélagslegir kostir fylgi því að taka upp evru, beint eða óbeint. Hann segir einnig að uppbygging atvinnulífsins og hvatning til nýsköpunar og framtaks byggist á því að hafa traustan, stöðugan og fyrirsjáanlegan efnahagsgrundvöll ásamt með ríflegu ódýru fjármagni sem kosti kannski 1-2% á ári. Hann segir að Framsóknarflokkurinn skilji ekki þessar staðreyndir.

„Forystumenn flokksins fullyrða, að þeir séu systurflokkur þessara 13 flokka, en það eru þeir ekki í reynd, því Framsókn er læst og kolföst í gömlum íhaldskreddum og -kenningum um það að víðtækt og náið samstarf við evrópskar vina- og frændþjóðir sé ekki aðeins varhugavert, heldur hættulegt, ásamt með Senterpartiet í Noregi, öðrum gömlum og steinrunnum bændaflokki. Þessir tveir flokkar, sem þykjast vera í hópi 15 frjálslyndra miðjuflokka í Norður-Evrópu, standa einir og einangraðir, í sínu steinrunna íhaldsformi úti í horni, og eiga ekki heima meðal hinna,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt