fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Birgir segir valdarán hafa átt sér stað í Samfylkingunni – „Ég get ekki og vil ekki þegja“

Eyjan
Föstudaginn 3. september 2021 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Dýrfjörð,  meðlimur í  flokksstjórn og stjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík, hefur harðlega gagnrýnt aðferðir flokksins við að stilla upp á lista fyrir komandi þingkosningar undanfarna mánuði og meðal annars sagði hann sig úr uppstillingarnefnd í byrjun árs eftir umræður nefndarinnar um þingmanninn Ágúst Ólaf Ágústsson, en ákveðið var að veita honum ekki baráttusæti á lista.

Fjallstórt fylgishrun

Birgir segir valdarán hafa átt sér stað í flokknum og nú megi skýrt sjá áhrif þess í nýlegum skoðanakönnunum þar sem Samfylkingin í Reykjavík mælist með mun lægra fylgi en hún gerði undir forystu Ágústs. Hann vekur máls á þessu í grein sem hann sendi fjölmiðlum.

„Samkvæmt skoðanakönnun Gallup um áramótin mældist Samfylkingin í Reykjavík-Suður með 22% fylgi undir forystu Ágústs Ólafs og Jóhönnu Vigdísar.  Hún mældist þá stærsti flokkurinn. Í dag mælist flokkurinn í Gallup könnun með 12% fylgi.  Það er fjallstórt fylgishrun.“

Vitgrannur dómur

Veltir Birgir fyrir sér hver ástæða fylgishrunsins sé. „Af hverju hafa þúsundir kjósenda snúið baki við Samfylkingunni?,“ spyr Birgir og kemur svo fram með sína kenningu:

 „Ég held að hreinsanirnar eftir áramótin valdi mestu um fylgistapið, og ekki bætir úr þegar forustufólk flokksins, klippir eigin vængi,  og svarar blákalt með hroka í fjölmiðlum, að brotthvarf Ágústs Ólafs, Jóhönnu Vigdísar og Einars Kárasonar af framboðslista skipti engu máli um fylgi flokksins.  Mörgum þykir þetta vitgrannur dómur um frábær störf þessara ágætu félaga okkar.“

Gerendameðvirkir flokkshestar

Birgir segist hafa verið duglegur að benda á þetta í greinaskrifum og telur hann að skrif hans hafi náð að fá þó nokkra til umhugsunar.

„Síðustu mánuði hef ég mjög oft verið sakaður um, að vilja bara skaða Samfylkinguna. Aumasta birtingarmynd þeirra ásakana eru „Gerandameðvirkir“  flokkshestar:   Við eigum ekki að gagnrýna Flokkinn. Hann þarf á samheldni að halda. Við eigum að standa saman. Segja þeir.

 Það er rétt við eigum að standa saman, – en um hvað?   Um það að virða og verja dýrmæta boðbera jafnaðarstefnunnar, – eða um það að rægja og níða flokksfólk,  sem talar móti pólitískum hreinsunum, eins og ég og mikill fjöldi annarra hafa gert?“

Það var leynivopnið

Birgir var í uppstillingarnefnd og segir að það hafi verið vélabrögð í spilinu þegar Ágústi Ólafi var bolað burt. Bæði hafi þar verið litið framhjá könnun sem sýndi gott fylgi Samfylkingarinnar í Reykjavík með Ágúst í forystu sæti og jafnvel ekki viðurkennt tilvist hennar. Birgi hafi þá orðið ljóst að til stæði að hreinsa til á listanum sama hvað.

„Mér var þá orðið ljóst það, sem allir vita og sjá í dag, að þar var að verki fólk, sem var ákveðið í því að hreinsa efstu sætin af framboðslistanum.  Það fólk sveifst einskis.“

Birgir rekur svo þá atburðarás sem átti sér stað innan uppstillinganefndar þegar mál Ágústs var tekið fyrir.

„Ráðendur í stjórn fulltrúaráðsins í Reykjavík settu það inn í verklagsreglur 14 manna uppstillingarnefndar, að ef ekki næðist einhugur um öll nöfn á framboðslistum, þá skildi uppstillingin tekin úr höndum 14 manna hópsins, og þess í stað ættu kjörnir fulltrúar í stjórn fulltrúaráðsins að ráða skipan framboðanna.  Það er 7 manna hópur. Það var leynivopnið.

 Eftir útgöngu mína var 14 manna hópnum tilkynnt, að 7 manna hópurinn hefði fjallað um málið, og  eftir atkvæðagreiðslu þar væri komin niðurstaða:

 Þrír fulltrúar studdu tillögu Ágústs Ólafs um að hann skipaði 2. sæti listans.  4 fulltrúar greiddu atkvæði gegn veru Ágústs í 2. sæti á listanum.

Þessar 7 manneskjur greiddu atkvæði í umboði allra í fulltrúaráðinu.  Það er því eðlilegt að  flokksmenn, sem skipa fulltrúaráðið  spyrji hvern einn af þessum 7, hvernig greiddir þú atkvæði í mínu umboði?“

Fjórmenningaklíkan

Veltir Birgir fyrir sér hvers vegna þessi sjö manna hópur var látinn greiða atkvæði um að Ágúst Ólafur yrði í 2. sæti en ekki allur fjórtán manna hópurinn í uppstillinganefndinni. Svarar hann því til að þar verði fjórmenningaklíkunni um kennt og vísar þar til þeirra fjögurra nefndarmanna sem greiddu gegn Ágústi Ólafi í 2. sætið.

„Svarið er skýrt: Fjórmenningaklíkan vissi, að hún hafði ekki meirihluta í 14 manna nefndinni. Þess vegna var þessi gjörningur  valdarán í skjóli stjórnar fulltrúaráðsins í Reykjavík. Það mun valda okkur í Samfylkingunni skaða til margra ára.“

Erfitt og sárt

Birgir segir að hann hafi bent á að ef hreinsað yrði til í efstu sætum Samfylkingarinnar í Reykjavík með þeim hætti sem gert var þá myndi það bitna á fylgi flokksins. Svarið sem hann fékk var:  „Hafðu ekki áhyggjur af því Birgir,  það er næstum ár í kosningarnar,  þá verða allir búnir að gleyma hvernig listinn varð til“.

Birgir segist ekki samþykkja þessa skýringu. Óréttlátur gjörningur réttlætist ekki með tímanum.

„Ég get ekki og vil ekki þegja yfir því, að sú smán, sem Samfylkingin hlýtur af þessu máli öllu er ekki hennar sök. Heldur örfárra einstaklinga, sem níddust á lýðræðinu í hennar skjóli.“

Birgir segir að mál þetta hafi sett hann í þá stöðu að hann geti ekki kosið Samfylkinguna, en á sama tíma vilji hann ekki kjósa aðra flokka. Hans eini kostur sé því að mæta ekki á kjörstað.  

„Það er erfitt og sárt að skrifa þessa grein og vita af andúð og gremju margra vina og félaga.  Ég treysti mér þó að rísa undir því. En ég treysti mér ekki að rísa undir því að hafa skömm á sjálfum mér þann tíma, sem ég á eftir að halda sönsum mínum. En þannig yrði það ef ég þegi nú. Það vita allir,  að ef enginn segir neitt þá breytist ekkert. Því  sit ég hér og skrifa þessa dapurlegu grein, og get ekki annað.“                                  

 

 

 

 

 

 

 

  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?