fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Þór Saari hefur ekki fengið vinnu í sjö ár – „Draumurinn um fasískan ríkiskapítalisma“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 9. október 2020 11:05

Þór Saari í ræðustól Alþingis árið 2012. Mynd: Gunnar V. Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þór Saari, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hefur ekki verið ráðinn í fasta launavinnu frá árinu 2013. Árum saman hefur hann verið atvinnulaus. Þór Saari segir þetta vera örlög margra sem hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi eftir að ferli þeirra lýkur. Hann skrifar pistil um þetta á Facebook-síðu sína í tilefni af nýrri bók Ólínu Þorvarðardóttur, Spegill fyrir Skugga-Baldur,“ en þar sakar Ólína Þorstein Má Baldursson, forstjóra Samherja, um að hafa unnið gegn sér er hún sóttist eftir stöðu við Háskólann á Akureyri.

„Ólína Þorvarðardóttir kemur hér fram með bók sem sannarlega tekur á mjög mikilvægu, en jafnframt viðkvæmu og erfiðu máli. Það er öllum ljóst sem vilja vita að á Íslandi viðgengst það sem kallað hefur verið „Berufsverbot“ á þýsku, en útleggst sem vinnubann á íslensku. Eins ömurlega og það hljómar þá gengur fjöldi fólks um göturnar atvinnulaust, sumt til lengri tíma, vegna þess að það hefur tekið þátt í stjórnmálum og viðrað stjórnmálaskoðanir eða aðrar skoðanir sem eru ekki þóknanlegar krónprinsum atvinnulífsins. Margt af þessu fólki er mjög hæft, með mikla og góða starfsreynslu og menntun, en einhverra hluta vegna fær það hvergi vinnu,“ segir Þór í pistli sínum.

Þór segir þroskastig íslensks atvinnulífs vera einstaklega lágt enda sé viðhorfið það að fólk með sérfræðikunnáttu verði óhæft til starfa eftir að það hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi. Hann segir Samtök atvinnulífsins vera knúin áfram af annarlegum hvötum:

„Að vísu þarf ekki að horfa lengi til framgöngu Samtaka atvinnulífsins og dóttursamtaka þeirra til að sjá að það er ekki beint hugjón um betra samfélag sem drífur þau áfram heldur miklu frekar draumurinn um fasískan ríkiskapítalisma, en þetta er samt óeðlilegt. Þetta snýst nefnilega um miklu meira en það hvernig efnahagskerfi við viljum búa við, þetta snýst um að frjálsar manneskjur geti búið í frjálsu samfélagi, geti haft skoðanafrelsi og tjáð þær skoðanir opinberlega án þess að gerð sé aðför að afkomu þess. Þetta býr líka til og viðheldur hinni alræmdu „klíkuvæðingu“ starfa þar sem stjórnmálamenn „leggja inn“ hverjir hjá öðrum upp á framtíðina að gera.“

Þór lýsir síðan þrautagöngu sinni í atvinnuleitinni eftir að hann hætti þingmennsku. Hefur hann fengið um tvö hundruð afsvör við umsóknum um störf. Staðan sé sú sama hjá mörgum fyrrverandi kollegum hans á þingi:

„Sjálfur er ég einn af þessu fólki sem fjallað er um í bók Ólínu, en ég hef ekki fengið hefðbundna launavinnu eftir að kjörtímabili mínu á Alþingi lauk 2013. Þegar starfi mínu á Alþingi lauk átti ég fundi með framkvæmdastjórum þriggja stærstu ráðningastofa landsins þar sem ég kynnti mig, lagði fram starfsferilsskrána og fór yfir starfsferilinn með þeim. Það sem var athyglisvert var að það fyrsta sem þeir sögðu og þeir svöruðu allir nánast því hinu sama: „Þór það er svo skrýtið en hér á landi er almennt erfitt fyrir fólk sem hefur verið virkt í stjórnmálum að fá vinnu er starfi þeirra í stjórnmálum lýkur. Þessu er einmitt öfugt farið í öllum okkar nágrannalöndum þar sem reynsla af þingmennsku og öllu því ati sem henni fylgir þykir einmitt sérstaklega merkileg og góð reynsla að búa að.“
Þetta voru orð að sönnu, því síðan þá hef ég fengið um tvö hundruð afsvör við umsóknum um starf. Í mörgum tilfellum hef ég augljóslega verið hæfasti umsækjandinn og tafsið, tuðið og blaðrið sem ég hef fengið að heyra, sérstaklega frá opinberum stofnunum, þegar ég hef óskað eftir rökstuðningi, hefur hreinlega verið með ólíkindum. Einna duglegust er þó Hagstofan sem hefur verið sérstaklega iðin við það undanfarin ár að auglýsa stöður og boða fólk í viðtöl, en ákveða svo að „ráða ekki í stöðuna að sinni“.
Á undanförnum árum hef ég hitt marga fyrrverandi kollega af þinginu og staðan er sú hjá mörgum þeirra að þeir hafa enn ekki fengið neina fasta launavinnu og sjálfur hef ég fengið eins og sagði, um tvö hundruð nei.“
Þór segir að í þessu birtist óhugnanlegt kerfi klíkusamfélags,  siðlaust og mannfjandsamlegt kerfi.

https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10221757056529929&id=1061628211

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að