fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sólveig Anna sakar RÚV um fordóma – „Einn karl með völd er samt alltaf miklu merkilegri og mikilvægari en við“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 4. mars 2020 09:35

Sólveig Anna Jónsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ríkisfjölmiðillinn hefur engan áhuga á því að kalla til fulltrúa láglaunakonunnar og heyra hennar afstöðu, heyra hana segja frá því að henni hafi aldrei verið boðið þetta besta tilboð allra tíma. Og þá opinberast fyrir okkur endanlega að það er alveg sama hversu við erum margar og sameinaðar, einn karl með völd er samt alltaf miklu merkilegri og mikilvægari en við. Hans ósannindi eru alltaf betri en okkar sannindi,“

segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í pistli á Facebook í dag, sem öðrum þræði fjallar um bága stöðu láglaunakvenna á Íslandi. Virðist hún kvarta yfir því að fá ekki boð í Kastljósið líkt og Dagur borgarstjóri gerði á dögunum, til að ræða kjaradeiluna.

Lýst eftir Kastljóstilboði

Sem kunnugt er þá lagði borgarstjóri fram tilboð í Kastljósi fyrir skemmstu sem Efling segir að hafi aldrei borist inn á borð samninganefndarinnar. Í gær bauðst síðan Efling til þess að fara í verkfallshlé ef Kastljós-tilboð Dags yrði staðfest opinberlega, en verkfall Eflingar hefur staðið yfir síðan 17. febrúar.

Í kjölfarið bauð Dagur Eflingu á fund og sagðist standa við tilboðið:

„Ég fagna því að Efling opni á að fresta verk­föllum. Ég stend að sjálf­sögðu við allt sem ég sagði í Kast­ljósi á sínum tíma en það er ekki gagn­legt þegar reynt er að að snúa út úr þeim yfir­lýsingum eða standa í skeyta­sendingum í fjöl­miðlum til að leysa kjara­deilur. Gott til­boð borgarinnar um að hækka laun Eflingar­fólks hjá borginni liggur fyrir, með sér­stakri á­herslu á að bæta lægstu laun og kjör kvenna­stétta. Til­boðið er á grunni lífs­kjara­samninganna, með lengingu or­lofs og út­færslu á styttingu vinnu­vikunnar. Í stað þess að standa í frekari skeyta­sendingum í fjöl­miðlum vil ég bjóða Sól­veigu Önnu for­mann Eflingar til fundar til að ræða hina erfiðu stöðu við­ræðna og hvar ber á milli aðila,“

skrifaði Dagur.

Biðin langa

Sólveig tekur fram að 80% af félagsmönnum Eflingar hjá Reykjavíkurborg séu konur og látið sé eins og um svik sé að ræða þegar þær krefjist mannsæmandi launa:

 „Þær búa í borg sem að hefur innleitt jafnlaunastuðul. Samt er það svo að þær, Eflingar-konurnar, sem vinna mestu konu-störfin, eru mest í flokknum „konur í konu-vinnu“ hafa ekki fengið neitt sérstakt verkefni fyrir sig. Ekki fengið neina sérstaka skýrslu um sig. Hafa ekki fengið neina úttekt á sinni stöðu. Engin stjórnmálamanneskja sem að fer með völd í borginni hefur ávarpað þær og sagt: „Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að uppræta þann ósóma að láta ykkur vinna mikilvægustu störfin fyrir minnstu launin“. Engin hefur þakkað þeim sérstaklega fyrir það að vera ómetanlegar í kerfinu. Engin,“

segir Sólveig og spyr að lokum:

„Raunverulegt framlag kvenna. Hvenær rennur upp sá dagur að það verður metið að verðleikum? Hvenær? Hversu lengi eigum við að bíða?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt