fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Skrifar um svarta sögu Samherja – „Ekki sagan um duglegu drengina“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 18. nóvember 2019 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, hefur verið iðinn við kolann síðan Samherjamálið spratt fram á sjónarsviðið í síðustu viku.

Hann hefur rakið sögu Samherja frá stofnun fyrirtækisins í fjórum hlutum og birt á Facebook, en óhætt er að segja að um afar gagnrýna nálgun sé að ræða, þar sem Gunnar segir að Samherji sé „skaðræði“ og stjórnendur séu óprúttnir og beiti blekkingum, svikum og yfirgangi. Segir hann yfir 70% auðs Samherja í raun vera gjöf frá almenningi.

Von á fleiri sögum

Gunnar sagði við Eyjuna að hann sé ekki að vinna að útgáfu bókar um Samherja, en þó megi fólk eiga von á fleiri sögum:

„Ég er núna að vinna í tímabilinu þegar Samherji keypti Guðbjörgina á Ísafirði. Ég hef verið að fá ýmsar ábendingar frá fólki, meðal annars um starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi og hitt og þetta. Því meira sem maður setur sig inn í sögu þessa fyrirtækis verður það alltaf augljósara hvernig það starfar. Það kemst yfir eignir fyrir lítið fé og beitir alls kyns brögðum til þess og skeytir engu um þau áhrif sem það hefur á aðra,“

segir Gunnar Smári.

En telur hann að Samherja hafi gengið illt til í viðskiptum sínum í gegnum árin?

 „Sá sem narrar eigur út úr fólki fyrir lítið fé, til dæmis þá sem eru í vandræðum eða gera sér ekki grein fyrir verðmætum sínum, gengur þeim illt til ? Ég veit ekki með það, en þeir vilja bara auðgast og er skítsama um þá sem tapa. Þeir gangast síðan upp í þessu og hafa verið dáðir fyrir þessa aðferð sína. Þetta er ekki eina fyrirtækið sem gerir þetta auðvitað. En þeir eru grófastir, þeir eru kóngarnir og gáfu tóninn. Síðan hafa aðrir reynt að gera svipaða hluti,“

segir Gunnar.

Samherji er skaðræði

„Í nokkrum færslum langar mig að segja ykkur söguna af Samherja. Sem er ekki sagan um duglegu drengina sem keyptu hálf ónýtan togara, unnu hörðum höndum við að gera hann upp og urðu svo ríkir. Þvert á móti er saga Samherja saga þess hvernig óprúttnir menn sölsa undir sig eignir og auðlindir almennings með yfirgangi og blekkingum, oftast í samstarfi við stjórnmálafólk og annað fólk sem valið var til að gæta hagsmuna almennings en sveik. Alveg eins og hákarnir svokölluðu í Namibíu. Saga Samherja á Íslandi er algjörlega sambærileg við framferði fyrirtækisins í Namibíu. Meginstarfsemi þess er að sölsa undir sig almannaeigur og auðlindir fyrir lítið fé.“

segir í inngangi Gunnars að sögunum sem eru í fjórum hlutum og eru birtar í heild sinni hér að neðan:

 „Samherji er skaðræði – 1. hluti:
Guðsteinn og skipstjórakvótinn

 Samherja-frændur keyptu togarann Guðstein árið 1983 og gerðu upp. Kaupverðið var 47 m.kr. á þávirði eða um 895 m.kr. á núvirði. Guðsteinn var með litla veiðireynslu þegar kom að úthlutun kvóta í fyrsta skipti, rétt rúmlega 520 þorskígildistonn. Ljóst þótti að ekki væri hægt að gera skipið út með svo litlum kvóta svo þegar upp var staðið fékk Guðsteinn, eða Akureyrin eins og Samherjar-frændur nefndu skipið, úthlutað 1.380 þorskígildistonnum á Guðsteinn. Þetta voru þá rétt tæplega 0,3% af heildaraflahlutdeild á Íslandsmiðum. Miðað við varanlegt söluverð á kvóta í dag er það magn um 3.140 m.kr. virði. Segja má að Samherja-frændur hafi því keypt kvóta fyrir um 1.200 m.kr. á 895 m.kr. og fengið Guðstein ókeypis. Og síðan fengu þeir úthlutað aukalega, í sárabætur fyrir að keypt skip með litla veiðireynslu, kvóta sem í dag er að verðmæti um 1.940 m.kr. Samherjamenn borguðu því 895 m.kr. fyrir Guðstein en fengu 3.140 m.kr. kvótaverðmæti með. Á þessum árum var hægt að gera slík viðskipti, á upphafsárum kvótakerfisins og fyrir framsalið þegar öllum var ekki ljós verðmæti kvótans.

En 1.380 tonn var heldur ekki nægur kvóti til að gera Akureyrina út nema hluta út ári. Á þessu upphafsári kvótans gat skipstjóri skipt um pláss og við það fékk nýja skipið kvóta byggðan á veiðireynslu skipstjórans. Þetta gerði Þorsteinn Vilhelmsson, einn Samherja-frænda og einn aflamesti skipstjóri landsins. Hann hætti á Kaldbaki og réð sig á Akureyrina og við það varð kvóti Samherja ekki 1.380 tonn heldur 3.377 þorskígildistonn. Mismunurinn er 1.997 tonn, sem á þeim árum var rúmlega 0,4% af heildarkvótanum. Verðmæti þess í dag er um 4.543 m.kr.

Með því að kaupa Guðstein fyrir 895 m.kr. og að Þorsteinn skipti um pláss eignuðust Samherja-frændur kvóta sem metinn er í dag á hátt í 7,7 milljarða króna. Það var meðgjöfin sem við gáfum Samherja. Það er erfitt að segja til um hversu mikið þessi gjöf vegur í veldi Samherja í dag. Ef við reiknum með að hún hafi borið 3,5 prósent ársávöxtun síðan 1984 er hún um 26,5 milljarðar af 111 milljarða eigin fé Samherja í dag, tæplega 24% af skráðum auð Samherjamanna, en þess ber að geta að kvótinn er þar ekki skráður á markaðsverði.

Þegar Þorsteinn Vilhelmsson gekk út úr Samherja árið 2000 fékk hann 3 milljarða króna fyrir hlut sinn. Það gera um 7 milljarðar króna á núvirði, mikið fé en vart nema sæmileg ávöxtun á skipstjórahlutinn sem hann færði fyrirtækinu 1984.

Samherji er skaðræði – 2. hluti:
Hafnfirðingar rændir eigum sínum

1985, ári eftir að hafa fengið gjafakvóta með Guðsteini/Akureyrinni og skipstjórakvóta að auki tók Samherji þátt í upplausn Sjálfstæðismanna á Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem gerði þá út þrjá togara; Apríl, Maí og Júní. Eins og flest útgerðarfyrirtæki á þeim árum var Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, BÚH, skuldug en langt í frá gjaldþrota, átti eignir á móti skuldug jafnvel þótt kvótinn væri ekki færður til eignar á þeim árum. Togarar BÚH voru með kvóta sem nam um 1,8% af kvóta helstu botnfiskskvóta, sem jafngildir í dag rúmlega 1,5% af heildarkvótanum. Þetta er risaeign sem Hafnfirðingar áttu en seldu, væri í dag að verðmæti um 16.830 m.kr.

Þessi eign var seld í tvennu lagi. Fyrst var Júní seldur út úr fyrirtækinu með kvóta fyrir 115 m.kr. sem eru að núvirði 987 m.kr. og síðan var fyrirtækið sjálft, frystihús og tilheyrandi landvinnsla og tveir togara með kvóta selt til Hvaleyrar, sem þeir Samherja-frændur áttu að 40% hluta, fyrir 280 m.kr. (2.360 m.kr. á núvirði) eftir að bæjarsjóður hafði yfirtekið 100 m.kr. af skuldum BÚH (843 m.kr. á núvirði). Kaupverðið fólst annars vegar í því að Hvaleyri tók yfir 208 m.kr. af skuldum BÚH (1.753 m.kr. á núvirði) og fékk restina lánaða hjá Hafnarfjarðarbæ í formi skuldabréfs til tíu ára upp 72 m.kr. (607 m.kr. á núvirði). Samanlagt fékk Hafnarfjarðarbær því 987 m.kr. frá Hval, skuldabréf frá Hvaleyri til tíu ára upp á 607 m.kr. en yfirtók skuldir upp á 843 m.kr. móti; fékk nettó 751 m.kr. fyrir allar eignir BÚH, fiskvinnslu í landi og þrjá togara plús kvóta sem í dag er 16.8 milljarða króna virði. Þetta er líklega verstu afglöp nokkurrar sveitarstjórnar í Íslandssögunni, nema ef vera skyldi sala Sjálfstæðisflokksmanna í Reykjavík á Bæjarútgerð Reykjavíkur stuttu síðar.

Nánast öll fiskvinnsla hvarf úr Hafnarfirði eftir þetta, þrátt fyrir fögur loforð kaupenda um að togararnir myndu landa öllum sínum afla í Hafnarfirði. Það munar um minna en missa 5.644 þorskígildistonn út úr byggðarlaginu, það er starfsemi á stærð við Útgerðarfélag Akureyringa eða Ögurvík í dag. En þetta er líka afleit meðferð á eignum almennings; að selja kvóta sem er að markaðsvirði í dag 16.830 m.kr. fyrir 751 m.kr. eða 4,5% af raunvirði. Mismunurinn, rúmur 16 milljarðar króna, er um 540 þús. kr. á hvern íbúa Hafnarfjarðar, vel yfir tvær milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Og þetta er bara kvótinn, ekki skipin, húsin eða landið. Bæjarstjórn gaf í raun eigendum Hvals (Kristján Loftsson og fjölskylda) og Hvaleyrar (Samherjafrændur 48%, eigendur Hagvirkis, þeir Aðalsteinn Hallgrímsson, Gísli Friðjónsson, Svavar Skúlason og Jóhann G. Bergþórsson 12% hver og Jón Friðjónsson verkfræðingur 4%) þessar eignir bæjarbúa.

Það er sorglegt að sjá í umfjöllun fjölmiðla á þessum tíma og í umræðum í bæjarstjórn að fólk virtist ekki gera sér grein fyrir verðmæti kvótans. Enginn minntist á veiðiheimildir togarana. En enginn vafi er á að Samherjamenn vissu allt um það. Það er því erfitt að lesa af samtímaheimildum hver var kvótinn sem fylgdi Júní út úr Bæjarútgerðinni til Hvals og hversu mikið var eftir. Ef við gerum ráð fyrir að kvótinn hafi skipst jafnt á milli skipanna þá má gera ráð fyrir að Hvaleyrin hafi fengið um 11.220 m.kr. kvóta auk skipa og fasteigna fyrir um 2.360 m.kr. Fáum árum síðar keyptu Samherjafrændur Hvaleyrina að fullu og fluttu allan kvóta og vinnslu norður til Akureyrar, þrátt fyrir fögur loforð. Um leið og Samherja-frændur keyptu Hvaleyri þá keypti Hagvirki allar fasteignir og land Hvaleyrar í Hafnarfirði. Og það var án efa planið frá upphafi, verkfræðingarnir voru ekki á leið í útgerð heldur sáu verðmæti í landi til uppbyggingar. Þar sem skuldirnar sem Hvaleyrin yfirtók frá BÚH sátu eftir í fyrirtækinu og líka skuldabréfið fyrir restinni af kaupverðinu skulum við gera ráð fyrir að kaupverð á hlut verkfræðinganna og söluverð fasteigna og lands hafi gengið upp. Samherjafrændur tóku því snúning á Hafnfirðingum, keypti 11.220 m.kr. kvóta á 2.360 m.kr. og fengu skipin ókeypis. Mismunurinn er 8.860 m.kr.

Ef við gerum ráð fyrir að þetta fé hafi borið 3,5% ávöxtun frá 1985 þá ætti það að vera um 29,5 milljarða króna í dag. Það jafngildir um 26,5% af auð Samherja í dag. Ef við bætum þessu framlagi Hafnfirðinga við upphafsframlagið sem við greindum frá í fyrsta hluta sögunar, má segja að yfir 50% af auð Samherja sé gjöf íslensk almennings frá upphafsárunum tveimur.

Samherji er skaðræði – 3. hluti:
Styrkir vegna raðsmíðaskipa mjólkaðir

 Árið 1986 keypti Samherji nýtt skip, Oddeyrina, sem var svokallað raðsmíðaskip. Það var átak til styrkingar skipasmíðaiðnaði hérlendis. Styrkurinn fólst meðal annars í því kaupverðið var á núvirði um 265 m.kr. lægra en framleiðsluverð. Auk þess fylgdi kaupunum 200 tonna þorskígildistonn af botnfiskkvóta og sóknardaga á úthafsrækju. 200 tonn árið 1986 voru 0,05% af heildarkvótanum, sem telst vera um 550 m.kr. virði í dag. Árið 1988 var svo settur kvóti á úthafsrækju samkvæmt veiðireynslu og við það hækkaði kvóti Oddeyrar upp í um 1.589 þorskígildistonn. Viðbótin, 1.389 tonn, var árið 1988 rúmlega 0,3% af heildarkvótanum, sem í dag eru að verðmæti um 3.820 m.kr. Samanlagður styrkur til Samherja vegna Oddeyrar var því á árunum 1986-88 um 4.635 m.kr. á núvirði. Ef við leggjum 3,5 prósent ársávöxtun á þetta framlag ætti það að vera um 14,4 milljarðar króna í dag, um 13% af eigin fé Samherja. Til viðbótar 50,5 prósentunum sem komu vegna upphafsgjafar landsmanna til Samherja og snúningsins á Hafnfirðingum. Samanlagt er þá hægt að skýra um 63,5% af auð Samherja sem meðgjöf frá landsmönnum vegna Akureyrar og Oddeyrar.

Reyndar lögðu landsmenn meira til Oddeyrarinnar. Þeir Samherja-frændur neituðu að skrifa undir skuldabréf sem var lán vegna smíðar raðsmíðaskipanna og sem kaupendur áttu að taka yfir. Úr þessu verð mikil deila sem stóð í áratug. Þegar Samherji svo loks borgaði Oddeyrina voru verulegir fjármunir afskrifaðir, stór hluti vaxta og allir dráttarvextir, að verðmæti um 1.420 m.kr. á verðlagi dagsins í dag. Samanlagða meðgjöf landsmanna til Oddeyrar mætti því meta á 15,8 milljarða króna í dag eða um 14,4% af auð Samherja. Ef niðurfelling skulda vegna uppgjörs Oddeyrar er tekin með má rekja um 64,9% af auð Samherja til gjafa landsmanna á fyrstu þremur starfsárunum eftir að frændurnir keyptu Guðstein. Það er nokkuð.

Samherji er skaðræði – 4. hluti:
Fyrsti snúningurinn á Dalvík

 Árið 1990 keypti KEA hlut Dalvíkurbæjar í Útgerðarfélagi Dalvíkur, en sveitarfélagið hafði átt tæpan helmingshlut á móti jafnstórum hlut KEA (einstaklingur átti smá hlut á milli). Útgerðarfélagið gerði út tvo togara, Björgvin og Björgúlf, en KEA flutti um 2.000 tonna kvóta yfir á þá eftir kaupin. Kaupverðið fyrir tæplega helmingshlut bæjarins var 81,4 m.kr. sem gera 265 m.kr. á núvirði. Félagið allt var því metið á um 546 m.kr. á núvirði miðað við þessi kaup. Eins og áður er ekki greint nákvæmlega frá því í fréttum frá þessum tíma hver kvótinn var sem fylgdi kaupunum, en miðað við kvóta skipanna nokkru síðar virðist sem togarar Útgerðarfélag Dalvíkur hafi verið með um 3.700 tonna kvóta í þorskígildum eða rétt rúmlega 1% af heildarkvótanum árið 1990. KEA keypti því um 0,5% af heildarkvótanum, sem meta má á um 5.400 m.kr. í dag, á 265 m.kr. á núvirði. Og fékk skip og fiskvinnslu ókeypis. Þetta er enn eitt dæmi þess að vörslumenn almannahagsmuna í sveitarfélögum gefa nánast eigur almennings.

Ég rek þetta hér því seinna átti útgerð KEA eftir að renna inn í Samherja. En líka vegna þessa samhliða þessum kaupum seldi KEA Samherja 64% hlut sinn í Söltunarfélagi Dalvíkur til Samherja. Það félag átti 1.900 þorskígildistonn af kvóta, mest á rækju. Þetta var rétt rúmlega 0,5% heildarkvótans þá sem meta má á um 5.715 m.kr. í dag. 64% af því gera um 3.660 m.kr. miðað við verðlag dagsins. Fyrir þetta borgaði Samherji 62 m.kr. í maí 1990, sem gera um 203 m.kr. í verðlagi dagsins í dag. Mismunurinn er gífurlegur, tæplega 3,5 milljarðar króna.

Ef við ávöxtum þessa meðgjöf til Samherja með 3,5% ársávöxtun frá 1990 þá ætti hún að standa í um 9,7 milljörðum króna í ár. Það jafngildir um 8,7% af auði Samherja í dag. Og bætist við meðgjöfina í upphafi, snúninginn á Hafnfirðingum og það sem Samherji fékk gefins með Oddeyrinni. Slíkt framlag er þá komið í um 73,5% af auð Samherja í dag og kannski lítið eftir sem má teljast til afrakstur af dugnaði þeirra frænda. Og við erum bara komin til ársins 1990.

Og snúningur KEA á bæjarbúum á Dalvík á eftir að renna inn í Samherja síðar meir. Við skulum hafa í huga að KEA var Kaupfélag Eyfirðinga, félag sem stundaði félagslegan rekstur með samfélagslegu markmiðið. Þannig átti það að vera en að endanum náði Samherji að láta eignir og sjóði þess félags þjóna sér en ekki samfélaginu.“

Samherji er skaðræði – 5. hluti
Ísfirðingar sviknir fyrir ódýran kvóta

Stuttu eftir að hafa keypt stórt og öflugt skip og skýrt það Guðbjörg, eins og fyrri skip sín, var rekstur Hrannar á Ísafirði orðinn þungur. Skipið hafði kostað um 1,5 milljarða króna á þávirði (um 4 milljarðar króna á núvirði) og þótt Hrönn hafi lagt til um 500 m.kr. þá voru afborganir og vextir af einum milljarði meiri en 3.400 tonna kvóti skipsins stóð undir. Ef kvótinn yrði aukinn gæti þetta reddast, en það gat líka gerst að ákveðið væri að úthluta minni kvóta og þá færi illa. Eigendurnir leituðu því til Samherja.
Niðurstaðan varð sú að Samherji keypti Hrönn í janúar 1997 og þar með Guðbjörgu, Gugguna, með því að greiða eigendum Hrannar með nýju hlutafé í Samherja, um 84 milljón hlutum. Kaupverðið var trúnaðarmál, en það má ráða það af fréttaflutningi hvert kaupverðið var, þótt það hafi aldrei verið skýrt nákvæmlega. Það er eitt af því sem er fróðlegt við að lesa gamlar fréttir af Samherja, félagið kemst upp með magnaða leynd þótt það sé að höndla með auðlindir almennings. Samhliða kaupunum lýsti Samherji því yfir að fyrirtækið færi á hlutabréfamarkað svo bréfin sem eigendur Hrannar fengju væru raunveruleg verðmæti sem mætti skipta fyrir reiðufé. Í staðinn fékk Samherji Gugguna, fiskvinnsluhús á Ísafirði og kvóta sem nam um 0,8% af heildarkvóta Íslandsmiða.
Áður en það gerðist keypti Samherji Fiskimjöl og lýsi í Grindavík með sama hætti, með útgáfu nýrra hlutabréfa. Aftur var kaupverðið trúnaðarmál en ætla má að það hafi verið rúmlega 68,6 milljón hlutir. Með Fiskimjöl og lýsi fylgdi útgerðarfyrirtækið Sigluberg og 5.400 þorskígildistonn af kvóta, mest síld og loðna, um 1,2% af heildarkvóta landsins.
Samherji gaf út enn nýtt hlutabréf í hlutafjárútboði sínu um vorið, 45 milljón hluti, og var margföld eftirspurn eftir því. Gengið var 9 kr. á hlut. Miðað við útboðsgengið var greiðslan fyrir Hrönn um 756 m.kr. sem eru um 2 milljarðar króna á núvirði. Og greiðslan fyrir Fiskimjöl og lýsi og Siglubergið var um 617,5 m.kr. sem eru rúmlega 1,6 milljarðar króna á núvirði.
Virði kvótans í þessum viðskiptum var miklum mun meiri. Núvirði kvótans frá Guggunni er um 8.492 m.kr. og virði kvótans sem fylgdi kaupunum á Fiskimjöl og lýsi um 13.487 m.kr. Samtals rétt tæplega 22 milljarðar króna. Á meðan hlutirnir sem þeir Samherja-frændur gáfu út voru enn í eigu annarra var erfitt að meta hvað þeir borguðu í raun fyrir þennan kvóta. En þegar þeir tóku Samherja aftur af markaði árið 2005 og keyptu þessi bréf aftur kom í ljós hvað þeir borguðu í raun. Útgáfan á nýjum hlutabréfum árið 1997 var í raun eins og vaxtalaust lán í sjö ár; þeir gáfu út nýtt hlutabréf sér að kostnaðarlausu árið 1997 og keyptu það síðan aftur sjö árum síðar
Tilboða Samherjamanna til annara hluthafa hljóðaði upp á 12,1 krónu á hlut. Það er hærra en útboðsgengið 1997, en hafa verður í huga að þá hafði tíminn liðið og verðgildi krónunnar breyst. Þegar Samherjamenn keyptu hlutina sem þeir gáfu út vegna kaupanna á Hrönn greiddu þeir rétt rúman milljarð króna sem eru á núvirði um 1.982 m.kr. Það er rúmlega 23% af núvirði kvótans. Hagnaður Samherjamanna af viðskiptunum var um 6,5 milljarðar króna.
Og endanlegt kaupverð á Fiskimjöl og lýsi og þeim mikla kvóta sem fylgdi fyrirtækinu var 830,2 m.kr. sem gera um 1.619 m.kr. á núvirði. Það er aðeins um 12% af núvirði kvótans, kannski vegna þess að kvóti á uppsjávarfiski er hverfulli. Hagnaður Samherjamanna af þessum viðskiptum var tæplega 11,9 milljarðar króna.
Samherji gaf ekki aðeins út ný hlutabréf í tengslum við þessi kaup. Frændurnir gáfu líka út loforð að halda starfsemi Hrannar gangandi á Ísafirði og að Guggan myndi landa þar öllum sínum afla. Og sambærileg loforð voru gefin gagnvart Grindvíkingum, um stórfellda atvinnuuppbyggingu. Þessi loforð voru fullkomlega innistæðulaus, frændurnir sviku þau svo fljótt að engar líkur eru á að þeir hafi nokkru sinni ætlað að standa við þau. Með þessum loforðum, sem á Ísafirði voru studd karaktervottorði frá bæjarstjóranum, Kristján Þór Júlíussyni, féllust fyrri eigendur á að Samherji tæki yfir reksturinn. Hugmyndin var að reksturinn yrði óbreyttur, að eigendur gætu varið eign sína og bæjarbúar haldið vinnu sinni. Eigendurnir voru hólpnir og hafa örugglega hlegið alla leið í bankann. En bæjarbúar voru sviknir. Guggan landaði aldrei á Ísafirði, kvótinn var fluttur á önnur skip Samherja og Guggan var seld úr landi 1999, til fyrirtækis Samherja í Þýskalandi.
Hagnaður Samherja af þessum snúningi á eigendum Fiskimjöls og lýsis og Hrannar, og á bæjarbúum í Grindavík og á Ísafirði, nam um 18.378 m.kr. miðað við núvirði kvótans. Þá reiknum við aðrar eignir í þessum viðskiptum upp á núll; rekstur, hús, skip og tæki. Ef við reiknum með 3,5% ávöxtun á þessa fjárhæð frá árinu 1997 þá ætti hún að hafa ávaxtast og orðið að um 40,5 milljörðum króna í dag. Það jafngildir um 36,5% af auð Samherja í dag.
Þegar við leggjum þetta saman við það sem Samherjafrændur fengu í meðgjöf með Guðsteini, skipstjórakvótann, snúninginn á Hafnfirðingum, styrkinn vegna Oddeyrar og snúninginn á KEA á Dalvík erum við komin með þá niðurstöðu að 110% af auð Samherja megi rekja til svona gjafa og snúninga. Hafa verður í huga að kvótinn er ekki eignfærður á fullu markaðsvirði, svo auður Samherja er meiri en sést í bókum félagsins. En það er að verða augljóst að Samherji er ekki útgerðarfyrirtæki fyrst og fremst, heldur miklu fremur maskína sem vinnur að því með öllum ráðum að ná undir sig verðmætum eignum fyrir lítið fé, og vill helst fá þær svo til gefins. Lykilinn að auð Samherja er ekki aðeins arðrán á starfsfólkinu sem vinnur hjá fyrirtækinu heldur rányrkja á auðlindum, bæði í þeirri merkingu að Samherji sölsar undir sig auðlindirnar fyrri lítið fé, en líka í þeirri merkingu að Samherji hefur verið einn helsti gerandinn í ofveiði á rækju, loðnu, síld og öðrum tegundum sem hér hafa komið við sögu. En það er önnur saga. Við skuldum halda áfram að rekja söguna af því hvernig Samherja tókst að ná undir sig auðlindum almennings fyrir lítið fé. Meira um það síðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að