fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Atli Magnússon 1944-2019

Egill Helgason
Sunnudaginn 16. júní 2019 09:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var nýgræðingur í blaðamennsku fyrir margt löngu, hóf óvænt störf á Tímanum, málgagni Framsóknarflokksins, vorið 1981 var þar margt merkt fólk og eftirminnilegt. En sá sem mér þótti stax einna vænst um var Atli Magnússon. Ég þekkti hann ekkert þá, Atli var ekkert sérstaklega mikið að trana sér fram í þjóðfélaginu, en mér var sagt að hann hefði haft mikil áhrif á ýmsa samferðamenn sína allt frá því hann var í menntaskóla.

Atli var margbrotinn maður. Hann var hæglátur í tali, með einstaklega vingjarnlega nærveru, undarlega fróður, hann þuldi fyrir mann kvæði þegar vel lá á honum, gamansamur, launfyndinn – gat stundum verið meinhæðinn.

Atli stóð vaktina í blaðamennskunni nokkuð lengi. Þegar ég hætti á  Helgar-Tímanum – úthaldið var ekki mjög mikið á þeim tíma – og síðar Illugi, þá tók Atli við ritstjórn blaðsins. Leiðir okkar lágu svo aftur saman í skammlífu útgáfuævintýri Framsóknar sem nefndist NT.

Eftir það hittumst við oftast á krám bæjarins sem við stunduðum báðir af fullmiklum krafti. Þar kenndi Atli mér kvæði, skrítið og skemmtilegt – ég fer oft með þetta og verður þá alltaf hugsað til þessa vinar míns. Ljóðið er eftir Guðmund Friðjónsson frá Sandi.

Fór ég í heiði, fékk ég eina tínu.
Fór ég á engi, sló ég miðlungsbrýnu.
Út reri ég – og einn ég fékk í hlut.
Upp dreg ég bát í naust með léttan skut.
Stilltu þig, son minn. Stillið grátinn, dætur,
strengharpa mín þó laskist. Góðar nætur!
Norræna lifir, einn þó undan beri
útskagamann sem langan barning reri.
Öldurnar vaka, yrkja ljóð á skeri.

Atli vann síðan gríðarlega mikið og merkilegt starf við þýðingar á fagurbókmenntum. Ekki man ég til þess að hann hafi verið sérstaklega heiðraður eða honum hampað fyrir þessa vinnu sína á akri heimsbókmenntanna og íslenskrar tungu, eins og hann átti svo sannarlega skilið.

Hann þýddi meðal annars bækur eftir F. Scott Fitzgerald, Thomas Hardy, Joseph Conrad, Theodore Dreiser, Virginiu Woolf, Truman Capote og svo eina af stóru norrænu skáldsögunum, Fall konungs eftir Johannes V. Jensen.

Þetta var mikið eljuverk – ég nefndi það í litlum pistli sem ég skrifaði þegar ég var orðinn blaðamaður á Helgarpóstinum, nokkrum árum eftir samfylgd okkar Atla á Tímanum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður