fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Dýrlingurinn og Harðjaxlinn

Egill Helgason
Miðvikudaginn 1. maí 2019 23:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um daginn var ég að fletta Amazon Prime. Það er efnisveita sem  inniheldur miklu meira myndefni en Netflix, en margt af því er er býsna sérkennilegt. Ég hef tekið rispu á rússneskum myndum og sjónvarpsþáttum á Amazon Prime en þetta kvöld urðu á vegi mínum tveir kunningjar frá fyrstu árum íslenska sjónvarpsins. Dýrlingurinn og Harðjaxlinn.

Dýrlingurinn Simon Templar  eða The Saint, var leikinn af Roger Moore. Hann þótti svo góður að hann var á dagskrá fyrsta kvöld íslenska sjónvarpsins, 30. september 1966. Það kvisaðist út um bæinn daginn eftir að eitthvað frábært hefði gerst. Börnin töluðu látlaust um Dýrlinginn og svo lærðu þau upp til hópa að teikna dýrlingsmerkið – fígúru úr einföldum strikum með geislabaug yfir hausnum. Pabbi stráks út á Nesi átti dýringsbíl – sportbíl af Volvogerð. Strákurinn varð strax frægur fyrir vikið.

Á heimili mínu var þá ekkert sjónvarp. Það var enginn að horfa á Kanann á þeim bæ. Við eignuðumst ekki tæki fyrr en síðar. En ég fékk að fara í önnur hús til að horfa á Dýrlinginn – stundum til vinar í nálægu húsi þar sem var til sjónvarp og stundum til frænku minnar sem bjó á Laufásveginum. Það hefur reyndar verið sagt að gestanauð hafi aukist mjög á fyrstu árum sjónvarpsins. Þá voru þeir sem ekki áttu sjónvarp sífellt að detta í heimsóknir til fólks sem var með loftnet á þakinu.

Moore var ekki bara hrikalega laglegur, eins og segir í laginu,  heldur hafði hann sitt fágaða og glettna yfirbragð sem var ómótstæðilegt. Hann gat líka verið harður í horn að taka – en reyndar var Harðjaxlinn sem kom aðeins síðar á dagskrá sjónvarpsins meira hörkutól. Sá var leikinn af Patrick McGoohan. Hann var leikari af írskum ættum – sagan segir að hann hafi hafnað því að leika James Bond vegna þess að hlutverkið samræmdist ekki kaþólskri trú hans.

Það var frekar illa séð að maður væri að horfa á Harðjaxlinn sem hét Danger Man á frummálinu – hann þótti aðeins of grófur fyrir börn á þessum árum. En þeir sem horfðu á Harðjaxlinn fussuðu sumir yfir því að Dýrlingurinn væri ekki nógu töff – þetta var svolítið eins og Bítlarnir og Stones.

Ég lét það vera að horfa mikið á þessa þætti á Amazon Prime. Þótti bara skemmtilegt að sjá þá þarna hlið við hlið. Aðalefnið frá fyrstu árum sjónvarpsins. En sumt sem maður á í minningunni skyldi maður ekki skemma með því að horfa á það í endurliti. Þessir þættir virka nú eins og frekar einfaldar formúlur, teknar í svart/hvítu, það hefur orðið mikil þróun í gerð sjónvarpsefnis síðan þá. Það er samt ekki víst að kvikmyndalistinni sem slíkri hafi farið fram – að minnsta kosti ekki ef marka má það sem er vinsælt í bíó núorðið.

Roger Moore kom til Íslands 2005 vegna góðgerðamála, hann starfaði mikið fyrir UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Moore hafði máski ekki sérstaka leikarahæfileika og gerði sér líka grein fyrir því sjálfur, því þegar hann var spurður hvernig hann teldi að Daniel Craig myndi koma út sem James Bond, svaraði Moore sem þá var 78 ára:

„Ég efast ekki um að hann á eftir að standa sig. Ég lék þetta hlutverk þannig að það getur ekki verið svo erfitt. “

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum