fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Völva 2019: Sundrung hjá Verkalýðshreyfingunni, leigufélag hrynur og fyrsti bankinn seldur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 1. janúar 2019 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í desember 2018 hélt blaðamaður DV á fund spákonunnar sem reyndist svo sannspá á síðasta ári. Hún býr í litlu grænmáluðu húsi rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Hún kemur til dyra og heilsar hlýlega og býður blaðamanni til stofu. Sem fyrr er kristalskúlan góða á stofuborðinu. Það er vistlegt og jólalegt hjá völvunni sem segir blaðamanni að hún sé mikið jólabarn og hafi alltaf verið. Hún býr ein en eiginmaður hennar lést fyrir einhverjum árum. Aðspurð segist hún halda jólin hátíðleg á heimili sonar síns og tengdadóttur í Kópavogi. Blaðamaður fær sér sæti í IKEA-sófanum og völvan sest andspænis honum. Eins og á síðasta ári vekja augu völvunnar sérstaka athygli blaðamanns, þau eru ekki bara góðleg, það er hreinlega eins og þau sjái í gegnum holt og hæðir. Hér má lesa brot úr spá völvunnar fyrir árið 2019:

Sundrung innan verkalýðshreyfingarinnar

Völvan sér fyrir miklar hamfarir í viðskiptalífinu á næsta ári, sérstaklega varðandi kjaramálin auk þess sem mikill titringur verður á fasteignamarkaði. „Kjaramálin verða mál málanna á næsta ári og ef fólk er orðið þreytt á fréttum af Ragnari Þór Ingólfssyni þá munu þær eflaust tvöfaldast á næsta ári. Annars skynja ég að Ragnar Þór muni lenda í vandræðum á næsta ári. Hann ber sér fast á brjóst og hótar öllu illu. Allur málflutningur hans hefur gert það að verkum að hann mun eiga erfitt með að gera málamiðlanir og það gæti leitt hann út í ógöngur.

Sólveig Anna Jónsdóttir

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, munu feta veginn með Ragnari af hörku og óbilgirni. Þegar verkföll blasa við þá er ekki víst að sá stuðningur sem þau töldu vísan verði fyrir hendi. Það verður sundrung innan verkalýðshreyfingarinnar,“ segir völvan. Hún segir að baráttan muni skaða báða aðila, launafólk og atvinnurekendur, en að endingu muni nást lending sem enginn verður sáttur við.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Mynd Hanna/DV

Krónan veikist fram að sumri

Völvan segir að krónan muni halda áfram að veikjast í byrjun næsta árs og það muni hafa góð áhrif á ferðamannastrauminn. „Útlendingar hafa enn mikinn áhuga á að heimsækja Ísland og munu flykkjast hingað á nýju ári. Almennt eru aðilar í ferðaþjónustu að standa sig afar vel en ég skynja að stórt fréttamál muni koma upp varðandi óprúttna starfshætti hjá stóru bókunarfyrirtæki,“ segir völvan. Í sumar mun síðan krónan byrja að styrkjast aftur í þann mund sem Íslendingar byrja að ferðast til útlanda í sumarfrí.

Vilhjálmur Birgisson

Áfangi í afnámi verðtryggingar

Völvan segist einnig sjá stór tíðindi varðandi afnám verðtryggingar. „Fjármagnseigendur berjast hatrammlega gegn því en að endingu munu launþegar bera sigur úr býtum. Það verða stór skref stigin í afnámi verðtryggingar á árinu og það verður gæfuspor.“

Lífeyrissjóðir fá leigufélag í fangið

Völvan segir að tvö leigufélög muni glíma við mikla erfiðleika á næsta ári, sérstaklega þau stærstu. „Rekstur leigufélaga hefur verið afar þungur og eitthvað mun undan láta á næsta ári. Í sumum tilvikum duga leigugreiðslur ekki fyrir vöxtum og afborgunum. Ég skynja að að minnsta kosti eitt stórt leigufélag verði úrskurðað gjaldþrota á næsta ári. Eignir þess félags munu lenda í höndum kröfuhafa, sem eru að stærstum hluta íslenskir lífeyrissjóðir. Umræddir lífeyrissjóðir verða því skyndilega orðnir með stærstu leigusölum landsins,“ segir völvan og dæsir.

Það mun koma mörgum í opna skjöldu að Landsbankinn verði fyrsti ríkisbankinn til að fara í söluferli Mynd:DV/Hanna

Þá sér hún fyrir sér gjaldþrot verktaka, sérstaklega þeirra sem hafa veðjað á dýrar íbúðir í miðbæ Reykjavíkur. „Þessar íbúðir eru ekki að seljast á þessu verði og það mun skapa talsverðan usla. Framundan eru mörg stór verkefni, til dæmis Valssvæðið og auk þess rándýrar íbúðir í grennd við Hörpuna. Fjárfestar í þessum verkefnum eru byrjaðir að bryðja kvíðalyf.“

Fyrsti bankinn seldur

Þá sér völvan, sem greinilega fylgist ágætlega með viðskiptalífinu, fyrir sér að ríkisbanki verði seldur á næsta ári. „Flestir hafa talið að Íslandsbanki yrði fyrsti bankinn sem hyrfi úr ríkiseigu en þegar á reynir verður Landsbankinn seldur fyrstur. Ástæðan er fyrst og fremst sú að bankinn er mun betur rekinn en hinir bankarnir og nýtur meira trausts. Þó mun ríkið halda eftir 20–30% eignarhlut í bankanum,“ segir völvan ákveðin.

Þá sér hún fyrir sér ýmiss konar sameiningu hjá fyrirtækjum á fjármálamarkaði. „Þau fyrirtæki sem ætla að vera samkeppnishæf verða að hafa aðhald í rekstri. Menn verða að kaupa freyðivín í stað kampavíns,“ segir völvan.

Málaferli gegn GAMMA

Hún segist sjá óvenjulegt mál blossa upp í tengslum við GAMMA á næsta ári. „Ég sé mikla reiði varðandi brotthvarf stofnandans, Gísla Haukssonar. Hann á erfitt með að sætta sig við orðinn hlut og á næsta ári munu berast fréttir af málaferlum hans gegn fyrirtæki sínu.“

 

Þetta er aðeins brot úr spá völvunnar fyrir árið 2019. Meira er hægt að lesa í Völvublaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?