fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Skiptar skoðanir útgerðarmanna og sjómanna um fyrirhugað myndavélaeftirlit Fiskistofu – Mikill ávinningur sjómanna af slíku eftirliti en minni hjá útgerðinni

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 16. ágúst 2018 13:31

Mynd úr safni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt væntanlegu frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða annars vegar og hins vegar á lögum um Fiskistofu verða eftirlitsheimildir Fiskistofu auknar verulega. Meðal annars er kveðið á um að í öllum fiskiskipum verði að vera rafrænt myndavélakerfi sem fylgist með veiðum og vinnslu afla. Starfsmenn Fiskistofu eiga að hafa aðgang að þessum eftirlitskerfum.

Auk eftirlitskerfa í fiskiskipum eiga slík kerfi að vera í löndunarhöfnum og hjá vigtunarleyfishöfum. Auk þess eiga starfsmenn Fiskistofu að hafa aðgang að rafrænum upplýsingum um niðurstöður vigtunar með tengingu við vigtunarbúnað þeirra sem mega vigta sjávarafurðir.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hefur látið hafa eftir sér að frumvarpinu sé ætlað að auka tiltrú fólks á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fram hefur komið að undanförnu að með núverandi lagaumgjörð geti Fiskistofa í raun ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þá blossar umræða um brottkast reglulega upp og sömuleiðis um framhjálandanir en þá er afla landað framhjá vigt.

Misjöfn viðbrögð

Viðbrögð hagsmunaaðila við frumvarpinu hafa verið misjöfn. Hafnasambandið leggst gegn frumvarpinu í óbreyttri mynd og vill frekar að unnið verði á grunni samstarsyfirlýsingu Fiskistofu og íslenskra hafna. Þarna eru hafnirnar væntanlega að horfa í kostnaðinn sem mun óhjákvæmilega fylgja því að setja upp eftirlitskerfi í samræmi við lögin. Vandséð er hvaða sjónarmið önnur ættu að ráða ríkjum þar á bæ enda eru það hagsmunir hafnanna að allur afli sem kemur að landi sé vigtaður og rétt skráður þar sem hafnirnar fá greitt fyrir þann afla sem um þær fer.

Samtök atvinnulífsins eru sama sinnis og Hafnasambandið og eru ósátt við frumvarpið. Þau segja í umsögn um það að verið sé að koma upp miklu eftirlitskerfi sem er ætlað að fylgjast með meintum og ætluðum brotum á lögum um stjórn fiskveiða. Ef þetta gangi eftir geti þetta orðið fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og engin rök séu fyrir svona miklu eftirliti.

Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambandsins, sagði í samtali við Fréttablaðið þann 10. ágúst að í fljótu bragði leggist sambandið ekki gegn frumvarpinu. Það telji að Fiskistofa þurfi að hafa heimildir til að geta sinnt eftirliti sínu og engin ástæða sé til annars en að stofnunin hafi öll þau gögn og tæki sem hún þarf til að geta gengið úr skugga um að allt sé rétt vigtað og skráð.

Í fréttum RÚV þann 15. ágúst var haft eftir Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandsins, að sjómönnum og sjómannaforystunni hugnist vel að myndavélar verði notaðar við eftirlit með veiðum, vinnslu og vigtun afla. Þetta verði þó að gera í samráði við Persónvernd. Hann sagði að sjómenn og forysta þeirra hafi lagt áherslu á að koma í veg fyrir svindl við vigtun og brottkast. Hann sagði brottkast hafa minnkað mikið en væri þó enn við lýði.

„Við erum með eftirlit með öllum andskotanum, fyrirgefið orðbragðið, bara hérna fyrir ofan okkur eru myndavélar sem eru að taka myndir af okkur núna,“ sagði Valmundur í beinni útsendingu frá Reykjavíkurhöfn. „Það er ekki verið að taka myndir inni í klefa hjá körlunum. Það er verið að taka myndir af vinnslunni, ef þetta eru skipin, og í landi er verið að taka mynd af vigtunum og að menn fari með hráefnið eins og á að gera eftir reglum.“

Segir í umfjöllun RÚV um málið.

Af hverju eru svona skiptar skoðanir um málið?

En af hverju hafa samtök sjómanna annars vegar og samtök atvinnurekenda svo mismunandi sýn á frumvarpið?

Það er vitað að brottkast og framhjálöndun hefur verið og er stunduð. Það staðfesta sjómenn. Hugsanlegt er að brottkast hafi minnkað og vonandi er það rétt. Erfiðara er að gera sér grein fyrir hvort framhjálöndun hafi dregist saman eða aukist. Hugsanlega sveiflast hún til eftir árum. Það hefur lengi farið illa í sjómenn að afla sé landað framhjá vigt enda fá þeir laun greidd miðað við þann afla sem skráður er á hafnarvog, framhjálöndun þýðir sem sagt að þeir fá ekki greitt fyrir það sem þeir veiddu. Útgerðin hirðir allan ágóðan af þeim afla sem er landað framhjá.

Það sama á við þegar svindlað er á endurvigtun og íshlutfall sagt vera meira en það er. Ef það er gert þá vegur fiskurinn, sem vigtaður er, meira en gefið er upp sem endanlegur afli að endurvigtun lokinni. Endurvigtunin gildir sem lokaskráning til aflamarks og eftir henni fá sjómennirnir greidd laun. Í samtölum við sjómenn hafa þeir lýst því hvernig þeir hafi fengið mun minna greitt en þeir áttu að fá vegna þess að röng ísprósenta var gefin upp við endurvigtun. Þeir hafa orðið að sætta sig við þetta eða missa skipsrými sitt að öðrum kosti.

Það eru því hagsmunir sjómanna að allur afli sé vigtaður og rétt skráður þegar komið er til hafnar. Það er því engin furða að sjómönnum hugnist vel að myndavélar verði notaðar við eftirlit og fylgst verði með veiðum og vinnslu sem og endurvigtun. Það ætti að tryggja að þeir fái rétt laun og einnig geta þeir þá bent á upptökur ef þeir eru sakaðir um brottkast eða önnur brot á fiskveiðilöggjöfinni.

Rétt er að hafa í huga að langflestar útgerðir fara í einu og öllu að lögum en eins og á öðrum sviðum samfélagsins eru skemmd epli innan um, einstaklingar og fyrirtæki sem hafa brotið fiskveiðilöggjöfina og hagnast á því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar

Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi: Hákarlar margfalda höfuðstól smálána – veiðileyfi í boði ríkisstjórnarinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta