fbpx
Laugardagur 04.maí 2024
Eyjan

Parþenon í miðju Biblíubeltinu

Egill Helgason
Miðvikudaginn 15. ágúst 2018 05:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgin Nashville í Tennessee er frægust fyrir kántrítónlist, Grand Ole Opry og  Johnny Cash. En það er fleira athyglisvert í borginni. Hún þótti á sínum tíma bjóða upp á góða menntun og skóla og fékk í sýslunum í kring viðurnefnið „Aþena suðursins“. Og í anda þess var reist heilt Parþenon í Nashville, eftirlíking þess sem stendur á Akrópólishæð í Aþenu.

Byggingin er sögð vera í fullri stærð. Hún var reist 1897 í tilefni af stórri sýningu þar sem því var fagnað að 100 ár voru liðin frá því Tennessee varð eitt af ríkjum Bandaríkjanna. Þetta var tími stórra sýninga, jafnvel heimssýninga, fólk flykktist að, það voru skálar og útstillingar sem sýndu lífshætti framandi þjóða og svo voru sýndar hinar dásamlegu tækninýjungar sem voru að líta dagsins ljós. Þetta var tími framfara og framfaratrúar. La Belle Époque. Fallegi tíminn.

Parþenon í Nashville ber vott um trú á menntun og menningu. Manni finnst þetta fyrst dálítið kjánalegt, að hafa reist eftirlíkingu af frægustu byggingu heims, sem þó er hálfgerðar rústir, lengst inni í bandarísku sveitahérað, en að baki þessu bjó stórhugur með tilvísunum í lýðræðishugsjónir Aþeninga. Húsinu var reyndar ekki ætlað að standa nema aðeins lengur en sýningin – en svo varð það vinsælt og menn lögðu ekki í að rífa það. En það varð niðurníðslu að bráð, svo nauðsynlegt var að endurbyggja það á árunum 1925 til 1931. Og það stendur enn, virkar býsna sterkbyggt, síðustu viðgerðirnar voru 2002. Og utan á eru eftirlíkingar af lágmyndunum sem vegna frægs þjófnaðar Englendinga hafa fengið hið hvimleiða nafn „The Elgin Marbles“

Inni í húsinu er listasafn á neðri hæðinni, en á þeirri efri er salur – nokkurs konar hof. Þar hefur verið sett upp risastór stytta af gyðjunni Aþenu. Hún var gerð 1990 eftir hugmyndum um það hvernig hin fræga Aþenustytta Fídíasar, frægasta myndhöggavara fornaldar, gæti hafa litið út. Upphaflega styttan glataðist, það er sagt að hún hafi verið fjarlægð úr Parþenon á 5. öld eftir Krist. Sé það rétt hefur hún náð að standa í hofinu í næstum þúsund ár.

Jú, þetta er kyndugt og kúnstugt. Einhvern veginn tengir maður borg eins og Nashville ekki við gríska fornmenningu. Vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar er götuspotti þar sem eru drukkin kynstur af bjór og kántrímúsík hljómar út um hverjar dyr. Hvarvetna er reynt að pranga kúrekahöttum og -stígvélum inn á fólk. Þrenn stígvél fyrir verð einna. En um leið er Nashville borg þar sem hefur verið mikill efnahagsuppgangur, þar eru rómaðir háskólar, og ríkir nokkuð frjálslyndi – líkt og eyja mitt í biblíubeltinu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben