fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Áfangasigur WikiLeaks gegn Valitor í Landsrétti – Umfang tjónsins staðfest

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 19. júlí 2018 12:10

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valitor hf, sem byggt er á grunni kreditkortafyrirtækisins VISA Íslands, lokaði fyrir greiðslugátt fyrirtækisins Datacell árið 2011. Datacell er fyrirtækið sem safnaði greiðslum fyrir Sunshine Press Productions, sem er fyrirtækið að baki WikiLeaks. Bæði Datacell og Sunshine Press Production höfðuðu skaðabótamál á hendur Valitor vegna þessa, sem meðal annars var byggt á dómi Hæstaréttar, sem dæmdi lokunina ólögmæta og skyldaði Valitor til þess að opna fyrir greiðslugáttina að nýju. Kröfðust fyrirtækin rúmlega átta milljarða í skaðabætur.

 

Tjónið metið tæpir sjö milljarðar

Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna beiðni Valitor um að dómkveðja nýja matsmenn í málinu.

„Með þessu hefst lokasókn félaganna í málaferlum gegn Valitor þar sem gerð er krafa um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar lokunar Valitor á greiðslugátt fyrir alþjóðleg framlög til WikiLeaks árið 2011,“

segir í tilkynningu frá Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni, sem fer með mál Sunshine Press Productions og Datacell.

Niðurstaða dómkvaddra matsmanna var að tjónið væri 3,2 milljarðar kr. Er sú fjárhæð í dag með dráttarvöxtum og kostnaði 6,7 milljarðar kr.

Í tilkynningu er sagt „vandséð“ að dómur hnekki mati tveggja dómkvaddra matsmanna, Dr. Russel Lamb og Jóns Scheving Thorsteinssonar, sem staðfest var af þremur yfirmatsmönnum, Gylfa Zoega, prófessor, Sigurði Ingólfssyni, hagfræðingi og Einari Guðbjartssyni dósent í endurskoðun við Háskóla Íslands. „Er enginn slíkur augljós galli á matsgerðinni að leitt geti til þess að dómari færi að víkja henni til hliðar,“ segir í tilkynningu.

Sveinn Andri sagði við Eyjuna að upphæðin gæti lækkað, það fari eftir upphafsdagsetningu dráttarvaxta:

„Einn þátturinn sem ágreiningur er um er upphafsdagur dráttarvaxta. Ef við tækjum þennan höfuðstól sem er niðurstaða dómskvaddra matsmanna og miðum við þær dagsetningar sem lögmenn Valitor vilja nota, þá lækkar krafan niður í um 4,3 milljarða að mig minnir, þannig að það er einn þeirra þátta sem tekist verður á um í dómi. En það sem er mikilvægast er þessi höfuðstóll, því þessi dómur þýðir að ekki verður um frekari dómkvaðningar að ræða, þetta er endanlegt umfang tjónsins. Dómarar hafa heimild til þess að víkja frá niðurstöðum dómskvaddra matsmanna, en til þess þarf þá að vera augljós galli á matinu, sem er ekki í þessu tilfelli.“

Augljós skaðabótaskylda

Árið 2016 fór Valitor fram á yfirmat. Yfirmatsmenn, skiluðu sinni niðurstöðu fyrir rúmu ári. Valitor ákvað að leggja yfirmatið ekki fram í dómi; mat sem fyrirtækið bað sjálft um. Þess í stað óskaði Valitor eftir nýju mati en því var hafnað í Héraðsdómi, í úrskurði sem Landsréttur staðfesti í dag. Þar sem Valitor hefur ekki orðið við áskorun samkvæmt 67. og 68. gr. laga um meðferð einkamála að leggja yfirmatið fram, var lagt til grundvallar í málinu að yfirmatið staðfesti undirmatið.

„Valitor hefur ítrekað lýst því yfir á opinberum vettvangi að fyrirtækið sé ekki skaðabótaskylt gagnvart Sunshine Press Productions (WikiLeaks) þar sem það hafi bara verið í samnings-sambandi við DataCell. Þessi yfirlýsing er einkennileg, þar sem óumdeilt er að Valitor vissi þegar gáttinni var lokað með ólögmætum hætti að um var að ræða söfnunargátt fyrir WikiLeaks. Það læra síðan laganemar á öðru ári að skaðabótakröfur geta stofnast bæði innan samninga og utan og að skaðaverk sem unnið er í tengslum við samning getur leitt til bótaábyrgðar gagnvart aðila sem stendur utan samningssambands. Aðrar málsástæður Valitor í málinu eru ýmis veigalitlar, haldlausar eða hefur verið svarað.“

Kostnaðarsöm töf og kyrrsetning eigna

Þá er Valitor sagt hafa tafið málið í lengstu lög, sem sé afar kostnaðarsamt, ekki síst þar sem fyrirtækið er sagt standa á brauðfótum:

„Krafan hækkar um 2 milljónir króna á dag. Í tvígang hefur frávísunarkröfum Valitors verið hafnað og nú hefur matsbeiðni verið hafnað, sem alltaf blasti við að yrði raunin. Eru tafaúrræði Valitor þrotin og fyrirséð að málið komist loks í aðalmeðferð á haustmánuðum, þremur og hálfu ári eftir þingfestingu. Á meðan á þessu hefur staðið hefur fjárhagsstaða Valitor versnað stöðugt og var svo komið síðla vetrar að Sunshine Press Productions og DataCell sáu sig knúin til að fara fram á kyrrsetningu eigna Valitors, enda ljóst að tæpt stæði að fyrirtækið gæti staðið undir bótakröfum málsins. Í liðinni viku var ljóst að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu myndi fallast á kröfu um kyrrsetningu en á elleftu stundu gátu eigendur Valitors (Valitor Holding og Arion Banki) forðað félaginu undan kyrrsetningargjörðinni með því að setja 750 milljónir króna af nýju hlutafé í félagið. Synjun sýslumanns hefur nú verið kærð til Héraðsdóms Reykjavíkur.“

Lítill vilji til samninga

Aðspurður hvort líklegt sé að samið verði um skaðabætur án aðkomu dómstóla sagði Sveinn Andri:

„Það er svo sem allt til í þessu. En tíminn sem farið hefur í þreifingar um samninga milli aðila eru undir fimm mínútum. Ég hef varið meiri tíma í að semja um bilað klósettrör.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum