fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Segir „ekkert óeðlilegt“ að gera sömu kröfu til launahækkana og alþingismenn

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 6. júlí 2018 14:10

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir í pistli að Alþingi hafi í gegnum „hið óháða“ kjararáð, stýrt bylgju launahækkana til þeirra sem „minnst þurfa á því að halda“ að undanförnu. Í framhaldinu segir hann það ekkert óeðlilegt að rafiðnaðarmenn geri sömu kröfu til launahækkana og alþingismenn, nú þegar örfáir mánuðir séu þangað til flestir kjarasamningar renni úr gildi:

„Það er alls ekki óeðlilegt að ljósmæður fái leiðréttingu á sínum launum líkt og alþingismenn. Það er alls ekki óeðlilegt að lægstu laun verði hækkuð áfram til þess að bæta stöðu þeirra sem lægstu launin hafa. Það er langt frá því að vera óeðlilegt að rafiðnaðarmenn muni gera sömu kröfu til launahækkana líkt og alþingismenn enda erum við sammála Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að það er óeðlilegt að einn hópur sá sem er í efsta lagi samfélagsins fái launahækkanir sem eru jafnvel margföld laun annarra í krónum talið.“

Kristján segir Alþingi og kjararáð, sem lagt var niður um mánaðarmótin, vera fílinn í stofunni og spyr hvernig ríkisstjórnin ætli að bregðast við gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum:

„Á virkilega ekkert að gera til að bæta þeirra stöðu? Ráðherrar vita það að með hækkun kjararáðs á þeirra kjörum þá eru þeir jafnframt að tryggja sér gríðarlega bót á sínum ellilífeyri enda fylgir þeirra ellilífeyrir launum starfanna sem þeir sinna en ekki gengi þeirra lífeyrissjóðs.“

Þá bendir Kristján á það misræmi sem felist í því að ellilífeyrir ráðherra skerðist ekki vegna annarra tekna, meðan svo sé raunin hjá almennum launamanni:

„Fyrrverandi ráðherrar sem dæmi njóta verulega góðs af þessum úrskurðum kjararáðs enda hafa réttindi þeirra aukist verulega við þetta. Hvernig ætli ellilífeyrir þeirra skerðist vegna annarra tekna? Það er kominn tími til að fella út allar skerðingar almannatrygginga hjá hinum venjulega launamanni enda mega þeir sem eru komin á ellilífeyrisaldur lifa betra lífi á ellilífeyri hvort sem þeir vilji halda vinnu áfram eða setjast í helgan stein. Hvað kemur ríkinu við hvort launatekjur séu meiri eða minni á sama tíma og lífeyrir er greiddur út hjá TR?

 

 

Pistill Kristjáns í heild sinni:

Nú eru örfáir mánuðir þar til allflestir kjarasamningar renna úr gildi á almennum vinnumarkaði. Á undanförnum árum hefur íslenska ríkið leitt launasetningu í landinu með gríðarlegum launahækkunum til þeirra sem minnst þurfa á því að halda, launahæsta fólkið í landinu. Alþingi hefur stýrt þessari bylgju í gegnum „hið óháða“ kjararáð sem enginn getur komið vit fyrir.

 Ljósmæður berjast fyrir réttmætum launum en eru hraktar úr starfi vegna launa sem ekki duga til. Fjármálaráðherra stígur iðulega fram og segist ekki geta hækkað einn hóp umfram aðra í landinu, það sé galin hugmyndafræði að samþykkja slíkt. Hann heldur sennilega að almenningur muni ekki svona hluti eða sjái það hreinlega ekki. Nýju fötin keisaranns? Alþingismenn og ráðherrar hafa fengið launahækkanir sem eru svo langt umfram það sem almenningur hefur fengið og ég myndi telja að alþingismenn séu einmitt einn afmarkaður hópur.

 Það er alls ekki óeðlilegt að ljósmæður fái leiðréttingu á sínum launum líkt og alþingismenn. Það er alls ekki óeðlilegt að lægstu laun verði hækkuð áfram til þess að bæta stöðu þeirra sem lægstu launin hafa. Það er langt frá því að vera óeðlilegt að rafiðnaðarmenn muni gera sömu kröfu til launahækkana líkt og alþingismenn enda erum við sammála Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að það er óeðlilegt að einn hópur sá sem er í efsta lagi samfélagsins fái launahækkanir sem eru jafnvel margföld laun annarra í krónum talið.

 En þá er mér jafnframt umhugað um það hvað ætlar ríkisstjórnin að gera gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum? Á virkilega ekkert að gera til að bæta þeirra stöðu? Ráðherrar vita það að með hækkun kjararáðs á þeirra kjörum þá eru þeir jafnframt að tryggja sér gríðarlega bót á sínum ellilífeyri enda fylgir þeirra ellilífeyrir launum starfanna sem þeir sinna en ekki gengi þeirra lífeyrissjóðs.

 Fyrrverandi ráðherrar sem dæmi njóta verulega góðs af þessum úrskurðum kjararáðs enda hafa réttindi þeirra aukist verulega við þetta. Hvernig ætli ellilífeyrir þeirra skerðist vegna annarra tekna? Það er kominn tími til að fella út allar skerðingar almannatrygginga hjá hinum venjulega launamanni enda mega þeir sem eru komin á ellilífeyrisaldur lifa betra lífi á ellilífeyri hvort sem þeir vilji halda vinnu áfram eða setjast í helgan stein. Hvað kemur ríkinu við hvort launatekjur séu meiri eða minni á sama tíma og lífeyrir er greiddur út hjá TR?

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt