fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Eins sorglegt og það er – líklegt að hinn ljúfi Salah missi af HM eftir fólskubrot Ramosar

Egill Helgason
Laugardaginn 26. maí 2018 22:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég er ekki vanur að skrifa mikið um fótbolta. En í kvöld sá maður hversu alþjóðleg knattspyrna getur verið ljót og siðlaus. Sergio Ramos, leikmaður sem er stundum sagður „harður í horn að taka“, en er í rauninni með afbrigðum grófur og tuddalegur, réðst á eina skærustu stjörnu fótboltans Mohamed Salah og tók hann úr axlarlið.

Þetta gerðist snemma í úrslitaleik Evrópukeppninnar þar sem Liverpool og Real Madrid öttu kappi. Í þessum leik var Liverpool lítilmagninn – miðað við gengi undanfarinna áratuga er Liverpool smáfélagvið hliðina á Real Madrid. Árás Ramos á Salah hefði í raun átt að vera óþörf. Madrid sigraði í leiknum eins og flestir bjuggust við, en það getur ekki verið mikil gleði að vinna með þessum hætti.

Salah er nýstirni í fótboltanum. Það er í raun bara í vetur að honum hefur skotið með leifturhraða upp á stjörnufestingu íþróttarinnar. Hann var kosinn leikmaður ársins í Englandi. Hann er frá Egyptalandi, kemur af fátæku fólki og er múslimi – fagnar á leikvelli að hætti þeirra.

Maður veltir fyrir sér hvort leikmaður eins og Ramos hefði lagt í að ráðast með þessum hætti að stjörnu eins og Lionel Messi.

Salah kemur sérstaklega vel fyrir. Hann virðist ljúfur og lítillátur. Frægt er þegar hann gekk að markverði liðs andstæðinga og bað hann afsökunar að hafa skorað hjá honum fjögur mörk í leik. Hann er þjóðhetja í Egyptalandi og það eru sagðar sögur af góðverkum hans. Hann hefur gefið mikið fé til síns gamla heimabæjar, til fólksins þar og til íþróttastarfs. Hann er góð fyrirmynd. Og á tíma þegar múslimar eiga undir högg að sækja, sýnir hann að þeir eru eins og hvað annað fólk – sem á auðvitað ekki að þurfa að taka fram.

Þessi mynd er úr bænum sem Salah ólst upp í og nefnist Nagrig.

 

 

Liverpool tapaði fyrir Real Madrid, eins og áður segir. Það var viðbúið. En Salah fór meiddur af vellinum. Fyrsti leikur Egypta á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi er gegn Uruguay, 15. júní – eftir 19. daga. Svo leika þeir gegn Rússum fjórum dögum síðar. Miklar líkur eru nú á því að Salah missi af þessum leik og líklega heimsmeistarakeppninni allri. Það getur tekið fleiri mánuði fyrir leikmann að ná sér eftir að hafa farið úr axlarliðnum. Fyrir Egypta eru þetta mikil vonbrigði – og líka fyrir alla knattspyrnuunnendur. Salah er einn af þeim leikmönnum sem mestar vonir eru bundnar við á mótinu.

Brot tuddans Ramosar varpar þannig ekki bara skugga á sigur Real Madrid í Evrópukeppninni heldur líka á sjálft heimsmeistaramótið. Máski verður baulað hressilega á hann, en það er lítil bót í máli. Fótboltaáhugamenn um allan heim vildu sjá Salah, en fá það líklega ekki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að