fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Eyjan

Er forysta Sjálfstæðisflokksins klofin í orkumálum ?

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 24. apríl 2018 12:15

Forysta Sjálfstæðisflokksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ályktun frá atvinnuveganefnd landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum vikum segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafni frekari framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Landsfundur hefur æðsta vald í málefnum flokksins og markar heildarstefnu hans í landsmálum, segir í sjöundu grein skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.

Hingað til hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talað nokkuð skýrt gegn því að innleiddur verði þriðji orkupakki Evrópusambandsins á grundvelli EES-samningsins, í íslensk lög, sem túlkaður er af mörgum sem framsal á yfirráðum orkumála Íslands til Brussel.

Það telst því til tíðinda að nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunar, skuli tala með þeim hætti er hún gerði í grein sinni í Morgunblaðinu um helgina, en þar virðist hún tala niður þá áhættu sem innleiðingin er sögð hafa í för með sér:

„Einn helsti sérfræðingur landsins í málaflokknum komst að þeirri niðurstöðu í minnisblaði til atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins, sem nýlega var birt á vef ráðuneytisins, að þriðji orkupakkinn hefði í för með sér „óverulegar breytingar“ hvað varðaði stjórnsýslu og leyfisveitingar orkumála á Íslandi. Sumir andstæðingar málsins hafa helst áhyggjur af áhrifum þess að sæstrengur verði lagður hingað fyrir einskæran þrýsting frá ESB. Enginn sérfræðingur í Evrópurétti hefur léð máls á því, a.m.k. ekki enn sem komið er, að það sé fræðilegur möguleiki að strengur yrði lagður hingað gegn okkar vilja.“

Þá segir Kolbrún einnig:

„Í stjórnarsáttmálanum segir að framkvæmd EES-samningsins sé eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands og Alþingi þurfi að vera virkara á því sviði. Í aldarfjórðung hefur samningurinn kallað á marvígslegar og viðamiklar lagabreytingar hér á landi; evrópskt regluverk um persónuvernd og fjármálamarkaði eru tvö nýleg dæmi. Það hefur aldrei gerst að EFTA-ríki hafni ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu gerða. Mögulega kemur einhvern tímann að því en öll rök hníga að því að það sé slagur sem þurfi að velja vel.“

 

Bjarni Benediktsson talaði um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær:

„Við verðum að ná að greina á milli þegar reglurnar eiga ekki við íslenskar aðstæður og vera ekki að taka þær upp, ég tala nú ekki um að verið sé að ganga lengra en nauðsyn krefur eða farið er fram á af okkur og leiða slíkt í lög á Íslandi, það er alger óþarfi, við eigum að smíða okkar eigin reglur í þeim efnum.“

 

Virðist Bjarni og Kolbrún því ekki alveg samstíga þegar kemur að þessu máli.

 

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, segir erfitt að skilja hvað Þórdís sé að fara í grein sinni, en hann segir hugleiðingar hennar aðeins byggðar á einu minnisblaði frá einum manni:

„Það er veruleiki að verði þessi krafa samþykkt hefur verið opnuð leið til þess að yfirstjórn orkumála á Íslandi endi að lokum í Brussel með sama hætti og aðild að ESB þýddi að fiskveiðum við Íslands strendur yrði stjórnað frá sama stað. Í þessu ljósi er erfitt að skilja hvað nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, er að fara í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag. „Mögulega“ má skilja grein hennar þannig að hún sé að viðra þann möguleika að hafna þessum kröfum ekki. Vonandi er það misskilningur.“

 

ACER er einskonar orkustofnun ESB. Um stofnunina er fjallað á heimasíðu Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum:

„Hlutverk útibúsins… er t.d. að gegna eftirlitshlutverki með raforkuflutningsfyrirtækjum landsins, hér Landsneti, og gefa út allar tæknilegar og viðskiptalegar reglugerðir, sem í raun stjórna starfsemi fyrirtækisins. Útibúið lýtur alfarið boðvaldi ACER. Þetta fyrirkomulag brýtur alfarið í bága við tveggja stoða fyrirkomulagið, sem var forsenda EES-samstarfsins á sinni tíð. Til að draga fjöður yfir stjórnarskrárbrot, sem þetta hefur í för með sér í EFTA-löndum EES, var gripið til þess úrræðis, sem engu breytir í raun að stilla EES upp sem millilið ACER og útibúsins, en ESA hefur samt engar heimildir fengið til að breyta ákvörðunum ACER í einu né neinu. Þetta stjórnskipulega atriði er næg ástæða til að hafna upptöku þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins í EES-samninginn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér

Snorri Jakobsson: Seðlabankinn eins og hundur sem eltir skottið á sér
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?