fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

„Alltaf þótt Dagur B. Eggertsson geðugur maður – Nú kveður við annan tón“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 12. apríl 2018 10:17

Hildur Björnsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir, sem skipar 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, lætur Dag B. Eggertsson borgarstjóra heyra það á Facebooksíðu sinni, fyrir að gera henni upp skoðanir og draga sig í dilka.

Hildur vísar til ummæla Dags í Fréttablaðinu í gær að honum hugnist ekki samstarf með „Morgunblaðsarmi“ Sjálfstæðisflokksins: „

Sjálfstæðisflokkurinn býður fram Morgunblaðsarminn af eigin flokki og setur fram málefnaskrá sem horfir frekar til fortíðar en framtíðar. Mér sýnist Samfylkingin ekki eiga neitt sameiginlegt með þessum armi Sjálfstæðisflokksins.“

Þessi ummæli er Hildur ekki ánægð með:

„Mér hefur alltaf þótt Dagur B. Eggertsson geðugur maður. Nú kveður við annan tón. Borgarstjórinn fer stórum orðum um framboð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Segir okkur tilheyra einhverjum “Morgunblaðsarmi” en hafa á sama tíma tögl og haldir á ritstjórn Fréttablaðsins. Er það ekki svolítil mótsögn – og svolítið alvarlegur atvinnurógur gegn fjölmiðlafólki?“

Segir Hildur og heldur áfram:

„Ekki eingöngu dregur Dagur mig í dilka, hann gerir mér líka upp skoðanir. Segir mig, og aðra frambjóðendur listans, standa fyrir fortíðarþrá. Bætist í hóp frekra karla með kenningar um mínar skoðanir og mitt erindi. Sleppa því að hlusta þegar kona talar – því kona hlýtur almennt að vera handbendi einhverra karla. Viljalaust verkfæri. Skoðanalaus strengjabrúða.

Samfylking býður fram meira af hinu sama – endurunnið fólk með endurunnin loforð. Karlar í forgrunni umræðunnar. Fyrirgefðu Dagur, en hvar geymir þú konurnar á þínum lista?

Að gefnu tilefni. Ég rek mín eigin erindi – og erindi borgarbúa. Ég er ung kona með framtíðarsýn og ég ætla að gera gagn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt