Smári McCarthy þingmaður Pírata segir Sigríði Á. Andersen óhæfa í starfi sínu sem dómsmálaráðherra vegna ummæla um tilhæfulausar hælisumsóknir. Í viðtali við Kasljós í gærkvöldi sagði Sigríður að kostnaður við hælisumsóknir væri hátt í 3 milljarðar og að hælisumsóknirnar væru að stórum hluta tilhæfulausar.
Sjá frétt: Dómsmálaráðherra: Það væri miklu þægilegra ef við gætum vísað frá öllum frá Albaníu og Makedóníu
Sigríður tekur ekki undir gagnrýni formanns lögmannafélagsins um að réttaröryggi flóttamanna og hælisleitenda sé ekki nægjanlega tryggt vegna þess hve stuttan frest þeir hafa til að bera mál sín undir dómstóla. Hér á landi væri réttaröryggi flóttamanna og hælisleitenda vel tryggt og umsóknirnar færu í gengum tvö stjórnsýslustig sem og hægt sé að leita til dómstóla.
Sema Erla Serdar formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur, sagði á Fésbók eftir viðtalið við Sigríði að árið 2016 hafi lögmenn tuttugu hælisleitenda leitað til gjafsóknarnefndar og óskað eftir því að ríkissjóður greiddi fyrir málsókn þeirra, svo þeir gætu freistað þess að fara með mál sín fyrir dómstóla og fengið úrskurðum Útlendingastofnunar um synjun hælisumsókna þeirra hnekkt. Þeim hafi öllum við synjað um gjafsókn. Árið 2015 fengu sex hælisleitendur gjafsókn og nítján árið 2014:
Svo talar ráðherra um tilhæfulausar umsóknir og að það sé vandi að fara þurfi eftir Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um að taka þurfi allar umsóknir um alþjóðlega vernd til meðferðar. Fólki er mismunað eftir þjóðerni og útlit er fyrir að það ráði mestu um niðurstöðu mála. Dæmi: Í dag fengu meira en 10 Kúrdar synjun um hæli – á einu bretti, og komið er fram við hælisleitendur á ómannúðlegan og fjandsamlegan hátt,
segir Sema Erla og bætir við:
Kerfislægir fordómar eru hættulegri en margir fordómar. Það er leitt að sjá að þeir lifa hér sem aldrei fyrr.
Smári McCarthy deilir færslu Semu Erlu á Fésbók, segir hann réttarfarsvernd mikilvægan hlut mannréttinda:
Dómsmálaráðherra segir suma ekki eiga rétt á ákveðnum mannréttindum á grundvelli uppruna eða aðstæðna. Það var meira að segja lögfest nýlega, að fólk frá ákveðnum löndum sem einhver nafnlaus embættismaður hefur sett á lista yfir „örugg“ lönd getur verið neitað um hæli án eðlilegrar athugunar á réttmæti beiðninar. Þetta er algjört stórslys, sem er ekki hægt að fordæma nóg. Sigríður Á Andersen er óhæf í sínu starfi.